Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1161  —  265. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008 (vannýttur lífmassi í fiskeldi).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kolbein Árnason, Jón Þránd Stefánsson og Ástu Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Rakel Kristjánsdóttur og Steinar Rafn Beck frá Umhverfisstofnun, Ernu Karen Óskarsdóttur og Viktor Pálsson frá Matvælastofnun, Daníel Jakobsson frá Ísafjarðarbæ, Jón Björn Hákonarson og Valgeir Ægi Ingólfsson frá Fjarðabyggð, Kjartan Ólafsson og Jóhannes Bjarna Björnsson frá Arnarlaxi hf., Sigurgeir Bárðarson og Einar K. Guðfinnsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Elías Blöndal Guðjónsson frá Landssambandi veiðifélaga, Elvar Örn Friðriksson frá NASF – verndarsjóði villtra laxastofna, Valgerði Árnadóttur frá Lax-á ehf., Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rebekku Hilmarsdóttur frá Samtökum sjávarsveitarfélaga og Gísla Jón Hjaltason, Hauk Oddsson, Sigurð G. Guðjónsson og Davíð Björn Kjartansson frá Hábrún ehf.
    Umsagnir bárust frá Arnarlaxi hf., Fjarðabyggð, Hábrún ehf., Halldóri Runólfssyni fyrrverandi yfirdýralækni og formanni Fisksjúkdómanefndar, Ísafjarðarbæ, Landssambandi veiðifélaga, Lax-á ehf., Matvælastofnun, NASF – verndarsjóði villtra laxastofna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Umhverfisstofnun.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að úthluta opinberlega vannýttum lífmassa í firði eða á hafsvæði þar sem fiskeldi er þegar stundað, sem verði þá forsenda umsóknar um ný eða endurskoðuð rekstrarleyfi. Úthlutun fari fram á grundvelli útboðs þar sem skylt verði að setja lágmarksverð. Með lífmassa er átt við margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi, sbr. skilgreiningu í 22. tölul. 3. gr. laga um fiskeldi.
    Í greinargerð með frumvarpinu segir að eftir setningu laga nr. 101/2019 hafi komið í ljós að þær aðstæður geti verið fyrir hendi í einstökum fjörðum eða hafsvæðum að heimildir samkvæmt rekstrarleyfum fiskeldis séu fyrir lægri hámarkslífmassa en sem svarar til hámarksnýtingar fjarðar eða hafsvæðis. Það eigi við í Arnarfirði, Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Í umsögn sinni um málið bendir Matvælastofnun á að frumvarpið hefur auk þeirra fjarða er áður eru taldir áhrif á úthlutun í Ísafjarðardjúpi og Önundarfirði og var ónýttur lífmassi í þessum sex fjörðum samtals um 16.000 tonn í lok árs 2020.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gerðar verði breytingar á 4. gr. a laganna er feli í sér að heimilt verði að úthluta opinberlega því magni í lífmassa, sem heimilt getur verið að ala, í einstökum fjörðum eða hafsvæðum og er umfram heimildir í rekstrarleyfum fiskeldis og heimildir sem veittar kunna að verða á grundvelli umsókna sem til meðferðar koma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Í umsögnum kom fram sjónarmið um að breytingin yrði sett fram sem ákvæði til bráðabirgða í stað þess að gerð verði breyting á fyrrgreindu ákvæði. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og telur að með því náist skýrleiki og jafnframt verði hægt að telja með tæmandi hætti í ákvæðinu þau svæði sem það skal taka til, sbr. umfjöllun að framan, þ.e. Arnarfjörð, Berufjörð, Fáskrúðsfjörð, Reyðarfjörð, Ísafjarðardjúp og Önundarfjörð. Jafnframt verði með þeirri breytingu skýrt að ákvæðinu er ekki ætlað að ná yfir aðrar úthlutanir í framtíðinni.
    Í umsögn til nefndarinnar var sett fram það sjónarmið að við úthlutun væri mikilvægt að gæta að sjúkdómavörnum og virða fjarlægðarmörk á milli eldissvæða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að slík sjónarmið séu einnig höfð til hliðsjónar við úthlutun vannýtts lífmassa innan þess svæðis sem er til úthlutunar á grundvelli hins nýja bráðabirgðaákvæðis en bendir jafnframt á að í 10. gr. laganna er kveðið á um að Matvælastofnun sé heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli.
