Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1293  —  557. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu.


     1.      Hvað tefur umsókn um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA), sbr. þingsályktun nr. 69/145?
    Með þingsályktun nr. 69/145 frá 13. október 2016 ályktaði Alþingi að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.
    Óskað var eftir tilnefningum í starfshóp um aðild Íslands að stofnuninni í júlí 2017 og fór fyrsti fundur hópsins fram 5. desember 2017.
    Ráðuneytið skipulagði samráðsfundi með stjórnsýslustofnunum og háskóla- og fræðasamfélaginu í aðdraganda fundar með fulltrúum Geimvísindastofnunar Evrópu sem fram fór 14. febrúar 2019.
    Niðurstaða þess fundar var að stofnunin sendi stjórnvöldum vegvísi að því hvernig undirbúa skyldi svonefnt fyrsta stigs samstarf, sem hvílir á gerð samstarfssamnings. Tillaga að vegvísi stofnunarinnar barst ráðuneytinu 25. febrúar 2019.
    Hinn 11. júní 2019 lá fyrir samþykki á næsta skrefi í ferlinu, í samræmi við vegvísi stofnunarinnar, sem fólst í því að ráðherra málefna geimsins ritaði stofnuninni bréf þar sem leitast væri eftir að hefja viðræður um aðild.
    Í ljósi þess að starfsemi stofnunarinnar er á sviði vísinda, menntamála og rannsókna var málið lagt í hendur mennta- og menningarmálaráðuneytis 7. apríl 2020.

     2.      Hafa farið fram viðræður við fulltrúa stofnunarinnar nýlega? Ef svo er, hverjir tóku þátt í þeim af Íslands hálfu?
    Fundur fulltrúa stofnunarinnar með íslenskum hagsmunaaðilum var haldinn í utanríkisráðuneytinu 14. febrúar 2019. Megintilgangur fundarins var að koma á nánari tengslum við stofnunina og kanna hagkvæmni samstarfs. Fulltrúar 18 íslenskra hagsmunaaðila tóku þátt í fundinum, auk utanríkisráðuneytisins:
    Alþingi.
    Hafrannsóknastofnun.
    Háskóli Íslands.
    Háskólinn í Reykjavík.
    ISAVIA.
    Íslenski geimvísindaklasinn.
    Landgræðslan.
    Landhelgisgæsla Íslands.
    Landmælingar Íslands.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
    Neyðarlínan.
    Póst- og fjarskiptastofnun.
    Rannís.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
    Samgöngustofa.
    Skógræktin.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
    Veðurstofa Íslands.

     3.      Hefur ráðherra látið meta ávinning af aðild með tilliti til:
                  a.      öryggisþátta í samgöngum,
                  b.      faglegrar þátttöku í vísindum og rannsóknum og aðgengi að styrkjakerfi ESA?

    Utanríkisráðherra er ekki kunnugt um að ávinningur af aðild hafi verið metinn af stjórnvöldum.

     4.      Hver er áætlaður árlegur kostnaður við aðild að Geimvísindastofnun Evrópu?
    Stofnunin hefur gefið til kynna að árleg aðildargjöld fyrir Ísland að stofnuninni myndu hlaupa á milljónum evra.
    Að öðrum kosti má efla samstarfið á grundvelli samstarfssamnings. Samkvæmt nýjum upplýsingum sem menntamálaráðuneytið hefur aflað fylgir enginn kostnaður samstarfssamningi.

     5.      Telur ráðherra aðild að Geimvísindastofnun Evrópu sé skilyrði fyrir aðgangi að gervihnattaleiðsögukerfinu EGNOS?
    Málefni EGNOS falla undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Samkvæmt upplýsingum frá því ráðuneyti er aðild að Geimvísindastofnun Evrópu hvorki skilyrði fyrir aðgangi að EGNOS né stækkun útbreiðslusvæðis EGNOS vestur fyrir land.

    Alls fóru 2 tímar í að taka svarið saman.