Ferill 747. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1279  —  747. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga (sóttvarnahús og för yfir landamæri).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Sigurð Kára Árnason, Rögnvald G. Gunnarsson og Ástu Valdimarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Kjartan Ólafsson frá dómsmálaráðuneyti, Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Ölmu Möller landlækni, Magnús Gottfreðsson, yfirlækni á Landspítala, Sigurgeir Sigmundsson frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Víði Reynisson frá embætti ríkislögreglustjóra, Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Aðalheiði Jónsdóttur og Gylfa Þór Þorsteinsson frá Rauða krossinum, Reimar Pétursson lögmann, Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvöru Nordal og Guðríði Bolladóttur frá umboðsmanni barna.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Læknafélagi Íslands og Svavari Kjarrval Lútherssyni.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hér á landi. Lagt er til að við sóttvarnalög, nr. 19/1997, bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um heimild heilbrigðisráðherra til að setja reglugerð sem mæli fyrir um skyldu farþega sem koma til landsins til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi. Skyldan getur náð til ferðamanna sem hafa dvalið á hááhættusvæðum eða á svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.
    Að auki er lagt til að við lög um útlendinga, nr. 80/2016, bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um tímabundna heimild dómsmálaráðherra til þess að setja reglugerð sem mæli fyrir um að útlendingum sem koma frá eða dvalið hafa á hááhættusvæði, eða svæði sem ekki liggja fullnægjandi upplýsingar fyrir um, sé óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði laganna og reglugerðar um för yfir landamæri.
    Heimildir þær sem kveðið er á um í frumvarpinu eru tímabundnar og gilda frá 22. apríl til og með 30. júní 2021.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á nauðsyn þess að frumvarpið verði að lögum sem fyrst þannig að treyst verði lagastoð fyrir aðgerðir sem eru mikilvægar í þágu almannahagsmuna til verndar lífi og heilsu manna. Í því samhengi þurfi jafnframt að veita stjórnvöldum svigrúm til að útfæra þær heimildir sem veittar eru með frumvarpinu. Heimildirnar eru tímabundnar og er ætlað að bregðast við þeim smitum sem berast inn í samfélagið frá landamærum þar sem ljóst er að gildandi takmarkanir hafa ekki dugað. Í ljósi framangreinds ítrekar 1. minni hluti jafnframt nauðsyn þess að ráðist verði í heildarendurskoðun sóttvarnalaga sem allra fyrst og ítrekar mat nefndarinnar í þeim efnum sem kom fram í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarnaráðstafanir o.fl.), sbr. 329. mál á yfirstandandi löggjafarþingi.

Réttindi barna.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að í frumvarpinu og í greinargerð væri ekki lagt mat á stöðu barna sem kunna að sæta dvöl í sóttvarnahúsi eða verði óheimilt að koma til landsins á grundvelli reglugerðar ráðherra. Ljóst er að skylda til dvalar í sóttvarnahúsi, eða bann við komu til landsins, felur í sér skerðingu á frelsi einstaklinga, þar á meðal barna. Í því sambandi bendir minni hlutinn á að aðgerðir stjórnvalda til þess að hefta útbreiðslu yfirstandandi heimsfaraldurs hafa óhjákvæmilega með einhverjum hætti áhrif á frelsi barna, þar má m.a. nefna röskun á eðlilegu skóla- og íþróttastarfi barna og þann fjölda sem gert hefur verið að sæta sóttkví. Slíkar aðgerðir má rekja til fjölda smita innan lands sem hafa átt uppruna sinn við landamærin.
    Fyrsti minni hluti telur brýnt að við undirbúning og framkvæmd þeirra reglna sem lagt er til að ráðherrum verði veitt heimild til að setja verði hugað að meginreglum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bendir 1. minni hluti þar sérstaklega á ákvæði sáttmálans um aðgengi barna að upplýsingum, samráð við börn í málum sem þau varðar og að ávallt sé litið til þess sem barni er fyrir bestu við ráðstafanir sem þau varðar.

Breytingartillögur 1. minni hluta.
Hááhættusvæði.
    Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að skylda til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi ferðamann sem kemur til landsins frá hááhættusvæði eða svæði þar sem fullnægjandi upplýsingar um samfélagssmit liggja ekki fyrir. Ráðherra birti lista yfir svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði og almennt skuli miðað við að hann sé uppfærður á 14 daga fresti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að hááhættusvæði verði skilgreint eftir 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa og tekið fram að t.d. mætti miða hááhættusvæði við nýgengi upp á 750. Í greinargerð kemur jafnframt fram að skilgreina megi heil lönd sem hááhættusvæði ef nýgengi er yfir skilgreindum áhættumörkum á einhverju svæði innan tiltekins ríkis. 1. minni hluti tekur fram að tölur um nýgengi smita í greinargerð eru eingöngu nefndar í dæmaskyni. Vakin er athygli á að mismunandi töluleg gildi um smittíðni geta endurspeglað mismikinn alvarleika, m.a. eftir þeim stofnum veirunnar sem eru í gangi á hverjum tíma auk þess sem hlutfall jákvæðra sýna af fjölda tekinna sýna á hverjum stað getur haft áhrif á matið.
    Í umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að til bóta væri að skilgreina framangreind atriði í lagatexta. 1. minni hluti telur að löggjöfin verði að veita ráðherra og sóttvarnalækni svigrúm til að skilgreina hááhættusvæði eftir því sem faraldrinum vindur fram. Þannig væri varhugavert að löggjöfin kvæði á um að hááhættusvæði skyldi skilgreina út frá tilteknum nýgengisstuðli enda þarf mat ráðherra að geta byggst á fleiri þáttum þar sem m.a. getur þurft að taka tillit til mismunandi afbrigða veirunnar líkt og áður kom fram. Þó telur 1. minni hluti rétt að í lagaákvæðinu verði sérstaklega tiltekið að við skilgreiningu á hááhættusvæði í reglugerð megi m.a. líta til nýgengisstuðuls smita og mismunandi afbrigða veirunnar. Þá telur 1. minni hluti rétt að taka af hugsanlegan vafa um að skilgreining hááhættusvæðis í reglugerð skuli hverju sinni byggjast á tillögum sóttvarnalæknis.
    Heimild ráðherra til að skilgreina heilt land sem hááhættusvæði falli afmarkaður hluti þess innan slíkrar skilgreiningar byggist á þeim rökum að ógerlegt sé að hafa eftirlit með því frá hvaða svæði innan tiltekins ríkis ferðamaður kemur til landsins. 1. minni hluti tekur undir sjónarmið í þessa veru sem og að rök standi til þess að heimildin sé tilgreind í lagatexta. Þá leggur minni hlutinn til að fram verði tekið að listi ráðherra yfir hááhættusvæði skuli sæta endurskoðun eigi síðar en á tveggja vikna fresti. Þannig verði reglubundin endurskoðun tryggð ásamt því sem ekki verður þörf á uppfærslu nema endurskoðun leiði þá þörf í ljós. Leggur 1. minni hluti til breytingu á 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins í þá veru.
    Aðrar breytingartillögur 1. minni hluta eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.
                  b.      Síðari málsliður 1. efnismgr. orðist svo: Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.
                  c.      Í stað 3. efnismgr. komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
                      Að fenginni tillögu sóttvarnalæknis skal ráðherra í reglugerð skilgreina hááhættusvæði. Við skilgreininguna er m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru. Heimilt er að skilgreina tiltekið land sem hááhættusvæði enda þótt einungis afmarkaður hluti þess uppfylli framangreind skilyrði samkvæmt skilgreiningu í reglugerð. Ráðherra skal birta lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Listinn skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á tveggja vikna fresti.
                      Um málsmeðferð fer eftir 14. gr.
     2.      Í stað orðanna „hááhættusvæði eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. efnismálsgreinar 2. gr. komi: hááhættusvæði, sbr. ákvæði til bráðabirgða við sóttvarnalög, nr. 19/1997, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.

Alþingi, 22. apríl 2021.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.