Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 977  —  510. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ályktun þingfundar ungmenna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur verið brugðist við ályktun þingfundar ungmenna sem afhent var ráðherra 17. júní 2019? Hvaða aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd og hverjum ekki?

    Þingfundi ungmenna, sem haldinn var í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2019, var ætlað að gefa ungu fólki kost á að kynna sér störf Alþingis og tækifæri til að koma málefnum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar. Ungmennin sem völdust til starfans komu sér saman um þrjú málefni, jafnréttismál, umhverfis- og loftslagsmál og heilbrigðismál, og að loknum þingfundi afhentu ungu þingfulltrúarnir forsætisráðherra þrjár ályktanir sem einnig voru birtar á vef þingsins.
    Í ályktununum er komið inn á mismunandi stjórnarmálefni en með vísan til samræmingar- og samhæfingarhlutverks forsætisráðuneytisins og til þess að forsætisráðherra tók við ályktununum fyrir hönd stjórnvalda kallaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi ráðuneytum um með hvaða hætti brugðist hafi verið við þeim atriðum sem þar eru tilgreind. Atriðin falla nokkuð að áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og umbótum sem unnið hefur verið að yfir lengra tímabil.
    Ályktanir þingfundarins eru teknar upp hér á eftir og rýnt í einstaka þætti þeirra með tilliti til aðgerða sem gripið hefur verið til.

Jafnréttismál.
     Ungmenni brenna fyrir jafnréttismálum í sinni fjölbreyttustu mynd. Hvort sem um er að ræða stöðu fatlaðs fólks, hinsegin fólks, launajafnrétti kynjanna, stöðu innflytjenda á vinnumarkaði eða jafnrétti í íþróttum eru þetta allt málefni sem er mikilvægt að skoða og vinna markvisst að því að gera enn betur. Bregðast verður við slæmri stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, bæta fjárhagsstöðu þess, minnka fordóma gagnvart því og auka samfélagsþátttöku. Það er áhyggjuefni að Ísland sé að dragast aftur úr hvað varðar réttindi hinsegin fólks og mikilvægt að fræða almenning til að draga úr fordómum, styðja við bakið á þeim sem eru hinsegin og vinna að því að uppræta staðalímyndir. Launajafnrétti kynjanna er raunverulegt vandamál sem virðist erfitt að vinna á en aukin fræðsla fyrir ungmenni um kynjafræði, launajafnrétti og launaréttindi almennt eru mikilvægur liður í því að bregðast við. Þessi munur á milli kynjanna kemur einnig fram í íþróttum en þar á að vera sjálfsagt að stelpur fái sambærileg laun og jafnmikla virðingu og athygli fyrir sín afrek í íþróttum og strákar. Það er einnig áhyggjuefni að innflytjendur virðast fá greidd lægri laun en launþegar af íslenskum uppruna og allir ættu að vera sammála um að það á til dæmis ekki að viðgangast að verið sé að mismuna fólki eftir uppruna með þessum hætti, að menntun innflytjenda sé oft ekki metin með réttmætum hætti eða að brottfall sé mun hærra úr framhaldsskóla hjá þeim sem eru af erlendum uppruna.
Staða fatlaðra.

    Meðal markmiða í þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra, njóti sömu tækifæra og mannréttinda og að stuðlað sé að jákvæðu viðhorfi til málefna fatlaðs fólks. Fjölbreyttum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd, eða veittur stuðningur að öðru leyti, í þeim tilgangi að mæta framangreindum atriðum. Má þar nefna bætt aðgengi fatlaðra barna og ungmenna að skipulögðu íþróttastarfi og aðgerðir til að vekja athygli á fjölbreyttu lífi fatlaðs fólks í samfélaginu og draga úr fordómum. Fram undan er umfangsmikið verkefni sem lýtur að því að efla starfsemi notendaráða um land allt þar sem markmiðið er að fötluðu fólki verði gert kleift að hafa aukin áhrif á skipulag og framkvæmd þjónustu sem og önnur hagsmunamál sín.
    Í ljósi þeirra áskorana á vinnumarkaði sem fatlað fólk stendur gjarnan frammi fyrir hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verið falið að kortleggja atvinnumál fólks sem fær þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, í því skyni að kortleggja stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði ítarlega. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar muni nýtast stjórnvöldum við frekari stefnumótun í málaflokknum.
    Árið 2018 framkvæmdi Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stöðumat þar sem könnuð var reynsla fatlaðra þjónustunotenda og forsjáraðila fatlaðra barna af þjónustu og aðgengismálum. Auk þess var spurningalisti lagður fyrir úrtak almennings um viðhorf til þátttöku fatlaðs fólks á ýmsum sviðum samfélagsins, þekkingu á aðstæðum þess og á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nú stendur yfir endurtekning á því stöðumati í þeim tilgangi að fá samanburð á stöðunni við upphaf og lok framkvæmdaáætlunarinnar.

