Ferill 735. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1229  —  735. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við Istanbúl-samninginn.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Jón Steindór Valdimarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að styðja við samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, svokallaðan Istanbúl-samning, í kjölfar ákvörðunar Tyrklands og fyrirætlana Póllands um að segja sig frá samningnum. Í þeim aðgerðum felist m.a.:
          að þrýsta á tyrknesk stjórnvöld um að draga til baka ákvörðun sína um að segja sig frá samningnum,
          að þrýsta á pólsk stjórnvöld um að falla frá áformum sínum um að segja sig frá samningnum,
          að hvetja þau aðildarríki Evrópuráðsins sem enn hafa ekki undirritað eða fullgilt samninginn til að gera það tafarlaust og skilyrðislaust, og
          að hvetja önnur aðildarríki Evrópuráðsins til að grípa til sambærilegra aðgerða til stuðnings við samninginn.

Greinargerð.

    Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúl-samningur, var samþykktur 11. maí 2011. Istanbúl-samningurinn er fyrsti lagalega bindandi alþjóðasamningurinn sem tekur heildstætt á ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um að ofbeldi gegn konum og stúlkum sé óásættanlegt og rennir með því traustari stoðum undir mannréttindi alls fólks. Samningurinn setur skýr viðmið um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.
    Ísland undirritaði Istanbúl-samninginn sama dag og hann var samþykktur, en fullgilti hann sjö árum síðar. Samtals hafa 34 ríki fullgilt samninginn en eins og hættir til með framsækna alþjóðasamninga á sviði kvenréttinda hefur þó gengið hægt að fullgilda Istanbúl-samninginn í mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Tvö aðildarríki hafa ekki undirritað samninginn og ellefu ríki sem hafa undirritað hann eiga enn eftir að fullgilda hann.
    Vandi Istanbúl-samningsins hefur vaxið undanfarið með því bein pólitísk andstaða við hann birtist í auknum mæli. Umræða gegn aðild að Istanbúl-samningnum hefur náð rótfestu í mörgum löndum, en lengst hefur hún gengið í Póllandi og Tyrklandi. Stjórnvöld í Póllandi og Tyrklandi hafa síðustu misserin stefnt að því að rifta samningnum og 20. mars sl. tilkynntu tyrknesk stjórnvöld Evrópuráðinu að þau segðu sig frá Istanbúl-samningnum. Frumvarp sem miðar að sama marki gekk til nefnda pólska þingsins 30. mars.
    Þau skref sem tekin eru í Tyrklandi og Póllandi þessa dagana eru gríðarleg afturför í baráttunni við að tryggja jafnrétti kynjanna. Bakslagið nær ekki bara til stöðu kvenna heldur einnig hinsegin fólks, minnihlutahópa og annarra viðkvæmra hópa. Það eru mikil vonbrigði að Pólland og Tyrkland, sem fyrir áratug voru í framvarðasveit þeirra ríkja sem fullgiltu Istanbúl-samninginn, séu nú að snúa baki við honum. Með því er ekki einungis verið að halda aftur af og koma í veg fyrir aukið jafnrétti í þessum löndum, heldur Evrópu allri þar sem ákvörðunin setur hættulegt fordæmi fyrir önnur ríki þar sem mannréttindi og lýðræði standa höllum fæti. Kvenréttindasamtök um alla Evrópu hafa hvatt ríkisstjórnir til að berjast gegn þessu bakslagi í baráttunni fyrir réttindum kvenna, þar á meðal Kvenréttindafélag Íslands sem sendi áskorun þess efnis til forsætisráðherra og utanríkisráðherra 30. mars.
    Árás á kvenréttindi í einu landi er árás á kvenréttindi alls staðar. Þau réttindi hafa ekki verið auðfengin og það verður að standa vörð um þau. Með tillögu þessari er lagt til að íslensk stjórnvöld bregðist við ákalli baráttufólks fyrir kvenréttindum og taki skýra afstöðu með Istanbúl-samningnum, sýni pólitíska forystu og stuðning við kvenréttindi á alþjóðavísu.