Ferill 585. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 993  —  585. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (mennta- og menningarmál).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á X. kafla laganna:
     1.      Á eftir 30. gr. kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vinnsla persónuupplýsinga.

                      Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að veita börnum í leikskóla lögbundna þjónustu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar barna, svo sem vegna skimana, mats, greininga og vottorða.
                      Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita börnum lögbundna þjónustu, þ.m.t. Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, félagsþjónustu sveitarfélaga, grunnskóla, stofnana og fagaðila sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverkum sínum.
                      Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum ber að upplýsa foreldra og forsjáraðila í skilningi barnalaga um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
                      Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.
     2.      Fyrirsögn kaflans verður: Meðferð ágreiningsmála og vinnsla persónuupplýsinga.

2. gr.

    Í stað orðsins „sérfræðiþjónustu“ í öllum beygingarföllum í 4., 12., 21., 22., og 25. gr., í fyrirsögn 21. og 22. gr. og í fyrirsögn VIII. kafla laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: skólaþjónustu.

II. KAFLI

Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.

3. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. bætist: t.d. í félagsmiðstöð, í frístundastarfi eða skólahljómsveit.

4. gr.

    Á eftir 47. gr. laganna kemur ný grein, 47. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að veita nemendum í grunnskóla lögbundna þjónustu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna skimana, greininga, vottorða, námsmats og í tengslum við framkvæmd samræmdra könnunarprófa.
    Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita nemendum lögbundna þjónustu, þ.m.t. Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, félagsþjónustu sveitarfélaga, félagsmiðstöðva, frístundaheimila, leikskóla, stofnana og fagaðila sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverki sínu.
    Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum þessum ber að upplýsa foreldra og forsjáraðila í skilningi barnalaga um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.

III. KAFLI

Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     1.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Framhaldsskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, um vímuefna- og áfengisnotkun í tengslum við viðburði á vegum nemendafélaga skv. 39. gr. laganna og heilsufarsupplýsingar um nemendur með sérþarfir í skilningi 34. gr. laganna.
                      Um þagnarskyldu starfsmanna framhaldsskóla fer eftir X. kafla stjórnsýslulaga og gildir hún einnig um þriðja aðila sem rækir þjónustu í þágu framhaldsskóla. Um trúnað og þagnarskyldu fer að öðru leyti eftir ákvæðum annarra laga.
     2.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingagjöf og vinnsla persónuupplýsinga.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015.

6. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna upplýsingakerfa um námsefni og námsmat. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna innritunar í framhaldsskóla, innlendra og erlendra skólaverkefna og framkvæmdar samræmdra könnunarprófa.
    Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er, um skólastjórnendur og starfsfólk til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna ytra mats og kannana. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar skólastjórnenda og starfsfólks, svo sem við veitingu leyfisbréfa og veitingu undanþágu til kennslustarfa, í tengslum við alþjóðlegar rannsóknir á aðstæðum og vinnuumhverfi kennara og skólastjórnenda.
    Menntamálastofnun er heimil öflun persónuupplýsinga um nemendur í tengslum við lögbundin verkefni stofnunarinnar, svo sem frá leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, sveitarfélögum og frá þeim aðilum sem veita nemendum þjónustu samkvæmt sérlögum.
    Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.

V. KAFLI

Breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998.

7. gr.

    Við 3. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðila sem fer með framkvæmd lyfjaeftirlits er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi að sinna lyfjaeftirliti, um lyfja-og vímuefnanotkun og heilsufar þegar íþróttamaður fer í lyfjapróf ef grunur leikur á eða ábendingar berast um að hann hafi neytt efna eða beitt aðferðum sem bannaðar eru samkvæmt Alþjóðalyfjaeftirlitinu. Samkeyrsla skráa aðila sem fara með framkvæmd lyfjaeftirlitsins við kennitölur félagakerfis Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er heimil í tengslum við athugun á meintri lyfja- og vímuefnanotkun, meðal annars í tengslum við uppljóstrunarkerfi

VI. KAFLI

Breyting á bókasafnalögum, nr. 150/2012.

8. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hljóðbókasafni Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna afgreiðslu umsókna um afnot af safninu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, svo sem greiningar og vottorð til staðfestingar á þjónustu við einstaklinga með prentleturshömlun. Safninu er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem því berast frá umsækjendum eða frá þriðja aðila í umboði umsækjanda, svo sem frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum og sérfræðingum í lestrargreiningu.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á I. kafla laganna:
     1.      Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
                      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar vegna beiðna um táknmálstúlkaþjónustu, kennslu táknmáls, máltöku barna og í þágu rannsókna á íslensku táknmáli.
                      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil öflun og miðlun persónuupplýsinga þegar nauðsyn krefur, þ.m.t. til og frá leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og aðilum samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.
                      Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð samkvæmt þessu ákvæði.
     2.      Fyrirsögn kaflans verður: Markmið, gildissvið og vinnsla persónuupplýsinga.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.

10. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Rannsóknamiðstöð Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar umsækjenda með sérstakar þarfir eða fötlun við undirbúning og veitingu styrkja.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     1.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Fjölmiðlanefnd er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg við athugun á þeim málum sem nefndin vinnur að í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum. Fjölmiðlanefnd er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, kynhneigð og kynhegðun vegna kvartana sem henni berast á grundvelli þess að fjölmiðlaveita hafi brotið gegn grundvallarréttindum einstaklinga um friðhelgi einkalífs og mannréttindi þeirra.
                      Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð samkvæmt þessu ákvæði.
     2.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málsmeðferð og vinnsla persónuupplýsinga.