Málefni hinsegin fólks.
    Mikilvægar umbætur hafa verið gerðar á réttarstöðu hinsegin fólks undanfarin misseri. Lög um kynrænt sjálfræði sem gengu í gildi í júlí 2019 tryggja rétt einstaklinga þegar kemur að skráningu kyns í samræmi við kynvitund hvers og eins. Enn fremur er viðurkenndur réttur þeirra sem skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar til að taka upp hlutlausa kynskráningu og sjálfsákvörðunarréttur hvers og eins styrktur þar sem skilningur viðkomandi er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu kyns. Lögin tryggja enn fremur líkamlega friðhelgi og leggja bann við ónauðsynlegum breytingum á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni án samþykkis viðkomandi, sem er mikilvæg réttarbót fyrir intersex einstaklinga.
    Ný jafnréttislög, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, endurspegla betur en fyrri löggjöf þann veruleika sem dreginn er upp í lögum um kynrænt sjálfræði þar sem þau taka nú ekki eingöngu til karla og kvenna heldur einnig þeirra sem hafa tekið upp hlutlausa kynskráningu.

Kynbundinn launamunur.
    Innleiðing jafnlaunastaðals og jafnlaunavottun eru liðir í því að uppræta kynbundinn launamun. Hagstofan vinnur að launarannsókn sem nær yfir allan vinnumarkaðinn og mun m.a. leiða í ljós þau áhrif sem innleiðing staðalsins hefur haft á kynbundinn launamun. Þá styrkja ný jafnréttislög ferli jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar þar sem eftirlit með hvoru tveggja er fært undir Jafnréttisstofu með það að markmiði að tryggja betur skilvirkt og faglegt eftirlit.
    Í kjölfar kjarasamninga á árinu 2020 var skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneyta og aðilum vinnumarkaðar sem ætlað er að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma kynbundnum launamun, sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og vanmati á störfum þar sem konur eru í meiri hluta. Stefnt er að því að niðurstöður hópsins liggi fyrir á árinu 2021.
    Þá hefur verið gripið til aðgerða til að vinna gegn kynbundnu náms- og starfsvali með námskynningum á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði sem og starfsnámi á framhaldsskólastigi. Markmiðið er að gera þessar námsleiðir aðgengilegri og áhugaverðari fyrir nemendur með áherslu á aukinn hlut stúlkna, til að jafna kynjahlutföll í þessum greinum.

Jafnræði milli kynja í íþróttum.
    Jafnrétti og öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og unglinga og forvarnir gegn kynbundnu brotthvarfi úr íþróttum er verkefni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að í samstarfi við dómsmálaráðuneyti og embætti ríkislögreglustjóra. Lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs voru sett árið 2019. Markmið laganna er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggi umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþrótta- og æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.
    Í þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, sem var samþykkt á Alþingi árið 2020, er áhersla lögð á fræðslu og forvarnir í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Eftirfylgni með forvarnaáætluninni er í höndum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem sérstakur forvarnafulltrúa mun taka til starfa á árinu 2021.
    Í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema vinnur mennta- og menningarmálaráðuneyti einnig að verkefni sem stuðlar að jafnrétti í félagslífi framhaldsskóla, með því að jafna þátttöku kynjanna í öllum þáttum félagslífs og ýtir einnig undir þátttöku nemenda af erlendum uppruna og fatlaðra nemenda.

