Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 952  —  513. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um gjöld fyrir rekstrar- og starfsleyfi fiskeldisstöðva.


     1.      Hver eru gjöld fyrir rekstrar- og starfsleyfi fiskeldisstöðva?
    Gjöld fyrir starfsleyfi til fiskeldisstöðva geta numið frá 246.000 kr. til 1.705.000 kr.
    Gjöld fyrir rekstrarleyfi í fiskeldi geta numið frá 476.850 kr. til 1.477.300 kr.

     2.      Er þeim skipt upp í flokka? Ef svo er, eftir hvaða viðmiðum?
    Starfsleyfi fiskeldisstöðva skiptast í þrjá gjaldflokka skv. 4. gr. gjaldskrár Umhverfisstofnunar frá 21. desember 2018 vegna grunngjalds starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun: Gjaldflokkur 1, 705.000 kr. (40 klst.), gjaldflokkur 2, 573.000 kr. (30 klst.) og gjaldflokkur 3, 246.000 kr. (16 klst.). Gjaldflokkar eru reiknaðar út frá umfangi starfsemi og áhættu.
    Rekstrarleyfi í fiskeldi skiptast í sex gjaldflokka skv. 8. gr. gjaldskrár Matvælastofnunar frá 23. febrúar 2018. Flokkarnir eru eftirfarandi:
    1. flokkur – landeldi B/C flokkur (51 klst.)     476.850 kr.
    2. flokkur – landeldi A flokkur (62 klst.)     579.700 kr.
    3. flokkur – sjókvíaeldi annað B/C flokkur (76 klst.)     710.600 kr.
    4. flokkur – sjókvíaeldi annað A flokkur (86 klst.)     804.100 kr.
    5. flokkur – sjókvíaeldi laxfiskar B/C flokkur (118 klst.)     1.103.300 kr.
    6. flokkur – sjókvíaeldi laxfiskar A flokkur (158 klst.)     1.477.300 kr.
    Samkvæmt gjaldskránni á A flokkur við þegar framkvæmdir eru háðar mati á umhverfisáhrifum hjá Skipulagsstofnun, en B og C flokkar eru ekki háðir slíku mati. Þá eru gjaldflokkarnir einnig reiknaðir út frá umfangi starfseminnar.

     3.      Er unnið að endurskoðun á leyfisgjöldum fyrir smærri fiskeldisstöðvar? Ef svo er, við hvaða stærðarflokka er miðað og hvenær má vænta niðurstöðu?
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði hinn 18. febrúar sl. fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar, matvæla og sjávarútvegs (einföldun regluverks). Í frumvarpinu er m.a. lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða á um í reglugerð að starfræksla fiskeldisstöðva á landi, þar sem hámarkslífmassi er allt að 20 tonn á hverjum tíma og starfrækslan er ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sé háð skráningarskyldu í stað útgáfu rekstrarleyfis. Með þessu er fyrst og fremst verið að koma til móts við minni aðila í landeldi með einföldun stjórnsýslu að leiðarljósi. Þá er einnig verið að draga úr þeim kostnaði sem þessir aðilar hafa þurft að bera í tengslum við útgáfu rekstrarleyfa.