X. KAFLI

Breyting á lögum um háskóla, nr. 63/2006.

12. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, svohljóðandi:
    Háskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er um umsækjendur og nemendur til að sinna lögbundnu hlutverki sínu , þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, um heilsufar nemenda í tengslum við inntöku og vegna þeirra þjónustu sem til þarf samkvæmt 19. gr. laganna. Háskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynleg þykir í tengslum við meint brot sem geta leitt til brottrekstrar nemenda og annarra viðurlaga. Háskólum er heimil vinnsla um þjóðernislegan bakgrunn nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir í þeim tilgangi að styðja við þá og komast hjá brotthvarfi þeirra.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við stofnanir sem heyra undir ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins. Frumvarpið er samið til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem tóku gildi hér á landi 15. júlí 2018 og komu í stað laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, í tengslum við innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB, einnig nefnd almenna persónuverndarreglugerðin (e. GDPR).
    Í nýjum lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru gerðar auknar kröfur til ábyrgðar- og vinnsluaðila um skýrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Í ýmsum lögum sem heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis sem stofnanir ráðuneytisins vinna eftir er gert ráð fyrir vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga og í einhverjum tilvikum án þess að gert hafi verið ráð fyrir skýrum lagaheimildum til slíkrar vinnslu í samræmi við auknar kröfur persónuverndarlöggjafar. Með frumvarpinu er leitast við að skerpa og styrkja heimildir til vinnslu persónuupplýsinga.
    Dómsmálaráðherra setti af stað vinnuhóp vegna innleiðingar persónuverndarreglugerðarinnar við undirbúning frumvarpsins sem varð að lögum nr. 90/2018. Upphaflega var gert ráð fyrir því að lögin yrðu safnlög en horfið var frá því eftir að í ljós kom að gera þyrfti ýmsar efnislegar breytingar á ákvæðum sérlaga á málefnasviðum Stjórnarráðsins. Hverju einstöku fagráðuneyti er því gert að leggja til viðeigandi breytingar á lögum sem heyra undir málefnasvið þess svo að ákvæði er kveða á um vinnslu persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Við vinnslu frumvarpsins sem varð að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, var ákveðið að gera aðeins lágmarksbreytingar á ákvæðum annarra laga vegna tilvísana til eldri laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, með síðari breytingum. Gert var ráð fyrir að hvert og eitt ráðuneyti færi í frekari efnislega endurskoðun á ákvæðum laga sem falla undir málefnasvið viðkomandi ráðuneytis. Með þeim breytingum sem eru lagðar til í frumvarpi þessu er veitt viðhlítandi lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga til samræmis við gildandi lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá þeim stofnunum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og starfa samkvæmt þeim lagabálkum sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis til að skýra nánar heimildir stofnana sem heyra undir ráðuneytið til vinnslu persónuupplýsinga til samræmis við kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sérstaklega um skýrleika lagaákvæða sem heimila vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Margir lagabálkar á málefnasviðum ráðuneytisins fela í sér lögbundna þjónustu við börn og ungmenni í tengslum við menntastofnanir, þar á meðal lög um leikskóla, lög um grunnskóla og lög framhaldsskóla. Mikilvægt er að lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði sé skýr og að heimild til vinnslu persónuupplýsinga grundvallist á lagaheimild. Við vinnslu frumvarpsins var einnig horft til þess að afnema hindranir í skólakerfinu með því að veita þeim stofnunum og aðilum sem veita börnum lögbundna þjónustu heimildir til vinnslu nauðsynlegra persónuupplýsinga en samhliða að réttindi einstaklinga séu tryggð.
    Málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis nær til fjölbreyttrar starfsemi, þ.m.t. háskóla, vísindarannsókna, fræðslumála, námsaðstoðar, safnamála, menningarminja, lista og menningar, fjölmiðla og íþrótta- og æskulýðsmála, en nauðsynlegt er að styrkja lagagrundvöll fyrir heimild til vinnslu persónuupplýsinga í ýmsum lögum er lúta að framangreindri starfsemi. Um er að ræða breytingu á lögum um leikskóla, nr. 90/2008, lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, lögum um opinberan stuðning til vísindarannsókna, nr. 3/2003, íþróttalögum, nr. 64/1998, bókasafnalögum, nr. 150/2012, lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990, lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, og lögum um háskóla, nr. 63/2006.