Innflytjendur.
    Í gildandi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er lögð áhersla á mat á menntun og launajafnrétti á vinnumarkaði með það að markmiði að innflytjendur fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vinna við nýja framkvæmdaáætlun stendur yfir og fyrirhugað er að drögin verði kynnt almenningi til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda síðar á árinu 2021. Ætlunin er að innan menntastoðar og vinnumarkaðsstoðar áætlunarinnar verði aðgerðir sem tengjast þeim atriðum sem nefnd eru í tengslum við innflytjendur í ályktun þingfundar ungmenna.
    Allar aðgerðir menntastoðar framkvæmdaáætlunarinnar miða með einum eða öðrum hætti að því að nýta menntun og mannauð innflytjenda, þeim sjálfum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Innflytjendum verði gert auðveldara að fá menntun sína metna svo að þeir geti stundað atvinnu hér á landi og nýtt þekkingu sína og hæfileika sem best.
    Í vinnumarkaðsstoð áætlunarinnar eru dregnar fram þær aðgerðir sem snúa að innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði þar sem áhersla er lögð á aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi meðal innflytjenda og stuðla enn fremur að því að innflytjendur hafi jafnan aðgang að störfum, fái greidd sömu laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
    Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
    Þá fer Vinnumálastofnun með framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, en meðal almennra skilyrða fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis hér á landi á grundvelli laganna er að fyrir liggi undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings sem tryggir útlendingnum laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um.
    Innan félagsmálaráðuneytisins er unnið að margvíslegum verkefnum sem styðja við einstaklinga af erlendum uppruna. Í því sambandi má sérstaklega nefna að í febrúar 2021 var opnuð Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur en um er að ræða reynsluverkefni til níu mánaða. Hlutverk Ráðgjafarstofunnar er að veita innflytjendum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi helstu samskipti við bæði stofnanir og sveitarfélög. Ráðgjafarstofan vinnur með Fjölmenningarsetri, Vinnumálastofnun og öðrum stofnunum og sveitarfélögum.

Heilbrigðismál.
     Ungmennum finnst mikilvægt að hugað sé að forvörnum hvað heilbrigðismál varðar og að áhersla sé lögð á að skapa dugandi og heilbrigt samfélag. Virk þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, regluleg hreyfing, fræðsla um geðheilbrigði og næringu og markviss vinna gegn skólaforðun eru góð dæmi um það sem þarf að huga að í þessu samhengi. Skoða verður sérstaklega snjalltækjanotkun og þau áhrif sem hún getur haft á þroska barna í fjölbreyttu samhengi. Mikið hefur verið rætt um aukinn kvíða og depurð barna og unglinga og niðurstöður rannsókna sýna fram á að það er ástæða til að hafa áhyggjur. Það er því mikilvægt að tryggja gott aðgengi barna og ungmenna að sálfræðiþjónustu til að hægt sé að grípa inn í ef á þarf að halda. Það verður að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi sem styðja við heilbrigðan lífsstíl, vellíðan og hamingju.

Heilsuefling og forvarnir.
    Embætti landlæknis stendur fyrir verkefninu heilsueflandi skólar, en markmiðið er að stuðla að betri heilsu og vellíðan nemenda á öllum skólastigum. Heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda, stuðlar að bættum námsárangri og dregur úr brottfalli. Allir framhaldsskólar á landinu taka þátt í heilsueflandi framhaldsskólum.
    Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) sem starfar innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hóf störf haustið 2018 og leiðir faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu. ÞÍH vinnur að eflingu og samhæfingu geðræktarstarfs og forvarna og stuðningi við börn og ungmenni, m.a. með aukinni áherslu og fræðslu í skólahjúkrun, ungbarnavernd og annarri þverfaglegri heilsugæsluþjónustu í geðheilbrigðismálum. Skimanir fyrir geðheilsuvanda hafa verið auknar í skólaheilsugæslu. Þá stendur framhaldsskólanemum, eins og öðrum, til boða sálfræðiþjónusta í heilsugæslu um land allt.

Skólaforðun.
    Hafin er vinna við endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla að því er varðar undanþágur frá skólasókn og skyldunámi í því skyni að koma til móts við kröfur um skýrari leiðbeiningar varðandi undanþágur á grunnskólastigi og um leiðsögn um aðgerðir skóla til að fást við skólaforðun.

Snjalltækjanotkun.
    Tekið hefur verið saman upplýsingaefni á vefsíðunni heilsuvera.is um börn og skjánotkun og settar fram leiðbeiningar um skjánotkun barna á mismunandi aldursskeiðum. Þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig foreldrar geta haft áhrif á og aðstoðað börn við að setja sér mörk og hvert hægt er að leita eftir aðstoð ef áhyggjur vakan um skjánotkun barns.
    Heilsugæslan býður upp á aðstoð ef foreldrar telja að skjánotkun barns sé komin út fyrir eðlileg mörk. Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Þroska- og hegðunarstöð hefur hannað og heldur utan um og kallast Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar og er sérstaklega þróað fyrir foreldra á Íslandi og styðst við viðurkennd fræði og vel rannsakaðar aðferðir. Á námskeiðinu er lögð áhersla á jákvæðar aðferðir til að laða fram æskilega hegðum og fyrirbyggja erfiðleika.

