Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 947  —  511. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um biðtíma eftir sérfræðilæknum.

     1.      Hversu lengi þarf fólk að meðaltali að bíða þess að komast í skoðun hjá sérfræðilækni eftir að hafa verið vísað þangað? Svar óskast greint eftir sérgrein lækna og kyni sjúklinga.
    Í viðmiðum embættis landlæknis frá árinu 2016 er miðað við að ásættanleg bið eftir skoðun hjá sérfræðingi sé 30 dagar.
    Sem stendur er ekki til miðlæg skráning hvað varðar biðtíma í skoðun hjá sérfræðilækni í gegnum tilvísun. Heimilislæknar verða því í dag að hafa samband við afgreiðslu göngudeilda eða læknastöðva til að fá upplýsingar um biðtímann áður en beiðni er send. Miðstöð um rafrænar heilbrigðislausnir hjá embætti landlæknis vinnur að svokallaðri tilvísanagátt sem bæta mun alla umsýslu og rekjanleika tilvísana. Tilvísanagátt er nú í prufukeyrslu með sérgrein háls-, nef- og eyrnalækninga og ákveðnum heilsugæslustöðvum.
    Á Landspítala er sömuleiðis verið að vinna í tilvísanaferlinu innan sjúkrahúskerfisins, þannig að hægt verði að greina tímann frá beiðni til bókaðs tíma innan hverrar sérgreinar.
    Sjá meðfylgjandi töflu yfir svör heilbrigðisstofnana. Svör eftir kyni sjúklinga bárust ekki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Til hvaða aðgerða hefur eða hyggst ráðherra grípa til þess að stytta biðtíma eftir skoðun í þeim sérgreinum þar sem biðtími er yfir viðmiðunarmörkum embættis landlæknis um það sem getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu?
    Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Markviss uppbygging fjarheilbrigðisþjónustu er einn lykilþátta í jöfnun aðgengis. Í nýuppfærðum lögum um heilbrigðisþjónustu kemur fram að heilbrigðisstofnanir heilbrigðisumdæma skuli skipuleggja og veita fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu í heilsugæslu og annars stigs þjónustu m.a. á dag- og göngudeildum. Þjónusta sérgreinalækna fellur þar undir.
    Í nýrri reglugerð um heilbrigðisumdæmi nr. 1111/2020 er tilgreint í 16. gr. að heilbrigðisstofnunum beri að leggja mat á þörf íbúa heilbrigðisumdæmis fyrir heilbrigðisþjónustu og leggja fram áætlun um hvernig þeim þörfum skuli mætt, með þarfagreiningu.
    Því liggur fyrir að heilbrigðisstofnanir móti sér stefnu um þá göngudeildarþjónustu sem veita skuli innan þeirra umdæmis. Tryggja þarf samþættingu og samfellu þjónustunnar milli þjónustuveitenda og þjónustustiga, skilgreina hvaða þjónustu skuli sinnt í heilsugæslu og hvaða þjónustu skuli sinnt á öðru þjónustustigi með aðkomu sérfræðilækna á göngudeild. Efla þarf göngudeildarþjónustu innan stofnana og tryggja viðunandi stöðugildi sérfræðilækna í sérgreinum fyrir flóknari göngudeildarþjónustu. Efla þarf teymisvinnu innan sjúkrahúsa og tryggja samfellu í þjónustunni.
    Samningar við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna hafa verið lausir frá því í lok árs 2018. Sjúkratryggingar Íslands fara lögum samkvæmt með samningsumboð fyrir hönd ríkisins, en viðmið um biðtíma samkvæmt leiðbeiningum embættis landlæknis eru eitt þeirra samningsmarkmiða sem liggja til grundvallar í viðræðum aðila.

     3.      Hvernig er farið með eftirlit með viðmiðunarmörkum landlæknis í þeim sérgreinum þar sem ekki er kallað eftir upplýsingum um lengd biðtíma eftir viðtali?
    Upplýsingar um biðtíma hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem starfa samkvæmt rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands liggja ekki fyrir. Í samningum aðila eru lögð til almenn viðmið um biðtíma og áhersla er lögð á að veitendur þjónustunnar forgangsraði á listann samkvæmt ástandi sjúklings. Sjúkratryggingar Íslands hafa eftirlit með starfsemi samningsaðila með því að tryggja að tegund, magn, gæði, kostnaður og árangur þjónustu sé í samræmi við gerða samninga.
    Þar til betri yfirsýn fæst með notkun tilvísanagáttar hefur embætti landlæknis viðhaft eftirlit með bið eftir þjónustu sérfræðilækna út frá ábendingum og kvörtunum sem borist hafa embættinu. Embætti landlæknis hefur í sínum úttektum lagt mat á aðgengi og biðtíma, í tengslum við ákveðnar starfsstofur eða sérgreinar.
    Einnig má nefna að embætti landlæknis vinnur nú að innleiðingu á Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019–2030. Liður í þeirri áætlun er að skilgreina gæðavísa, m.a. biðtíma. Þegar innleiðing er lengra komin geta svokölluð gæðauppgjör þjónað þessum tilgangi við eftirlit embættisins.