    Auk þess eru gerðar minni háttar breytingar á ákvæðum laga um leikskóla og grunnskóla.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ísland hefur leitt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 í íslenskan rétt með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, í samræmi við skyldu. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar á ýmsum lögum er heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis til að skýra nánar heimildir stofnana sem heyra undir ráðuneytið til vinnslu persónuupplýsinga til samræmis við kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, einkum með tilliti til kröfu um skýrleika lagaákvæða sem heimila eða fela í sér vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Fram hefur komið að margir lagabálkar á málefnasviðum ráðuneytisins fela í sér lögbundna þjónustu við börn og ungmenni í tengslum við menntastofnanir, þar á meðal lög um leikskóla, lög um grunnskóla og lög framhaldsskóla. Mikilvægt er að tryggja lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði og öðrum sé skýr og grundvallist á lagaheimild. Ákvæði frumvarpsins eiga ekki að ganga gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands eða alþjóðlegum skuldbindingum enda einungis verið að tryggja að ákvæðin gangi ekki gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við þær stofnanir sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins og starfa á grundvelli þeirra laga sem lagt er til í frumvarpinu að verði breytt. Ráðuneytið hafði samráð við forstöðumenn stofnana og þá aðila sem þekkja til vinnslunnar sem fer fram hjá viðkomandi stofnun. Ítarlegt samráð var haft við Samband íslenskra sveitarfélaga en fundað var með sambandinu í nokkur skipti um breytingar á skólalöggjöfinni. Í undirbúningsvinnu að frumvarpinu sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti bréf til stofnana þar sem óskað var eftir ábendingum eða athugasemdum vegna fyrirhugaðra lagabreytinga á sérlögum. Stofnanir eins og Hljóðbókasafn Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Rannsóknamiðstöð Íslands, Menntamálastofnun, framhaldsskólar, fjölmiðlanefnd, Háskóli Íslands, auk Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands voru í góðu samstarfi við ráðuneytið. Persónuverndarfulltrúi Stjórnarráðsins veitti góðar ábendingar. Þá kom velferðarsvið Reykjavíkurborgar með ábendingar.
    Drög að frumvarpinu voru send Persónuvernd og var haldinn einn fundur með stofnuninni þar sem komu fram góðar leiðbeiningar. Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is, mál nr. S-2/2020, en engar umsagnir bárust um þau. Frumvarpsdrögin birtust til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is, mál nr. S-233/2020, 3. til 16. nóvember 2020, þar sem kallað var eftir umsögnum. Þrjár umsagnir bárust, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og ein frá einstaklingi. Ábendingarnar lutu að breytingu á lögum um leikskóla og grunnskóla til samræmingar á orðalagi og upptalningu stofnana. Tekið var tillit til þeirra og lítilsháttar breytingar gerðar á orðalagi til samræmis við þær og bætt við grunnskóla í upptalningu í samræmi við ábendingu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði auk þess eftir breytingum á heimild til að afla sakavottorðs starfsmanna sem ráðnir eru til starfa í leik- og grunnskólum á grundvelli laga um leikskóla og laga um grunnskóla. Ábendingin beindist að því hvort hægt væri að bæta við heimild til þess að kalla eftir endurnýjun sakavottorða eftir að einstaklingar hafa hafið störf. Að auki hvatti Sambandið ráðuneytið til að skoða sambærileg lagaákvæði í öðrum lögum á málefnasviði þess. Ráðuneytið hefur þetta mál nú þegar til skoðunar og verður það kannað sérstaklega. Persónuvernd sendi ráðuneytinu umsögn um framvarpsdrögin 24. nóvember 2020 þar sem aðallega voru gerðar athugasemdir um heimildir Menntamálastofnunar til vinnslu persónuupplýsinga. Ráðuneytið gerði úrbætur á frumvarpsdrögunum og óskaði eftir viðbótarumsögn Persónuverndar eftir þá vinnu. Viðbótarumsögn barst 16. febrúar 2021. Þar kom fram að mati Persónuverndar að umtalsverð vinna hafi verið færði í lagfæringar hjá ráðuneytinu og engar efnislegar athugasemdir gerðar við frumvarpsdrögin.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á þjónustu við einstaklingana sem eiga í hlut eða aukið umfang stofnana. Eingöngu er verið að styrkja þann lagagrundvöll sem fyrir er svo að viðkomandi stofnanir geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga, sérstaklega vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Auk þess er verið að tryggja betur réttindi einstaklinga vegna vinnslu persónuupplýsinga þannig að hún samrýmist persónuverndarlöggjöfinni. Frumvarpið ætti því ekki að hafa áhrif á hagsmuni almennings að öðru leyti eða hagsmunaaðila.
    Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið muni hafa í för með sér frekari fjárhagsáhrif en það frumvarp sem varð að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, ætti enginn viðbótarkostnaður að falla á þá opinberu aðila sem frumvarpið snertir umfram það sem varð með gildistöku framangreindra laga. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð eða sveitarfélögin. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.
    Með frumvarpinu er meginmarkmið að skýra lagagrundvöll fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem fer nú þegar fram innan hlutaðeigandi stofnana. Þar af leiðandi er það mat ráðuneytisins að ekki þurfi að fara fram frekara mat á áhrifum á persónuvernd fyrir þá vinnslu sem fer þegar fram þótt æskilegt kunni að vera að stofnanir framkvæmi slíkt mat reglulega og þá sérstaklega ef fyrirkomulagi vinnslu er breytt eða teknar eru í notkun nýjar tæknilausnir við vinnslu persónuupplýsinga.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga fyrir leikskóla, skólaþjónustu og þá aðila er lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum um leikskóla, þ.e. þeim sem veita þjónustu samkvæmt lögum um leikskóla. Tilgangurinn með þessari grein er að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga eigi sér fullnægjandi lagastoð í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuupplýsingar sem unnar eru á leikskólum geta verið viðkvæmar í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og því er nauðsynlegt fyrir leikskóla að hafa heimild til þess að vinna með slíkar upplýsingar þannig að börn fái viðeigandi þjónustu í samræmi við lög um leikskóla. Um getur verið að ræða aukna þjónustu við börn sem felst oft í samþættri þjónustu með aðkomu ólíkra aðila. Starfsfólk leikskóla skal lögum samkvæmt fylgjast með þroska barna og grípa inn í eftir þörfum þannig að börn geti notið sín út frá þroska, þörfum og aldri. Snemmtæk íhlutun getur verið nauðsynleg til þess að tryggja velferð barna, svo sem þegar um er að ræða frávik frá þroska hjá börnum. Samkvæmt lögum um leikskóla skulu sveitarfélög reka skólaþjónustu fyrir leikskóla. Skólaþjónustan er fyrir leikskólabörn, fjölskyldur þeirra og starfsfólk leikskóla og getur þjónustan verið starfrækt í leikskólum. Komið getur til þess að starfsfólk þurfi að vinna með greiningar, læknisvottorð, skimanir, vottorð, líðan og heilsufarsupplýsingar um börn til að unnt sé að sinna lögbundnu hlutverki. Við gerð frumvarpsins var annars vegar lagt mat á nauðsyn starfsfólks að fá heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um börn með tilliti til þeirra grundvallarréttinda sem börn njóta á grundvelli friðhelgi einkalífs og hins vegar með tilliti til hagsmuna barna af því að starfsfólk fái heimild til vinnslunnar. Í samræmi við lögbundið hlutverk leikskóla og þá starfsemi sem skal fara fram samkvæmt lögum, en einnig með hagsmuni barna í forgrunni, er nauðsynlegt að starfsfólk hafi heimild til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar í einstökum málum leikskólabarna.
    Lagt er til að leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem lögbundið hlutverk hafa verði veitt heimild til að afla og miðla persónuupplýsingum að því marki sem nauðsynlegt er til að veita börnum lögbundna þjónustu en nánari skilyrði verða sett í reglugerð. Um getur verið að ræða ólíka sérfræðinga, svo sem talmeinafræðinga, sálfræðinga, táknmálstúlka eða aðra fagaðila. Sérfræðingarnir geta verið starfandi hjá félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæslu eða öðrum sambærilegum stofnunum. Með ákvæðinu er stuðlað að samþættri og heildstæðri þjónustu við börn á fyrsta skólastigi til samræmis við lög um leikskóla og önnur lög en börn geta nauðsynlega þurft á ólíkri þjónustu að halda svo þau fái notið sín í samræmi við þroska og aldur.
    Vinnslan getur falið í sér íhlutun í einkalíf barna og skal forsjáraðilum í skilningi barnalaga tilkynnt um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð, í hvaða tilgangi nauðsynlegt er að vinna með persónuupplýsingar og í tengslum við hvaða verkefni. Í henni skal koma fram verklag við vinnsluna, hvaða fagaðilar og stofnanir um er að ræða og til hvaða ráðstafana skuli grípa til eftir atvikum til þess að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni barna á leikskóla.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði breyting á hugtakinu sérfræðiþjónusta. Mennta- og menningarmálaráðuneyti lét gera úttekt á fyrirkomulagi sérfræðiþjónustu í ólíkum sveitarfélögum árið 2013. Niðurstaðan fól meðal annars í sér að breyta þyrfti hugtakinu sérfræðiþjónusta í skólaþjónusta til þess að hugtakið endurspeglaði betur inntak þjónustunnar. Í skólaþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Í kjölfar úttektar var gerð breyting á lögum um grunnskóla árið 2016 þar sem sérfræðiþjónustu var breytt í skólaþjónustu og síðan í öllum reglugerðum til samræmis við lög um grunnskóla. Þessi breyting á leikskólalögum er gerð til samræmis við þær breytingar.