Sálfræðiþjónusta.
    Í samræmi við geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda frá 2016 skilaði starfshópur tillögum í lok árs 2019 um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólastarfi. Hópurinn fór m.a. yfir stöðu geðræktarstarfs í íslenskum skólum, þær aðferðir sem þar eru notaðar og hversu vel þær eru studdar rannsóknum. Einnig greindi hann hvaða þjálfun og fræðsla fer fram um þroska barna, geðheilsu og geðrækt í skólastarfi og menntun kennara og námsráðgjafa. Tillögur hópsins fela í sér 40 aðgerðir sem ná bæði til skólakerfisins og annarra kerfa sem sinna velferð barna og ungmenna. Skipaður hefur verið stýrihópur til þess að fylgja eftir innleiðingu aðgerðanna. Embætti landlæknis ber ábyrgð á því verkefni og embættið leiðir einnig hóp um skimun, hegðun og félagsfærni í grunnskólum.

Uppeldisaðstæður.
    Heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Með ályktuninni er haldið áfram á þeirri vegferð sem mörkuð var í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 þar sem mótaður var fyrsti hluti stefnu og aðgerða sem stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu á öllum aldursskeiðum.

Umhverfis- og loftslagsmál.
     Bregðast verður við loftslagsbreytingum og mengun áður en það er orðið of seint, m.a. með því að endurheimta votlendi, fækka ökutækjum sem knúin eru með óendurnýjanlegum orkugjöfum, fjölga hleðslustöðum fyrir rafmagnsbíla, setja mengunarskatt á bensín og díselbíla og grípa til aðgerða vegna mengunar fiskeldis í sjó. Vinna verður að vistvænni og sjálfbærri matvælaframleiðslu, leita leiða til að minnka matarsóun og minnka kjötneyslu. Samræma verður og einfalda flokkun sorps en eins og staðan er núna er verið að vinna að þessum málum með ólíkum hætti eftir sveitarfélögum. Þar má sem dæmi nefna að ekki er alls staðar gert ráð fyrir flokkun á lífrænu sorpi. Ungmenni telja löngu tímabært að íslensk stjórnvöld taki til hendinni og verndi náttúruna fyrir frekari skaða.

Hleðslubúnaður fyrir rafmagnsbíla.
    Eitt af því sem gert hefur verið til að stuðla að aukinni hlutdeild rafmagnsbíla, í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum, eru breytingar á lögum um fjöleignarhús árið 2020, sem gera íbúum betur kleift að koma slíkum búnaði fyrir í fjöleignarhúsum.

Skattlagning ökutækja.
    Bifreiðagjald tekur mið af skráðri losun ökutækis á koltvísýringi og felur þannig í sér hagrænan hvata til að draga úr mengun. Þá hafa um nokkurt skeið verið veittar ívilnanir við kaup á ökutækjum sem knúin eru af endurnýjanlegum orkugjöfum með eftirgjöf virðisaukaskatts að hluta eða öllu leyti, auk hagrænna hvata vegna fyrninga umhverfisvænna ökutækja af hálfu fyrirtækja.

Áhrif fiskeldis í sjó.
    Starfsemi fiskeldisstöðva er háð rekstrarleyfi Matvælastofnunar og starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna þátta er snúa að mengunarvörnum. Í starfsleyfum eru ákvæði um kynslóðaskipt eldi þar sem svæði eru hvíld á milli árganga, en það fyrirkomulag minnkar líkur á óæskilegri uppsöfnun lífræns úrgangs undir kvíasvæðum. Mörk eru einnig sett í starfsleyfi fyrir losun lífræns úrgangs. Enn fremur er sú skylda lögð á rekstraraðila að leggja fram mæli- og vöktunaráætlanir áður en starfsemi er hafin og er hún háð samþykki Umhverfisstofnunar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði forgöngu um að umhverfisstaðall í fiskeldi yrði staðfestur hérlendis og tók hann gildi árið 2016. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggist á staðlinum.
    Gildi rekstrarleyfis í sjókvíaeldi er háð því skilyrði að hönnun sjókvíaeldisstöðva uppfylli kröfur ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Þá hefur lögfesting áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats í fiskeldislögum árið 2019 stuðlað að því draga úr þeim umhverfisáhrifum á vistkerfi sem geta orðið vegna fiskeldis í sjó. Með framangreindum lagabreytingum hefur því verið unnið að uppbyggingu fiskeldis sem atvinnugreinar með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Jafnframt hefur verið tryggt að nauðsynlegar rannsóknir séu framkvæmdar ásamt eðlilegri vöktun áhrifa á lífríkið.

