Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1020  —  600. mál.




Fyrirspurn


til mennta- og menningarmálaráðherra um áhrif og forsendur áfrýjunar dóms um brot ráðherra gegn jafnréttislögum.

Frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.


     1.      Hver verður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna skipunar ráðherra á ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sitt 1. desember 2019? Óskað er eftir sundurliðun þar sem fram komi launakostnaður og annar afleiddur kostnaður vegna hæfnisnefndar, kostnaður ráðuneytisins við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála, allur kostnaður vegna málsóknar fyrir héraðsdómi, þar á meðal laun lögmanns og málsvarnarlaun verjanda stefndu, sem og áætlaður kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar.
     2.      Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun ráðherra um að áfrýja dómi héraðsdóms í máli nr. E-5061/2020 til Landsréttar? Hvaða vinna fór fram í ráðuneytinu við að greina niðurstöður dómsins áður en ákvörðun um áfrýjun var tekin aðeins rúmum fjórum klukkustundum eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir? Við hverja ráðfærði ráðherra sig, innan ráðuneytis sem utan, í aðdraganda ákvörðunarinnar? Hvaða fundi og samtöl átti ráðherra, hvenær fóru fundirnir og samtölin fram og hvaða gögn og faglegu álitsgerðir lágu til grundvallar? Hvaða lögfræðilegu sjónarmið vill ráðherra að komi til skoðunar á æðra dómstigi?
     3.      Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun um að útvista rekstur málsins frá ríkislögmanni? Kom ráðherra að þeirri ákvörðun eða að ákvörðun um til hvaða lögmanns yrði leitað?


Skriflegt svar óskast.