Um 3. gr.

    Í greininni eru félagsmiðstöðvar, frístundaheimili og skólahljómsveitir tilgreind sem dæmi um aðila sem sinnt geta tómstunda- og frístundastarfi í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga um grunnskóla til að tryggt sé að félagsmiðstöðvar geti unnið með afmarkaðar persónuupplýsingar. Félagsmiðstöðvar gegna sífellt mikilvægara og stærra hlutverki í þroska nemanda og undirbúningi í þátttöku í lýðræðissamfélagi sem ítrekað er í æskulýðslögum. Félagsmiðstöðvar og frístundaheimili eru einnig mikilvægur þáttur í samþættri þjónustu barna en mikilvægt er að þjónustan taki mið af þörfum barna bæði í leik og námi..

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga fyrir grunnskóla, skólaþjónustu og þá aðila er lögbundið hlutverk hafa samkvæmt lögum um grunnskóla. Tilgangur greinarinnar er að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga eigi sér fullnægjandi lagastoð í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuupplýsingar sem unnar eru í skólum geta verið viðkvæmar í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og því er nauðsynlegt fyrir grunnskóla að hafa heimild til þess að vinna með þær í tilteknum málum. Mikilvægt er að þeir nemendur sem þurfa á aukinni þjónustu að halda og eiga lögbundinn rétt til hennar fái viðeigandi þjónustu. Hún felst oft í samþættri þjónustu með aðkomu ólíkra aðila. Starfsfólk grunnskóla skal lögum samkvæmt vinna að forvarnarstarfi með skimanir og athuganir á nemendum til að tryggja kennslu og námsaðstoð við hæfi. Nemendur sem eiga við sértæka náms- og félagslega örðugleika, fatlanir eða aðrar sérþarfir að etja eiga rétt á sérstökum stuðningi við nám sitt samkvæmt lögum um grunnskóla. Nauðsynlegt er fyrir þá sem veita þjónustu samkvæmt lögum um grunnskóla að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar, meðal annars þarf að leggja mat á hvort nemendur sem eru með sérþarfir skuli þreyta samræmd könnunarpróf. Í lögum um grunnskóla er einnig kveðið á um að sveitarfélög skuli tryggja að veitt sé skólaþjónusta fyrir grunnskóla. Þjónustan er fyrir grunnskólabörn, fjölskyldur þeirra og starfsfólk grunnskóla. Í mörgum skólum starfa skólasálfræðingar sem framkvæma greiningar á þroska, athyglisbresti og kvíða nemenda sem eiga í félagslegum og sálrænum erfiðleikum.
    Við gerð frumvarpsins var annars vegar lagt mat á hvort starfsfólk grunnskóla og þeir aðilar sem starfa samkvæmt lögum um grunnskóla þurfi nauðsynlega að fá heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um nemendur með tilliti til þeirra grundvallarréttinda sem börn njóta á grundvelli friðhelgi einkalífs. Hins vegar voru skoðaðir hagsmunir barna af því að aðilar sem veita nemendum þjónustu fái heimild til vinnslunnar. Í samræmi við lögbundið hlutverk og starfsemi grunnskóla var það metið nauðsynlegt að starfsfólk í tilteknum málum og við sérstakar aðstæður nemenda hafi heimild til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar um nemendur í grunnskólum. Dæmi má taka um aðkomu umsjónarkennara, sérkennara og námsráðgjafa að ýmsum málum nemenda, svo sem greiningum, andlegri og líkamlegri líðan nemenda. Þá má nefna nemendaverndarráð sem gegnir þýðingarmiklu hlutverki en mörg málefni rata á borð þess þegar nemendur eiga í félagslegum eða heilsufarslegum erfiðleikum af ýmsum toga. Í mörgum skólum sitja sálfræðingar fundi með nemendaverndarráði. Ætlunin er að tryggja að þeir sem gegna lögbundinni þjónustu við nemendur hafi fullnægjandi heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þ.m.t. starfsfólk grunnskóla, frístundaheimila, skólaþjónustu, starfsfólk sem vinnur í tómstunda- og félagsstarfi nemenda, í félagsmiðstöðum, skólanefnd og nemendaverndarráði. Snemmtæk íhlutun er ekki síður mikilvæg á grunnskólastigi eins og á fyrsta skólastiginu til þess að tryggja velferð nemenda, meðal annars þegar um þroskafrávik er að ræða eða aðrar raskanir.
    Með greininni er lagt til að lögfest verði heimild til öflunar og miðlunar persónuupplýsinga frá og til stofnana og fagaðila er veita nemendum þjónustu samkvæmt lögum um grunnskóla. Nauðsynlegt getur verið að afla og miðla upplýsingum frá einum sérfræðingi til annars þannig að grunnskólinn geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu með hagsmuni barnsins í forgrunni. Um getur verið að ræða ólíka sérfræðinga, svo sem talmeinafræðinga, sálfræðinga og táknmálstúlka. Sérfræðingar geta verið starfandi hjá skólaþjónustu, félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, heilsugæslu og öðrum stofnunum eða fagaðilum sem gert hafa þjónustusamning á grundvelli laga um grunnskóla. Upplýsingarnar geta falið í sér miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og því mikilvægt fyrir þá sem starfa á grundvelli laga um grunnskóla að hafa heimild til þess að afla og miðla upplýsingum frá þeim sérfræðingum sem nemendur þurfa nauðsynlega á að halda. Nauðsynlegt er að frístundaheimili fái heimild til þess að miðla upplýsingum til nemendaverndarráðsins eða skóla um líðan nemenda í þeim tilgangi að tryggja velferð þeirra, þ.m.t. um líðan og heilsu nemenda, t.d. um fæðuofnæmi. Frístundaheimili eru yfirleitt opin öllum þeim grunnskólanemendum sem vilja og dvelja nemendur oft á frístundaheimilum í nokkrar klukkustundir á dag. Í starfsemi þeirra eru skipulagðir viðburðir sem þarfnast skráningu persónuupplýsinga.