Vistvænni og sjálfbærari matvælaframleiðsla.
    Í nýrri matvælastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, Matarauðlindin Ísland frá 2020, er lögð áhersla á sjálfbærni við matvælaframleiðslu. Í stefnunni er fjallað um sjálfbæra nýtingu auðlinda, líffræðilega fjölbreytni, hringrásarhagkerfi og loftslagsbreytingar og kolefnishlutleysi. Henni fylgir aðgerðaáætlun sem m.a. lýtur að rekjanleika, merkingum, minni plastnotkun og bættum neysluvenjum.

Leiðir til að minnka matarsóun.
    Í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2020 er að finna aðgerð sem snýr að minni matarsóun. Þá skal nefnt að starfshópur ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka skilaði 24 tillögum að aðgerðum gegn matarsóun á Íslandi til næstu ára, sem settar voru í opið samráðsferli sumarið 2020. Tillögurnar og umsagnir sem bárust um þær eru í vinnslu.

Kjötneysla.
    Tæpt er á minni kjötneyslu í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2020 og hún sett í samhengi við opinber innkaup. Þar er jafnframt vísað til Innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila frá 2019 en í henni kemur fram að mögulegt sé að draga úr kolefnisspori máltíða í mötuneytum ríkisins með því að skipta út rauðu kjöti fyrir aðra próteingjafa og að stefna ætti að því að halda neyslu á rauðu kjöti í hófi, í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis.

Samræming og einföldun sorpflokkunar og flokkun á lífrænu sorpi.
    Í undirbúningi er lagafrumvarp vegna innleiðingar hringrásarhagkerfisins þar sem m.a. verður lagt til að við meðhöndlun úrgangs verði notast við samræmdar merkingar á landinu öllu fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Í frumvarpinu verður einnig lagt til að sérstök söfnun á lífúrgangi verði gerð að skyldu, ásamt sérstakri söfnun annarra flokka heimilisúrgangs. Lífúrgangur er m.a. lífbrjótanlegur garðaúrgangur og matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum og fyrirtækjum.

Viðbrögð við loftslagsbreytingum og mengun, endurheimt og varðveisla votlendis.
    Stefna stjórnvalda í loftslagsmálum er í samræmi við þá ályktun þingfundar ungmenna að bregðast verði við loftslagsbreytingum og mengun áður en það er orðið of seint. Frá því að ályktunin var lögð fram hefur verið sett fram endurskoðuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem tekið er á flestum þeim þáttum sem vikið er að í ályktuninni. Megináherslur lúta að orkuskiptum í samgöngum og bættri landnýting. Í áætluninni eru settar fram alls 48 aðgerðir sem snúa að mismunandi uppsprettum losunar og aukinni kolefnisbindingu.
    Fimm aðgerðir varða bætta landnýtingu og byggjast þær á áætlun um Bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála. Þar er m.a. lögð áhersla á bættan kolefnisbúskap og verndun lífríkis. Ein snýr að endurheimt votlendis til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og önnur felur í sér að koma í veg fyrir frekari framræslu votlendis hér á landi. Aðrar aðgerðir fjalla um samgöngur á landi og hafa það að markmiði að draga úr losun, m.a. með því að fækka ökutækjum sem knúin eru með óendurnýjanlegum orkugjöfum og fjölga hleðslustöðum fyrir rafmagnsbíla og þar með draga úr mengun frá bensín- og dísilbílum. Aðgerðirnar munu einnig auka veg almenningssamgangna og hvetja fólk til að hjóla og ganga. Til viðbótar má nefna að nú eru ríkisaðilar skyldaðir til að kaupa vistvænar bifreiðar við endurnýjun bílaflota í samræmi við áætlunina. Í henni er einnig gert ráð fyrir að nýskráning bensín- og dísilbíla verði óheimil árið 2030. Þá er í aðgerð sem varðar kolefnisgjald tekið heildstætt á losun kolefnis frá jarðefnaeldsneyti, bæði frá samgöngum og öðrum uppsprettum.
    Í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að finna fimm aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði. Aðgerð um loftslagsvænni landbúnað felur í sér heildstæða ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur um hvernig þeir geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og aukið kolefnisbindingu á búum sínum. Aðgerð um kolefnishlutleysi í nautgriparækt felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá greininni og auka kolefnisbindingu. Aðgerð um aukna innlenda grænmetisframleiðslu er ætlað að auka framleiðslu og stuðla að kolefnishlutleysi í garðyrkju. Aðgerð um bætta nýtingu og meðhöndlun áburðar miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar bænda og aðgerð um bætta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun hefur það að markmiði að draga úr losun frá jórturdýrum. Einnig má nefna að aðgerð er lýtur að minni matarsóun hefur það að markmiði að draga markvisst úr sóun og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna hennar.