Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1004  —  525. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um átakið Nám er tækifæri.


     1.      Hversu margir atvinnuleitendur hófu nám um áramótin í gegnum átakið Nám er tækifæri?
    Um áramótin 2020–2021 hófu 268 atvinnuleitendur nám í framhaldsskóla eða háskóla sem og aðfaranám í háskóla sem einnig hefur verið nefnt háskólabrú.

     2.      Um hvers konar nám sóttu atvinnuleitendur og í hvaða skóla, sundurliðað eftir landsvæðum?
    Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 919/2020, um námsbrautir í framhaldsfræðslu, framhaldsskólum og háskólum sem falla undir átakið „Nám er tækifæri“, telst tiltekið starfs- og tækninám í framhaldsfræðslu, á framhaldsskólastigi eða háskólastigi sem og nám sem skipulagt er í samræmi við reglur nr. 835/2019, um aðfaranám í háskólum, eða nám sem telst flýtileið háskólamenntaðra til annarrar prófgráðu, svo sem á sviði hjúkrunarfræði, eða heilbrigðis- og kennslugreina, til vinnumarkaðsúrræða skv. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, og falla undir átakið Nám er tækifæri.
    Í eftirfarandi töflu má sjá nánari greiningu þeirra 268 atvinnuleitenda, sem hófu nám um áramótin 2020–2021, eftir skólastigi og landsvæðum:

Aðfaranám 37
Höfuðborgarsvæðið 7
Suðurnes 14
Vesturland 16
Framhaldsskólanám 164
Höfuðborgarsvæðið 121
Norðurland eystra 3
Norðurland vestra 2
Suðurland 9
Suðurnes 15
Vestfirðir 3
Vesturland 11
Háskólanám 62
Höfuðborgarsvæðið 50
Norðurland eystra 3
Norðurland vestra 6
Vesturland 3
Símenntun 5
Höfuðborgarsvæðið 3
Norðurland eystra 2
Samtals 268

     3.      Hvaða fjármunir hafa fylgt inn í hvaða skóla með átakinu?
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir 1.728 millj. kr. vegna náms atvinnuleitenda á framhaldsskólastigi sem og 971 millj. kr. vegna náms á háskólastigi en þar af er gert ráð fyrir um 100 millj. kr. vegna aðfaranáms atvinnuleitenda. Verður hverjum skóla greitt fyrir hvern atvinnuleitanda sem skólinn veitir skólavist í tengslum við átakið og mun ráðuneytið sjá um framkvæmdina þar sem tekið verður tillit til mismunandi kostnaðar af einstökum námsbrautum í samræmi við gildandi reiknilíkan fyrir framhaldsskóla og háskóla.