    Vinnslan getur falið í sér íhlutun í einkalíf barna og skal forsjáraðilum í skilningi barnalaga tilkynnt um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð, í hvaða tilgangi nauðsynlegt er að vinna með persónuupplýsingar og í tengslum við hvaða verkefni. Í henni skal koma fram verklag við vinnsluna, hvaða fagaðilar og stofnanir um er að ræða og til hvaða ráðstafana skuli grípa eftir atvikum til þess að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni barna í grunnskóla.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir framhaldsskóla til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.m.t. vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, vímuefna-, lyfja- og áfengisnotkun í tengslum við viðburði sem eru á ábyrgð framhaldsskóla, svo sem á vegum nemendafélaga sem eru starfrækt á ábyrgð framhaldsskóla. Framhaldsskólum er því veitt heimild til þess að vinna með persónuupplýsingar í tengslum við starfsemi nemendafélaga. Reglulega koma upp álitaefni í framhaldsskólum í tengslum við ábyrgð nemendafélaga en samkvæmt framhaldsskólalögum og dómafordæmum Hæstaréttar, meðal annars í dómi Hæstaréttar í máli nr. 350/2012 frá 19. desember 2012, bera framhaldsskólar ábyrgð á nemendafélögum í framhaldsskólum. Komið getur til skaðabótaábyrgðar vegna skuldbindingar nemendafélaga í tengslum við vanefndir og vegna annarra álitaefna í tengslum við ábyrgð á málefnum nemendafélaga framhaldsskóla í skilningi 39. gr. laga um framhaldsskóla. Nauðsynlegt er að veita skólameistara heimild til vinnslu persónuupplýsinga í sambandi við starfsemi nemendafélaga að því marki sem hún er nauðsynleg. Þá er með greininni verið að veita framhaldsskólum heimild til vinnslu upplýsinga til samræmis við 34. gr. laga um framhaldsskóla en samkvæmt ákvæðinu skal skólinn veita nemendum með fötlun og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Viðeigandi aðbúnaður og sérfræðileg aðstoð skal vera fyrir hendi svo að nemendur með fötlun og aðra örðugleika geti stundað nám eins og kostur er.
    Talin er þörf á því að lögfesta ákvæði um þagnarskyldu en með lögum nr. 71/2019 um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, var þagnarskylduákvæði um starfsmenn ríkis og sveitarfélaga lögfest í stjórnsýslulögum. Þá hafa þagnarskylduákvæði verið lögfest víðar í lögum til áréttingar, sbr. lög um grunnskóla og lög um leikskóla. Þagnarskyldan gildir einnig um þriðju aðila, t.d. þá sem gera þjónustusamninga um þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um framhaldsskóla.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir Menntamálastofnun til vinnslu persónuupplýsinga um nemendur, starfsfólk og skólastjórnendur vegna lögbundinna verkefna stofnunarinnar. Menntamálastofnun kallar eftir miklu magni af upplýsingum um nemendur til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Mörg verkefni má leysa á grundvelli tölfræðiupplýsinga eða ópersónugreinanlegra upplýsinga en nauðsynlegt er fyrir Menntamálastofnun að hafa heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að bæta skólastarf og geta metið árangur af skólastarfi, gert samanburð, greint og sett viðmið svo stuðla megi að umbótum og framþróun í skólastarfi. Stofnunin hefur meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með skólagöngu nemenda og vinna með niðurstöður námsmats í þeim tilgangi að tengja saman gögn frá ólíkum stofnunum. Nauðsynlegt getur verið fyrir stofnunina að vinna með upplýsingar um móðurmál barna með íslensku sem annað tungumál og sjá til þess að lögð séu fyrir þau sérstök próf. Þá fer hún með framkvæmd samræmdra könnunarprófa og vinnur ýmis verkefni á vegum Efnahags- og framfararstofnunar (OECD), svo sem PISA-könnun sem er umfangsmikil könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda.
    Upplýsingar sem stofnunin vinnur með geta verið viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsufar nemenda vegna líðanar nemenda í skólum og andlegs og líkamlegs heilbrigðis, m.a. í tengslum við könnunarpróf. Við vinnslu persónuupplýsinga í vissum tilvikum eru almannahagsmunir af því að stofnunin hafi heimild til vinnslu viðkvæmara persónuupplýsinga um heilsufar taldir ríkari en grundvallarhagsmunir nemenda sem þeir njóta til einkalífsverndar. Ávallt þarf að leggja mat á grundvallarréttindi nemenda, um réttinn til einkalífsins á móti almannahagsmunum um nauðsyn til vinnslunnar, sérstaklega þegar vinnslan varðar börn sem er tryggð sérstök vernd samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Öllum börnum er einnig tryggður stjórnarskrárvarinn réttur til menntunar við hæfi og því er nauðsynlegt og mikilvægt að veita stofnuninni heimild með lögum til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar til að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í vissum tilvikum teljast almannahagsmunir því ríkari til vinnslu persónuupplýsinga en réttindi nemenda til einkalífsverndar þegar unnið er með upplýsingar um skólagöngu nemenda og niðurstöður námsmats þar sem fram koma upplýsingar umheilsufar nemenda í skólum. Við matið verður þó stofnunin alltaf að leggja mat á vinnslu persónuupplýsinga þannig að sem minnst inngrip verði í einkalífsverndina og umfang vinnslu persónuupplýsinga ekki umfram það sem er nauðsynlegt.
    Menntamálastofnun vinnur persónuupplýsingar í tengslum við leyfisveitingu ólíkra starfsheita, svo sem vegna leyfisbréfa til kennsluréttinda og vegna undanþágunefndar kennara á grundvelli laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Stofnunin tekur við umsóknum og gefur út leyfisbréf kennara og fer með umsjón með skrá yfir þá sem hlotið hafa leyfisbréf. Stofnunin fer með eftirlitshlutverk og getur þurft að staðreyna hvort upplýsingar frá skólastjórnendum séu réttar í tengslum við undanþágunefndina en fyrir kemur að slíkar upplýsingar séu rangar. Menntamálastofnun staðfestir leyfi til að nota starfsheitið kennari frá ríkisborgurum frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Erlendir ríkisborgarar leggja fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi frá slíkum ríkjum í samræmi við lög um mat á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Um getur verið að ræða vinnslu persónuupplýsinga um ríkisfang. Að auki vinnur Menntamálastofnun með leyfisbréf náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga. Með greininni er einnig lagt til að Menntmálastofnun fái heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um skólastjórnendur og starfsfólk í tengslum alþjóðleg verkefni, svo sem vegna TALIS, sem er framkvæmd af OECD, þar sem aflað er upplýsinga frá kennurum og skólastjórnendum um vinnuumhverfi, aðstæður og störf þeirra.
