Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1308  —  762. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.


Frá félags- og barnamálaráðherra.



    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi markmið og aðgerðaáætlun fyrir árin 2021–2024 um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

I. MARKMIÐ

1. Þátttaka barna.
    Börn taki virkan þátt í ákvarðanatöku og stjórnvöld eigi markvisst og reglulegt samráð við börn. Samráð falli að þörfum barna og jafnræði verði í samskiptum stjórnvalda við ólíka hópa barna.
2. Fræðsla um þátttöku og réttindi barna.
    Þekking á réttindum barna og skyldum stjórnvalda samkvæmt barnasáttmálanum verði útbreidd í samfélaginu.
3. Barnvæn stjórnsýsla.
    Aðgengi barna að stjórnvöldum verði tryggt og upplýsingar settar fram á barnvænan hátt. Börn geti notið stuðnings og ráðgjafar umboðsmanns barna við að leita réttar síns.
4. Hagsmunamat út frá réttindum barna.
    Hagsmunamat verði hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana um réttindi einstakra barna.
5. Heildstæð stefna í málefnum barna.
    Íslensk stjórnvöld vinni eftir heildstæðri stefnu í málefnum barna og ungmenna á Íslandi sem taki mið af barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
6. Lagabreytingar og alþjóðlegar skuldbindingar um réttindi barna.
    Íslensk löggjöf verði í samræmi við barnasáttmálann og íslensk stjórnvöld uppfylli frekari alþjóðlegar skuldbindingar er varða réttindi barna.
7. Samræmd innleiðing á réttindum barna.
    Framkvæmd og innleiðing réttinda barna verði samræmd þvert á ráðuneyti, stofnanir og stjórnsýslustig.
8. Markviss öflun gagna um farsæld og réttindi barna á Íslandi.
    Mælaborð sem veiti víðtækt yfirlit yfir stöðu barna og líðan, sem og réttindi þeirra í íslensku samfélagi verði aðgengilegt öllum. Mælaborðið hafi markviss áhrif á stefnumótun og forgangsröðun verkefna og fjármuna.
9. Greining útgjalda hins opinbera til að tryggja réttindi barna og farsæld.
    Opinber fjármál verði greind út frá réttindum og farsæld barna, með sérstakri áherslu á úthlutun fjármagns til þjónustu og verkefna fyrir viðkvæma hópa barna.
10. Áhersla á réttindi barna í alþjóðlegu samstarfi
    Stjórnvöld leggi áherslu á réttindi barna í samstarfsverkefnum á alþjóðlegum vettvangi með markvissum hætti.
12. Eftirfylgni og endurmat
    Regluleg eftirfylgni og endurmat á stöðu innleiðingar barnasáttmálans verði tryggð.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN

1.1. Þátttökuvettvangur.
1.1.1. Markmið:
    Efla og styrkja samskipti barna og stjórnvalda.
1.1.2. Aðgerð:
    Stofnaður verði rafrænn vettvangur þar sem börn geti tekið þátt í virku samráði við stjórnvöld. Ungmennaráðum/ráðgjafahópum, ungmennasamtökum og börnum yngri en 18 ára verði gert kleift að skrá sig til þátttöku. Í gegnum vettvanginn verði meðal annars hægt að sækja stafræna fræðslu um réttindi barna, samfélagsleg málefni, álitamál tengd börnum, taka þátt í spurningakönnunum og tengjast barnvænni samráðsgátt. Auk þess geti börn komið áherslum sínum á framfæri við stjórnvöld.
    Opinberum aðilum verði skylt að eiga samráð og tryggja þátttöku barna við að semja lagafrumvörp, við stefnumótun, hagsmunamat og aðrar meiri háttar ákvarðanir er varða málefni barna. Vettvangurinn auðveldi þannig þátttöku barna og aðgengi stjórnvalda að samráði við börn.
    Fyrirkomulag þátttökuvettvangsins verði unnið í víðtæku samráði við börn, umboðsmann barna, ungmennaráð og frjáls félagasamtök sem vinna að málefnum barna. Sérstök áhersla verði lögð á að ná til viðkvæmra hópa barna og stuðla að þátttöku þeirra, meðal annars með því að tryggja efni á fleiri tungumálum en íslensku og táknmáli, aðgang að talgervli, samráð við t.d. fötluð börn og börn af erlendum uppruna.
1.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
1.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og félagsmálaráðuneyti.
1.1.5. Tímasetning:
    Þátttökuvettvangi verði komið á fót árið 2022.

