Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1259  —  682. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lagalega ráðgjöf.


     1.      Hvaða viðmið eru viðhöfð þegar ráðuneytið leitar eftir ráðgjöf til stofnana eða starfsmanna, þ.m.t. félaga í eigu starfsmanna, lagadeilda Háskólans á Akureyri (HA), Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst (Bifröst) sem gegna stöðu nýdoktora, háskólakennara, lektora, dósenta eða prófessora í fullu starfi og hlutastarfi, þ.m.t. starfsmenn í gesta- og rannsóknarstöðum?
    Samkvæmt bréfi forsætisráðuneytis til menntamálaráðuneytis, dagsettu 10. desember 2019, var tekið fram að mikilvægt væri ef nauðsyn þætti og óhjákvæmilegt að ráða utanaðkomandi ráðgjafa til afmarkaðra verkefna að farið yrði eftir leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og Ríkiskaupa. Að beiðni forsætisráðuneytisins sendi Ríkisendurskoðun forsætisráðuneytinu hinn 22. júní 2009 ábendingar um endurskoðun vinnubragða Stjórnarráðsins við gerð samninga við utanaðkomandi sérfræðinga. Með leiðbeiningunum var gátlisti sem byggist á eftirfarandi meginatriðum:
     a.      Ganga úr skugga um hvort nauðsynlega þekkingu sé að finna hjá ríkinu.
     b.      Útbúa stutta en greinargóða verk- og markmiðalýsingu.
     c.      Leggja mat á hugsanlegt umfang verkefnisins og kostnað við það.
     d.      Meta hvort kaupin eru útboðsskyld.
     e.      Rökstyðja val á ráðgjafa.
     f.      Gera skriflegan samning við ráðgjafann um þjónustuna og þóknun fyrir hana.
     g.      Fylgjast reglulega með vinnu ráðgjafans og hvort verkið er innan umsaminna tímamarka og fjárhagsáætlunar.
     h.      Meta hvernig vinna ráðgjafanna nýtist og hvort hún hafi skilað þeim árangri sem vænst var.
    Við kaup á sérfræðiþjónustu þarf til viðbótar við framangreindar leiðbeiningar að gæta að ákvæðum laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, þ.m.t. skyldu til að gæta hagkvæmni í innkaupum, beina viðskiptum til sérfræðinga sem eru aðilar að rammasamningum Ríkiskaupa, leita eftir hagstæðum tilboðum og bera saman verð áður en gengið er til samninga um kaup á sérfræðiþjónustu. Ef um er að ræða kostnað umfram 15,5 millj. kr. ber að bjóða út fyrirhuguð þjónustukaup.
    Þegar mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur leitað eftir ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga um lagalega ráðgjöf getur ýmist verið um að ræða að tiltekin verkefni kalli tímabundið á meiri mannafla en ráðuneytið hefur yfir að ráða eða að verkefni kalli á sérfræðiþekkingu sem ekki er fyrir hendi innan ráðuneytisins. Í mörgum tilvikum er þá sérfræðiþekkingu sem sóst er eftir aðeins að finna hjá akademískum starfsmönnum háskóla og því sjálfgefið að leita þangað eftir ráðgjöf hjá hæfustu sérfræðingum landsins á tilteknum réttarsviðum.

     2.      Vegna hvers konar verkefna er leitað lagalegrar ráðgjafar hjá starfsmönnum og stofnunum lagadeilda háskólanna og hversu oft vegna hverrar tegundar verkefna?
    Helstu verkefni þar sem leitað hefur verið eftir lagalegri ráðgjöf hjá akademískum starfsmönnum háskóla eru við gerð lagafrumvarpa. Ýmist er þá sóst eftir því að akademískur starfsmaður skili tillögu að stjórnarfrumvarpi ráðherra á tilteknu málefnasviði eða að akademískur starfsmaður háskóla taki þátt í starfi skipaðrar nefndar sem vinnur að frumvarpstillögu fyrir ráðherra. Þá eru þess einnig dæmi að leitað sé lagalegrar ráðgjafar vegna uppkvaðningar úrskurða í stjórnsýslumálum og vegna úrlausnar starfsmannamála.
    Verkefni sem kalla á aðkomu utanaðkomandi lögfræðinga eru ekki flokkuð nánar eftir undirtegundum í skjala- og bókhaldskerfum ráðuneytisins en þrátt fyrir það hefur ráðuneytið á undanförnum þremur árum leitað einu sinni eftir liðsinni lagadeildar háskóla við undirbúning stjórnarfrumvarps ráðherra.

     3.      Hversu mörg ráðgjafarverkefni, sem 1. tölul. lýtur að, hafa verið innt af hendi frá árinu 2018 og hversu mikið hefur verið greitt samtals fyrir ráðgjöfina á umræddu tímabili?
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerði samning í nóvember 2018 við Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, lektor, og Júlí Antonsdóttur, aðjunkt, báðar við Háskólann á Akureyri, um undirbúning frumvarps um lýðskóla á Íslandi í samræmi við þingsályktun um lýðháskóla, nr. 41/145. Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi og varð að lögum um lýðskóla, nr. 65/2019. Fyrir frumvarpsgerðina greiddi ráðuneytið 3.294.800 kr.

     4.      Hversu mikið hefur verið greitt fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul. frá ársbyrjun 2018 og hversu mörg hafa verið innt af hendi af annars vegar starfsmönnum og hins vegar stofnunum:
                  a.      lagadeildar HA,
                  b.      lagadeildar HÍ,
                  c.      lagadeildar HR,
                  d.      lagadeildar Bifrastar?

    Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. var í nóvember árið 2018 gerður samningur við Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, lektor, og Júlí Antonsdóttur, aðjunkt, báðar við Háskólann á Akureyri, um undirbúning frumvarps um lýðskóla á Íslandi. Samtals voru greiddar 3.294.800 kr. fyrir verkefnið og skiptist greiðslan þannig að Ragnheiður fékk 1.880.000 kr. og Júlí 1.414.800 kr.
    Ekki hefur verið leitað liðsinnis hjá starfsmönnum og stofnunum annarra tilgreindra lagadeilda.

     5.      Hvaða bókaútgáfu á sviði lögfræði hefur ráðuneytið styrkt frá árinu 2018 og hversu hár hefur styrkurinn verið fyrir hverja og eina útgáfu? Hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við slíkar styrkveitingar?
    Bókaútgáfa á sviði lögfræði hefur ekki fengið styrk frá aðalskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.