    Menntamálastofnun vinnur með persónuupplýsingar í tengslum við læsisverkefni í grunnskólum þar sem upplýsingum er safnað um nemendur til þess að meta árangur í lestri til að geta lagt mat á þær umbætur sem þörf er á í þeim tilgangi að meta stöðu menntunar hér á landi. Nauðsynlegt getur verið fyrir Menntamálastofnun að kalla eftir gögnum vegna nemenda sem þurfa á sérúrræðum að halda í framhaldsskólum í tengslum við innritun nemenda og vegna þjónustuþarfa fatlaðra nemenda til að geta tryggt þeim lögbundin rétt til skólavistar. Þetta geta verið heilsufarsupplýsingar eins og greiningar og fatlanir viðkomandi nemenda. Upplýsingaöflun birtist einnig í verkefnum í tengslum við skólaforðun og vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál. Mikilvægt er að námsferill nemenda hafi einn uppruna upplýsinga til að tryggja vörslu námsmats þrátt fyrir að skólar leggist af eða aðstæður breytist á annan hátt.
    Ráðherra kveður nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð, í hvaða tilgangi nauðsynlegt er að vinna með persónuupplýsingar og í tengslum við hvaða verkefni. Í henni skal koma fram verklag við vinnsluna, tilgang hennar, hvaða fagaðilum og stofnunum er heimil vinnslan og til hvaða ráðstarfana skuli grípa til eftir atvikum til þess að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni nemenda. Í Svíþjóð er kveðið á um Skolverket, sem er sambærileg stofnun og Menntamálastofnun, í svokölluðum skólalögum (skollag (2010:800)) en þau lög ná yfir öll skólastig í Svíþjóð, auk fullorðinsfræðslu, sérskóla, frístundastarfsemi o.fl. Í sænsku skólalögunum er sérstakur kafli um vinnslu persónuupplýsinga sem nær til allra menntastofnana sem lögin gilda um. Heimild er fyrir því að setja reglugerð um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga þar sem vinnslan er útfærð í samræmi við persónuverndarlöggjöfina.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í þágu lyfjaeftirlits. Íslenska ríkið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands framkvæma lyfjaeftirlit en heimilt er að framselja lyfjaeftirlitið samkvæmt íþróttalögum. Íslenska ríkinu er skylt samkvæmt íþróttalögum að hafa lyfjaeftirlit og lúta lyfjaeftirlitsreglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA). Nauðsynlegt er að veita þeim aðila sem fer með framkvæmd lyfjaeftirlitsins samkvæmt íþróttalögum heimild til þess að vinna með og afla nauðsynlegra persónuupplýsinga til að tryggt sé að hann geti rækt hlutverk sitt. Þar sem um er að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga eins lyfja- og vímuefnanotkunar þarf að koma til lagaheimildar. Eftirlit með lyfja- og vímuefnanotkun í íþróttum felur í sér mikla íhlutun í grundvallarréttindi einstaklinga eins og friðhelgi einkalífsins sem nýtur verndar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Lyfjaeftirlit getur falið í sér að leitað sé til almennings í formi uppljóstrunarkerfis þar sem mögulega er hægt að koma á framfæri ábendingum um misnotkun í þeim tilgangi að koma upp um hugsanleg brot gegn íþróttalögum og alþjóðlegum reglum. Við framkvæmd slíkra kerfa skal upplýsa og fræða einstaklinga sem munu hugsanlega koma á framfæri ábendingum, meðal annars um hvaða upplýsingar skipti máli og hvaða upplýsingar skuli forðast að tilkynna, auk þeirra afleiðinga sem það gæti haft að tilkynna um rangar upplýsingar. Þetta er meðal annars hægt með birtingu á vef. Þá skal tilkynna viðkomandi einstaklingi að unnið hafi verið persónuupplýsingar um hann í þágu lyfjaeftirlits eftir að vinnslunni er lokið, ella væri tilgangi lyfjaeftirlits ekki náð. Upplýsingaskyldan er áréttuð til þess að einstaklingar sem persónuupplýsingar hafa verið unnar um án þess að þeir hafi veitt þær sjálfir geti átt þann möguleika á að nýta sér réttindi sín samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir Hljóðbókasafn Íslands til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga í tengslum við þjónustu við umsækjendur og notendur safnsins, þ.m.t. vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg. Hljóðbókasafn Íslands gegnir því hlutverki að gera prentað mál aðgengilegt fyrir blinda, lesblinda og aðra sem geta ekki nýtt sér prentað mál. Að öllu jöfnu skila umsækjendur inn umsókn um þjónustu í gegnum rafrænt umsóknarferli á þar til gerðu umsóknareyðublaði ásamt undirrituðu vottorði eða staðfestingu um að greining liggi fyrir. Umsækjendur eru beðnir um að senda ekki greiningarnar sjálfar með umsókn. Vottorðum er þó ekki safnað eða þau geymd til langs tíma þar sem grisjunarheimild hefur verið fengin frá Þjóðskjalasafni Íslands. Vegna mismunandi prentleturshamlana fær Hljóðbókasafn vottorð og staðfestingar frá ýmsum aðilum. Helst ber þar að nefna Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, lækna, menntastofnanir og sérfræðinga í lestrargreining. Safnið er eitt sinnar tegundar sem þjónustar tiltekna hópa samfélagsins sem eiga við fatlanir eða aðrar raskanir að etja.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg til að sinna lögbundnu hlutverki, þ.m.t. vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar einstaklinga sem stofnunin veitir þjónustu, svo sem þeirra sem reiða sig á táknmál til tjáningar og samskipta. Vinnslan getur verið nauðsynleg til að sannreyna að viðkomandi eigi rétt á þjónustu frá stofnuninni. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra kennir íslenskt táknmál og er kennslunni meðal annars ætlað að skapa skilyrði fyrir máltöku barna sem fæðast heyrnarlaus eða heyrnarskert og barna táknmálstalandi foreldra. Réttur til aðgengis að íslensku táknmáli og máltöku er einnig tryggður í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensk táknmáls. Máltökuráðgjafi eða táknmálskennari getur þurft að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem hvort barn hafi fengið kuðungsígræðslu, greiningu eða vegna annarra atriða sem geta haft áhrif á málþroska barns eða möguleika þess til máltöku. Á túlkabeiðnum koma fram nauðsynlegar upplýsingar í þeim tilgangi að táknmálstúlkur geti þjónustað einstaklinga sem reiða sig á táknmál til tjáningar og samskipta. Sem dæmi má nefna upplýsingar um stjórnmálafundi sem viðkomandi hyggst mæta á eða heimsókn til sérgreinalæknis. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fær túlkabeiðnir sendar til sín, svo sem frá heilsugæslu, félagsþjónustu, skólum, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landspítalanum, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Hér er því lagt til að þessum aðilum sé skylt að veita Samskiptamiðstöð upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Heyrnarmæling er framkvæmd í fimm daga skoðun barna og nauðsynlegt fyrir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að fá upplýsingar úr þeirri skoðun til þess að hægt sé að hafa samband við foreldra ef grunur er um heyrnarskerðingu. Hver dagur í lífi barns getur skipt máli varðandi máltöku og er réttur barns til máltöku og til að læra íslenskt táknmál jafnskjótt og máltaka hefst að finna í lögum um stöðu íslenskar tungu og íslensks táknmáls. Þá þarf stofnunin að hafa heimild til þess að afla og miðla upplýsingum, meðal annars til og frá Menntamálastofnun og öðrum aðilum vegna námsefnisgerðar, svo sem fyrir leik- og grunnskóla. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra stundar rannsóknir á íslensku táknmáli og þarf því að fá aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna rannsókna á málfræði og þróun í máltöku og málþroska barna en gögnin verða ávallt persónugreinanleg þar sem íslenskt táknmál er sjónrænt mál.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga fyrir Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga við undirbúning og veitingu styrkja til umsækjenda þegar nauðsyn krefur, svo sem um umsækjendur með fötlun eða sérstakar þarfir. Rannsóknamiðstöð veitir fjölbreytta styrki í samstarfi við evrópskar og íslenskar stofnanir og hefur umsýslu með styrkveitingum margra ólíkra sjóða. Tilgangurinn er meðal annars að stuðla að þróun þekkingarsamfélags með rekstri samkeppnissjóða, efla og styðja við rannsóknir, nýsköpun, menntun, menningu og alþjóðlegt samstarf. Vinnsla persónuupplýsinga fer eftir eðli styrkveitingar og aðstæðum umsækjenda. Komið getur til vinnslu um heilsufar og líðan umsækjenda, sem dæmi má nefna óskir umsækjanda með fötlun eða veikindi um aðstoðarmann í tengslum við viðbótarstyrk eða vegna sérstaks kostnaðar. Í þeim tilvikum geta borist umsóknir og læknisvottorð um eðli fötlunar og veikinda í þeim tilgangi að sjóðurinn geti lagt fullnægjandi mat á þarfir umsækjanda og umsóknina.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir fjölmiðlanefnd til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, kynhneigð og kynhegðun til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Fjölmiðlanefnd annast margvísleg verkefni og fer meðal annars með eftirlit með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum fjölmiðlalaga, tekur ákvarðanir í málum á grundvelli ábendinga og kvartana einstaklinga yfir meintum brotum fjölmiðla á friðhelgi einkalífs, auk þess sem hún hefur heimildir til beitingar viðurlaga.. Hún aflar því sjálf upplýsinga á grundvelli hlutverks síns samkvæmt lögum en einnig fær hún ábendingar og kvartanir vegna hugsanlegra brota á friðhelgi einkalífs einstaklinga. Í tengslum við þessi verkefni er nauðsynlegt fyrir fjölmiðlanefnd að hafa heimild til vinnslu persónuupplýsinga um heilsufar, kynhneigð og kynhegðun. Nefndin vinnur með mikið magn af upplýsingum, meðal annars þegar hún tekur við persónuupplýsingum frá stofnunum og einkaaðilum þar sem vísað er til einstaklinga. Þegar ábendingar berast um brot á friðhelgi einstaklings þarf stofnunin að hafa heimild til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar. Ekki er það ávallt svo að hinn skráði sendi inn kvörtun þess efnis en komið getur til þess að ábending berist frá þriðja aðila.
    Ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að háskólar sem starfa samkvæmt lögum um háskóla fái heimild til vinnslu almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem um nemendur í tengslum við innritun fatlaðra nemenda og vegna þeirra sem eiga við sértæka námsörðugleika og veikindi að etja. Háskólum er skylt að veita þeim nemendum sérstakan stuðning í námi skv. 19. gr. laga um háskóla og til vinnslu persónuupplýsinga sem er nauðsynleg til í tengslum við meint brot sem geta leitt til brottrekstrar nemenda. Heimildin nær einnig til vinnslu persónuupplýsinga við undirbúning kennslu nemenda sem þurfa sérstakan stuðning í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá er lagt til að háskólar fái sérstaka heimild til vinnslu upplýsinga um þjóðernislegan uppruna nemenda til þess að unnt sé að halda utan um tölfræði um skólasókn innflytjenda í þeim tilgangi að fjölga þeim og styðja við nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir. Nauðsynlegt er fyrir háskóla að meta þörf á aðgerðum og sérstökum stuðningi við þennan hóp nemenda til þess að geta fjölgað þeim og komast hjá brotthvarfi þeirra. Mikilvægt er að háskólar gefi öllum kleift að njóta góðrar menntunar óháð bakgrunni.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.