1.2. Úttekt á þátttöku barna.
1.2.1. Markmið:
    Fá yfirsýn yfir þátttöku barna hjá ríki og sveitarfélögum
1.2.2. Aðgerð:
    Staða þátttöku barna á Íslandi verði metin út frá CPAT aðferðafræðinni sem var þróuð af Evrópuráðinu. Úttektin felist meðal annars í því að skoða íslenska löggjöf og framkvæmd varðandi þátttöku barna. Úttektin verði unnin í samstarfi við Evrópuráðið og þátttaka barna í sjálfri úttektinni verði umfangsmikil.
1.2.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
1.2.4. Framkvæmd:
    Félagsmálaráðuneyti.
1.2.5. Tímasetning:
    Úttekt verði lokið fyrir árslok 2021.

1.3. Barnvæn samráðsgátt.
1.3.1. Markmið:
    Auka aðgengi barna að samráðsgátt stjórnvalda.
1.3.2. Aðgerð:
    Samráðsgátt stjórnvalda verði gerð aðgengilegri fyrir börn og möguleiki þeirra á þátttöku aukinn. Börn geti skilað inn umsögnum líkt og aðrir og tryggt verði að efnið sé sett fram með einfaldari og aðgengilegri hætti fyrir börn. Sett verði viðmið um hvaða mál eigi að fara inn á barnvæna samráðsgátt, hvernig börn geti komið á framfæri athugasemdum og hvort gera eigi kröfu um rafræna auðkenningu líkt og gert er í samráðsgátt stjórnvalda. Aðgerðin verði unnin í samráði við börn, embætti umboðsmanns barna, frjáls félagasamtök, ritstjórn samráðsgáttar og Stafrænt Ísland.
1.3.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
1.3.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
1.3.5. Tímasetning:
    Barnvæn samráðsgátt verði aðgengileg á árinu 2022.

1.4. Úrvinnsla á niðurstöðum barnaþings.
1.4.1. Markmið:
    Niðurstöður barnaþings verði nýttar markvisst.
1.4.2. Aðgerð:
    Niðurstöður barnaþings verði nýttar markvisst við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum og eftirfylgni með niðurstöðunum innan Stjórnarráðsins tryggð.
1.4.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
1.4.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og embætti umboðsmanns barna.
1.4.6. Tímasetning:
    Verklag verði tilbúið fyrir næsta barnaþing árið 2021.

2.1. Fræðsla um réttindi barna.
2.1.1. Markmið:
    Tryggja markvissa fræðslu um barnasáttmálann.
2.1.2. Aðgerð:
    Fræðsluáætlun til fimm ára verði sett fram. Áætlunin verði unnin í ríku samstarfi við börn, umboðsmann barna, Menntamálastofnun, frjáls félagasamtök og sérfræðinga í málefnum barna um fræðslu og þróun fræðsluefnis með það að markmiði að tryggja reglulega fræðslu og útgáfu fræðsluefnis sem sniðið er að ólíkum aldri og þörfum barna. Stutt verði markvisst við þróun og uppfærslu vefsins barnasattmali.is, samstarfsverkefni umboðsmanns barna, Menntamálastofnunar, Barnaheilla og UNICEF á Íslandi.
2.1.3. Ábyrgð:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
2.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna, Menntamálastofnun og embætti umboðsmanns barna.
2.1.5. Tímasetning:
    Fræðsluáætlun liggi fyrir 2022.

