Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1304  —  674. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um greiðslu atvinnuleysisbóta.


     1.      Hver er meðalbiðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta síðustu fimm ár frá því að umsókn er móttekin?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur afgreiðslutími stofnunarinnar á síðastliðnum fimm árum, hvað varðar umsóknir um atvinnuleysistryggingar, almennt ekki verið lengri en 4–6 vikur frá því að umsókn hefur borist stofnuninni. Afgreiðsla umsókna um atvinnuleysistryggingar hefur þó oft og tíðum tekið skemmri tíma, ekki síst í þeim tilvikum þegar öll gögn hafa fylgt með umsókn, en gagnaöflun getur tekið mislangan tíma. Frá mars 2020 til júlí 2020 náði Vinnumálastofnun hins vegar ekki að afgreiða allar umsóknir sem bárust stofnuninni innan 4–6 vikna en á þeim tíma jókst atvinnuleysi hratt á mjög skömmum tíma.
    Á meðfylgjandi mynd má sjá afgreiðslutíma Vinnumálastofnunar síðastliðna 14 mánuði á umsóknum um atvinnuleysistryggingar, greint eftir mánuðum. Línurit á mynd sýnir umsóknarfjölda í hverjum mánuði á sama tímabili.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     2.      Hver er lengsti tími sem einstaklingur hefur þurft að bíða eftir greiðslu atvinnuleysisbóta?
    Upplýsingar um lengsta tíma sem einstaklingur hefur þurft að bíða eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga liggja hvorki fyrir hjá Vinnumálastofnun né hjá félagsmálaráðuneytinu.

     3.      Hvaða ferli fer í gang hjá Vinnumálastofnun þegar umsókn um atvinnuleysisbætur berst? Væri hægt að flýta því ferli og ef svo er, með hvaða hætti?
    Í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga. Ferli Vinnumálastofnunar við útreikning á bótarétti, eftir að umsókn berst stofnuninni um greiðslu atvinnuleysistrygginga, snýr meðal annars að því að kanna hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna, kanna eftirstöðvar bótatímabils og hvort um sé að ræða ónýttan rétt til orlofs auk þess sem líta verður til mögulegrar skerðingar vegna tekna, bótahlutfalls með tilliti til hlutastarfs o.s.frv. Aðferð við útreikning á bótarétti einstaklinga er einnig mismunandi eftir því hvort umsækjendur eru launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna þar sem litið er til mismunandi tímabila við mat á fyrri tekjum við útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Að auki ber í vissum tilfellum að kanna hvort starfslok eða námslok umsækjanda þarfnist frekari skoðunar og þá hvort umsækjandi þurfi að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Umsóknir um atvinnuleysisbætur eru forunnar á þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar um land allt en endanleg afgreiðsla á réttindum fer fram á greiðslustofu stofnunarinnar á Skagaströnd.
    Í byrjun árs 2020 voru gerðar tilteknar ráðstafanir hjá Vinnumálastofnun í því skyni að bregðast við ört vaxandi atvinnuleysi og stytta afgreiðslutíma hjá stofnuninni. Þær ráðstafanir sneru fyrst og fremst að því að fjölga starfsfólki sem vinnur við afgreiðslu umsókna auk þess sem gerðar voru breytingar á tölvukerfum stofnunarinnar. Í þessu sambandi má nefna að Alþingi samþykkti breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hinn 29. júní 2020 sem miðuðu meðal annars að því að gera framkvæmd laganna skilvirkari. Sem dæmi má nefna að dregið var úr vægi skriflegra vottorða frá vinnuveitendum við útreikning á bótarétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Var stofnuninni þannig veitt heimild til að notast við upplýsingar frá skattyfirvöldum til að staðreyna upplýsingar sem fram koma í umsókn í stað þess að stofnuninni væri ávallt skylt að óska eftir vottorðum frá fyrrverandi vinnuveitanda. Breyting þessi hefur að mati Vinnumálastofnunar flýtt fyrir afgreiðslu umsókna um atvinnuleysistryggingar og dregið hefur úr óþarfa töfum á vinnslu umsókna.
    Hjá Vinnumálastofnun er unnið að smíði á nýju tölvukerfi og stefnir stofnunin að því að taka kerfið í notkun síðar á þessu ári. Gert er ráð fyrir að þær nýjungar sem innleiddar verða með nýju tölvukerfi komi til með að flýta fyrir afgreiðslu á umsóknum um atvinnuleysistryggingar auk þess að auðvelda alla umsýslu með atvinnuleysistryggingum.
    Auk þess sem að framan er rakið er í félagsmálaráðuneytinu hafin vinna við heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins. Gert er ráð fyrir að í þeirri vinnu verði meðal annars horft til þess með hvaða hætti unnt sé að flýta afgreiðslu umsókna um atvinnuleysistryggingar.