Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1034  —  481. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kostnað við alþjóðlega vernd.


     1.      Hversu margar umsóknir um alþjóðlega vernd voru samþykktar hér á landi árlega á tímabilinu 2018–2020 og hversu mörgum var hafnað árlega á sama tímabili?

2018 2019 2020
Samanlagður fjöldi veitinga hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála 195 393 591
Fjöldi synjana í fyrstu málsmeðferð hjá Útlendingastofnun sem ekki var hnekkt eða snúið við á síðari stigum (endanleg synjun getur hafa legið fyrir á öðru ári) 355 389 127

    Í mars 2020 ákváðu Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að breyta tímabundið mati sínu á því hvort Dyflinnar- og verndarmál fengju efnismeðferð hér á landi vegna COVID-19-faraldursins. Var matið reist á því hvort gera mætti annars vegar ráð fyrir að mál félli á tímafresti vegna ferðatakmarkana og hins vegar hvort áhrif COVID-19 á innviði viðtökuríkis yrðu slík að endurskoða þyrfti einstaklingsbundið mat á aðstæðum í viðkomandi ríki þegar ferðatakmörkunum yrði aflétt. Hið breytta mat varð til þess að stór hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd, mikill hluti einstaklinga með vernd í öðru Evrópuríki, hlutu efnismeðferð hér á landi og enduðu þau mál með veitingu verndar. Skýrir það að hluta til þá miklu fjölgun sem orðið hefur á veitingu verndar milli ára.

     2.      Hver var árlegur heildarkostnaður ríkissjóðs á þessu tímabili vegna umsækjenda:
                  a.      eftir að umsókn var samþykkt,
                  b.      eftir að umsókn var hafnað?


    a. Samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 540/2017 fellur þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd niður 14 dögum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingi vernd, þremur dögum eftir að hann hefur dregið umsókn sína til baka eða á þeim degi þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmdar, sbr. 35. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
    Til kostnaðar sem fellur á fjárlagalið Útlendingastofnunar 06-399 vegna umsækjenda um vernd eftir að umsókn er samþykkt teljast útgjöld vegna framfærslu og fæðisfjár samkvæmt reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, heilbrigðiskostnaður, lyf, túlkaþjónusta og húsnæðiskostnaður.
    Umsækjendur sem fá veitta alþjóðlega vernd eiga rétt á þjónustu Útlendingastofnunar í allt að 14 daga eftir að ákvörðun hefur verið birt. Misjafnt er hversu marga daga einstaklingar þiggja þjónustu eftir veitingu en það getur verið frá 1–2 og upp í 14 daga og veltur bæði á einstaklingunum sjálfum og því sveitarfélagi sem annast þjónustuna. Í sumum tilfellum dvelja umsækjendur alfarið á eigin vegum.
    Útlendingastofnun fylgist ekki sérstaklega með því hversu marga daga einstaklingar eru í þjónustu eftir veitingu verndar nema í þeim tilvikum þegar þeir dvelja lengur en 14 daga. Það er gert til að tryggja að rými sé fyrir nýja umsækjendur og að hægt sé að gera endurkröfu á viðkomandi sveitarfélag ef ofgreitt er fyrir þjónustu. Af þessum sökum er ekki hægt að svara því hversu hár kostnaður féll á fjárlagalið 06-399 vegna umsækjenda um vernd eftir að umsókn var samþykkt á árunum 2018–2020.
    Ef sú forsenda er hins vegar lögð til grundvallar að allir hafi notið þjónustu í 14 daga eftir veitingu verndar má áætla hæsta mögulega kostnað. Það má gera með því að margfalda árlegan meðaltalskostnað við þjónustu umsækjanda á dag með 14 (fjölda daga) og fjölda þeirra einstaklinga sem fengu veitta alþjóðlega vernd á ársgrundvelli (sjá svar við 1. tölul.). Að þessum forsendum gefnum hefði kostnaður við þjónustu við umsækjendur eftir veitingu í hæsta lagi verið 26.257.140 kr. miðað við útgjöld árið 2018, 48.007.861 kr. miðað við útgjöld árið 2019 og 81.283.365 kr. miðað við útgjöld árið 2020.

    b. Til kostnaðar sem fellur á fjárlagalið 06-399 hjá Útlendingastofnun vegna umsækjenda um vernd eftir að umsókn er hafnað teljast útgjöld vegna framfærslu og fæðisfjár samkvæmt reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, heilbrigðiskostnaður, lyf, túlkaþjónusta, húsnæðiskostnaður og kostnaður vegna ferða/fylgdar úr landi.
    Umsækjendur sem fá synjun á umsókn sinni og sú ákvörðun er staðfest af kærunefnd útlendingamála (KNU) eiga rétt á þjónustu fram að flutningi úr landi. Lengd dvalar eftir synjun getur verið afar mismunandi, allt frá nokkrum dögum upp í fjölda mánaða. Sumir einstaklingar yfirgefa landið sjálfviljugir um leið og endanleg niðurstaða liggur fyrir, aðrir þiggja aðstoð við sjálfviljuga heimför og málum annarra þarf að vísa til stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem framkvæmir þá flutninga sem ekki eru sjálfviljugir. Ýmislegt getur leitt til þess að það tekur langan tíma að undirbúa flutning úr landi, svo sem öflun skilríkja, samskipti við heimaríki og samstarfsvilji viðkomandi. Í einhverjum tilfellum þarf einnig að bíða eftir skipulögðum fylgdum á vegum landamærastofnunar Frontex. Þá er ótalið að eftir að niðurstaða KNU liggur fyrir geta umsækjendur óskað eftir frestun réttaráhrifa til að fara með mál sitt fyrir dóm og eiga þá rétt á þjónustu á meðan. Það á einnig við í þeim tilvikum þegar KNU fellst á beiðnir um endurupptöku.
    Enginn greinarmunur er gerður á þjónustustigi þessara einstaklinga og annarra og því hefur ekki verið ráðist í aðgreiningu í reikningshaldi Útlendingastofnunar á kostnaði vegna þeirra sérstaklega. Ekki er því hægt að svara því hversu hár kostnaður féll til vegna umsækjenda um vernd eftir að umsókn er endanlega synjað.

     3.      Hver var árlegur kostnaður sveitarfélaganna eftir að umsókn var samþykkt?
    Kostnaðurinn í svari við a-lið 2. tölul. nær einnig til þeirra einstaklinga sem dvöldu í þjónustu sveitarfélaga á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um þann kostnað sem fallið hefur til eftir að þjónustu Útlendingastofnunar lýkur, þ.e. eftir 14 daga frá veitingu verndar.

     4.      Hversu margar umsóknir um alþjóðlega vernd voru samþykktar á umræddu tímabili vegna umsækjenda sem voru á sakaskrá hérlendis eða erlendis?
    Umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfa ekki að leggja fram sakavottorð með umsókn og eru slíkar upplýsingar ekki skráðar í upplýsingakerfi Útlendingastofnunar með þeim hætti að hægt sé að svara þessari spurningu.