Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1080  —  547. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve margir fengu lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í hverjum eftirtalinna flokka árin 2019 og 2020 og hvert var kynjahlutfallið:
     a.      foreldri í 50–100% starfi,
     b.      foreldri í 25–49% starfi,
     c.      foreldri í fullu námi,
     d.      foreldri utan vinnumarkaðar,
     e.      foreldrar sem fengu engar greiðslur, umsókn hafnað?


    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, hafa foreldrar 24 mánuði frá fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur til að nýta rétt sinn til greiðslna í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrks. Í svari þessu er því um að ræða bráðabirgðatölur fyrir árin 2019 og 2020 en endanlegar tölur vegna ársins 2019 munu liggja fyrir um áramótin 2021/2022 og vegna ársins 2020 um áramótin 2022/2023. Í samræmi við framangreint má gera ráð fyrir að þær tölur sem hér koma fram eigi eftir að breytast og þá sérstaklega hjá feðrum en reynslan sýnir að feður dreifa sínum rétti til greiðslna í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrks á lengra tímabil en mæður. Þá er tölum í skjalinu skipt upp í þrjá flokka eða tölur varðandi feður, mæður og foreldri en þegar um er að ræða tölur varðandi foreldri er átt við þau tilvik þegar tveir karlmenn eða tvær konur hafa frumættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur sem og þær konur sem teljast ekki vera líffræðilegar mæður þegar barn fæðist í kjölfar tæknifrjóvgunar.

    a. Foreldri í 50–100% starfi.
    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof á foreldri sem verið hefur í 50–100% starfshlutfalli rétt á ákveðinni lágmarksgreiðslu á mánuði fari meðaltal heildarlauna foreldrisins á tilteknu viðmiðunartímabili undir fjárhæð lágmarksgreiðslunnar, en fjárhæðin tekur árvissum hækkunum. Þannig var fjárhæðin 177.893 kr. á mánuði fyrir fæðingarárið 2019 og 184.119 kr. á mánuði fyrir fæðingarárið 2020. Í töflu 1 má sjá að vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 hafa 127 feður og 283 mæður, sem höfðu verið í 50–100% starfshlutfalli, fengið greidda lágmarksgreiðslu á meðan 98 feður, 241 móðir og 1 foreldri, sem höfðu verið í framangreindu starfshlutfalli, hafa fengið greidda lágmarksgreiðslu vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     b.     Foreldri í 25–49% starfi.
    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof á foreldri sem verið hefur í 25–49% starfshlutfalli rétt á ákveðinni lágmarksgreiðslu, fari meðaltal heildarlauna foreldrisins á tilteknu viðmiðunartímabili undir fjárhæð lágmarksgreiðslunnar, en fjárhæðin tekur árvissum hækkunum. Þannig var fjárhæðin 128.357 kr. á mánuði fyrir fæðingarárið 2019 og 132.850 kr. á mánuði fyrir fæðingarárið 2020. Í töflu 2 má sjá að vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 hafa 11 feður og 45 mæður, sem höfðu verið í 25–49% starfshlutfalli, fengið greidda lágmarksgreiðslu á meðan 8 feður og 41 móðir, sem höfðu verið í framangreindu starfshlutfalli, hafa fengið greidda lágmarksgreiðslu vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Ekkert foreldri hefur hins vegar fengið greidda lágmarksgreiðslu vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2019 og 2020.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     c. Foreldri í fullu námi.
    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Fæðingarstyrkur námsmanna er föst fjárhæð sem tekur árvissum hækkunum og er greidd úr ríkissjóði. Þannig var fjárhæðin 177.893 kr. á mánuði vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 og 184.119 kr. á mánuði vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Í töflu 3 má sjá að vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 hafa 102 feður, 262 mæður og 3 foreldrar fengið greiddan fæðingarstyrk námsmanna á meðan 73 feður og 308 mæður hafa fengið greiddan slíkan fæðingarstyrk vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Ekkert foreldri hefur hins vegar fengið greiddan fæðingarstyrk námsmanna vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     d. Foreldri utan vinnumarkaðar.
    Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli rétt á fæðingarstyrk. Fæðingarstyrkur er föst fjárhæð sem tekur árvissum hækkunum og er greidd úr ríkissjóði. Þannig var fjárhæðin 77.624 kr. á mánuði vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 og 80.341 kr. á mánuði vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Í töflu 4 má sjá að vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 hafa 77 feður, 271 móðir og 1 foreldri fengið greiddan fæðingarstyrk á meðan 56 feður, 261 móðir og 1 foreldri hafa fengið greiddan slíkan fæðingarstyrk vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 .

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    e. Foreldrar sem fengu engar greiðslur, umsókn hafnað.
    
Þar sem foreldrum er heimilt að nýta rétt sinn til greiðslna í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrks í allt að 24 mánuði frá fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur má ætla að enn eigi einhverjir foreldrar eftir að sækja um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk vegna barna sem fæddust, voru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2019 og 2020. Í ljósi þess verður jafnframt að ætla að tölur í töflu 5 séu ekki endanlegar tölur. Þá verður að hafa í huga að ákveðið hlutfall foreldra sækir ekki um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk þrátt fyrir að eiga rétt til slíkra greiðslna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Afar sjaldgæft er að foreldri eigi engan rétt innan fæðingarorlofskerfisins en til þess að eiga rétt á fæðingastyrk þarf foreldri að eiga lögheimili á Íslandi við fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sem og að hafa átt lögheimili hér á landi í 12 mánuði þar á undan. Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof er undanþága frá 12 mánaða lögheimilisskilyrðinu fyrir foreldra sem flytja lögheimili sitt til Íslands frá öðrum ríkjum, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, fyrir fæðingu, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sem og foreldra sem hafa í fyrsta skipti fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga. Í töflu 5 má sjá að vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2019 hafa 652 feður og 271 móðir ekki sótt um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk á meðan 965 feður, 161 móðir og 7 foreldrar hafa ekki sótt um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk vegna barna sem voru fædd, frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020.