    Með frumvarpinu er lagt til að úthlutun fari fram á grundvelli útboðs þar sem sett sé lágmarksverð. Í umsögnum um málið var bent á að ekki kæmi skýrt fram hvernig ákvarða skyldi lágmarksverð lífmassa til úthlutunar. Mikilvægt væri að við slíka ákvörðun væri tekið mið af íslenskum aðstæðum og gjaldaumhverfi þar sem byggt væri á hlutlægum og málefnalegum forsendum. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis en bendir jafnframt á að mikilvægt sé að horft sé til fleiri þátta. Með frumvarpinu er lagt til að við mat tilboða gildi ákvæði 3. mgr. 4. gr. a laganna en þar segir að m.a. komi til skoðunar upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur, mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Við meðferð málsins fyrir nefndinni og í umsögnum var bent á að mikilvægt væri að litið væri til frumkvöðla á þeim svæðum sem frumvarpið tekur til. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og telur mikilvægt að komið sé til móts við þá aðila sem upphaflega hrintu í framkvæmd fiskeldi við áður óþekktar aðstæður og tóku þannig af skarið við uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar til hagsbóta fyrir samfélag þess svæðis. Meiri hlutinn leggur því til að auk fyrirmæla 3. mgr. 4. gr. a um mat á tilboðum skuli gert skýrar að þegar litið er til reynslu af fiskeldisstarfsemi o.fl. samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. a sé þar einnig átt við að litið sé til frumkvöðla þar sem slíkt eigi við en um nánari útfærslu fari samkvæmt reglugerð. Við mat tilboða á þeim svæðum sem slíkt á við, að teknu tilliti til tillagna meiri hlutans, megi t.d. hafa til viðmiðunar að tilboðsbjóðandi njóti forgangs á grundvelli reynslu af uppbyggingu og rekstri sjókvíaeldis á liðnum 10 árum á því svæði sem boðið er út til úthlutunar lífmassa.
    Umhverfisstofnun benti í umsögn sinni á að til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar, sbr. 1. mgr. 4. gr. b í lögum um fiskeldi. Í frumvarpinu er aðeins kveðið á um rekstrarleyfi frá Matvælastofnun og meiri hlutinn leggur því til að gert verði skýrt að úthlutun lífmassa taki til þeirra fyrirtækja sem hafa leyfi til fiskeldis samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.
    Með því að leggja til að kveðið verði á um úthlutun vannýtts lífmassa í ákvæði til bráðabirgða í stað breytingar á 4. gr. a er ekki lengur til staðar skylda ráðherra til setningar reglugerðar til nánari útfærslu hins nýja ákvæðis. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að ráðherra verði gert að setja reglugerð til nánari útfærslu á hinu nýja ákvæði til bráðabirgða, m.a. hvað varðar úthlutun til frumkvöðla og leggur til breytingu þess efnis. Jafnframt leiðir af breytingunni að þar sem kveðið er sértækt á um þau svæði sem úthlutun tekur til er ekki þörf á að uppfæra sérstaklega 8. gr. laganna til samræmis og leggur meiri hlutinn því til að 2. gr. frumvarpsins falli brott. Þess í stað verði vísað til þess í ákvæði til bráðabirgða að umsókn um rekstrarleyfi í kjölfar úthlutunar samkvæmt ákvæðinu skuli fylgja gögn um úthlutun lífmassa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Heimilt er að úthluta opinberlega því magni í lífmassa sem heimilt getur verið að ala í Arnarfirði, Berufirði, Fáskrúðsfirði, Ísafjarðardjúpi, Reyðarfirði og Önundarfirði og er umfram heimildir í leyfum til fiskeldis og heimildir sem kunna að verða veittar á grundvelli umsókna sem til meðferðar koma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Við útboð er skylt að setja lágmarksverð og skal það ákvarðað á grundvelli hlutlægra og málefnalegra forsendna sem taka mið af íslenskum aðstæðum og gjaldaumhverfi. Við mat á tilboðum gilda ákvæði 3. mgr. 4. gr. a auk þess sem líta skal til frumkvöðla á þeim svæðum sem slíkt á við. Sá lífmassi sem hér um ræðir tekur hlutfallslegum breytingum innan viðkomandi fjarðar eða hafsvæðis, sbr. 6. gr. b, uns rekstrarleyfi er gefið út. Ekki kemur til útgáfu eða breytinga á leyfum til fiskeldis til hækkunar á lífmassa á kostnað þess sem kemur til úthlutunar samkvæmt ákvæði þessu. Sá lífmassi sem hér um ræðir kemur ekki til ráðstöfunar á annan hátt en með úthlutun samkvæmt þessu ákvæði. Umsókn um rekstrarleyfi í kjölfar úthlutunar samkvæmt þessu ákvæði skulu fylgja gögn um úthlutun lífmassa.
                      Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um úthlutun lífmassa samkvæmt þessu ákvæði til bráðabirgða, þar á meðal um úthlutun til frumkvöðla.
     2.      2. gr. falli brott.

Alþingi, 25. mars 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson.