Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1290  —  593. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni um samninga um rannsóknir á lífsýnum erlendis.


     1.      Hversu margir samningar um rannsóknir á lífsýnum í tengslum við heilbrigðisþjónustu hafa verið gerðir við einkaaðila eða opinbera aðila
                  a.      á Norðurlöndum,
                  b.      í öðrum EES-ríkjum,
                  c.      í öðrum ríkjum en greinir í a- og b-lið?

    Ráðuneytið kallaði eftir upplýsingum frá öllum heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í gildi eru tveir samningar um rannsóknir á lífsýnum í tengslum við heilbrigðisþjónustu, einn hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Norðurlöndum og einn hjá Landspítala við annað EES-ríki.

     2.      Hvaða fjárhæðir eru undir í þessum samningum? Óskað er eftir sundurliðun eftir því hvort samningar eru við einkaaðila eða opinbera aðila og sundurliðun eftir ríkjum, sbr. 1. tölul.
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala var kostnaður vegna sýna sem rannsökuð voru erlendis árið 2020 eftirfarandi:
     a.      Einkaaðilar: 125 millj. kr.
                  1.      Á Norðurlöndum: 67 millj. kr.
                  2.      Í öðrum EES-ríkjum: 49 millj. kr.
                  3.      Í öðrum ríkjum en greinir að framan: 9 millj. kr.
     b.      Opinberir aðilar: 65 millj. kr.
                  1.      Á Norðurlöndum: 59 millj. kr.
                  2.      Í öðrum EES-ríkjum: 3 millj. kr.
                  3.      Í öðrum ríkjum en greinir að framan: 3 millj. kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var gerður samningur um rannsóknir á leghálssýnum við Amager og Hvidovre Hospital, sem er opinber stofnun, með þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í febrúar í vetur. Áætlanir gera ráð fyrir að greiðslur vegna þessara rannsókna nemi um 80 millj. kr. árið 2021. Samningurinn er til þriggja ára.

     3.      Er til áætlun um flutning slíkra rannsókna til Íslands?
    Ákjósanlegt er að rannsóknir og greining sýna fari fram hér á landi, að því gefnu að faglegar og fjárhagslegar forsendur séu fyrir hendi. Í svörum Landspítala kemur fram að ávallt sé stefnt að því að flytja rannsóknir á lífsýnum til Íslands þegar hægt er að framkvæma þær hérlendis á öruggan og hagkvæman hátt.