2.2. Fræðsluefni um innleiðingu barnasáttmálans.
2.2.1. Markmið:
    Tryggja nægt aðgengi að fræðslu og upplýsingum um innleiðingu barnasáttmálans.
2.2.2. Aðgerð:
    Unnið verði fræðsluefni um innleiðingu og beitingu barnasáttmálans fyrir börn, forsjáraðila, fagstéttir, opinbera starfsmenn og aðra þá sem vinna með börnum og fyrir börn. Fræðsluefnið verði aðgengilegt öllum og unnið af embætti umboðsmanns barna.
2.2.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti.
2.2.4. Framkvæmd:
    Embætti umboðsmanns barna.
2.2.5. Tímasetning:
    Fræðsluefni verði gefið út á árunum 2022–2024.

2.3. Greining á menntun fagaðila.
2.3.1. Markmið:
    Greining fari fram á menntun fagaðila sem vinna með og fyrir börn, taka ákvarðanir varðandi börn eða koma að málefnum barna.
2.3.2. Aðgerð:
    Þverfagleg og víðtæk greining verði unnin á menntun fagstétta sem vinna með og/eða koma að málefnum barna, með tilliti til þekkingar á barnasáttmálanum og skyldum opinberra aðila hvað varðar réttindi barna. Greiningin verði unnin í samstarfi við háskóla og fræðasamfélagið, embætti umboðsmanns barna, fagaðila, félagasamtök og fleiri.
2.3.3. Ábyrgð:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2.3.4. Framkvæmd:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti og stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
2.3.5. Tímasetning:
    Greining liggi fyrir á árinu 2022.

2.4. Menntun og starfsþróun fagfólks sem vinnur með og/eða fyrir börn.
2.4.1. Markmið:

    Efla færni og þekkingu fagfólks sem vinnur með og/eða fyrir börn.
2.4.2. Aðgerð:
    Sett verði fram fræðsluáætlun til þriggja ára í þeim tilgangi að efla þekkingu starfsmanna og fagaðila á barnasáttmálanum og þeim réttindum sem ber að tryggja börnum samkvæmt honum. Með því megi efla menntun og starfsþróun fjölbreyttra starfsstétta sem vinna með börnum á einn eða annan hátt. Fræðsluáætlun taki mið af greiningu á menntun og verði meðal annars unnin í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, börn, embætti umboðsmanns barna, háskólasamfélagið og fagstéttir.
2.4.3. Ábyrgð:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2.4.4. Framkvæmd:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2.4.5. Tímasetning:
    Aðgerðaráætlun um menntun og starfsþróun liggi fyrir árið 2022.

2.5. Réttindaskólar.
2.5.1. Markmið:
    Stutt verði við markvissa innleiðingu barnasáttmálans í skóla- og frístundastarf.
2.5.2. Aðgerð:
    Skólar, æskulýðs- og íþróttastarf fái fræðslu um barnasáttmálann. Stutt verði við innleiðingu verkefnisins Réttindaskólar UNICEF. Forsendur barnasáttmálans verði lagðar til grundvallar við allar ákvarðanir þeirra stofnana sem taka þátt í verkefninu, auk þess sem þær endurspeglist í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa, annarra starfsmanna og foreldra. Skoðaðar verði leiðir til að nýta þessa vinnu með fjölbreyttari hætti fyrir íþróttir, tómstundir og annað starf með börnum.
2.5.3. Ábyrgð:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2.5.4. Framkvæmd:
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti og UNICEF á Íslandi.
2.5.5. Tímasetning:
    Áætlun um innleiðingu og þróun Réttindaskólaverkefnisins til lengri tíma liggi fyrir árið 2022.

2.6. Dagur mannréttinda barna.
2.6.1. Markmið:
    Efla vitundarvakningu á degi mannréttinda barna.
2.6.2. Aðgerð:
    Unnið verði að því að gera 20. nóvember hærra undir höfði og nýta hann enn frekar við fræðslu og vitundarvakningu um réttindi barna. Samstarf við börn, Barnaheill, önnur frjáls félagasamtök og embætti umboðsmanns barna um framkvæmd dagsins verði eflt.
2.6.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2.6.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og Barnaheill.
2.6.5. Tímasetning:
    Dagur mannréttinda barna verði efldur strax á árinu 2021.

3.1. Barnvænt aðgengi að stjórnvöldum.
3.1.2. Markmið:
    Aðkoma barna og fyrirsvar þeirra verði skýrt og aðgengi þeirra að upplýsingum, réttindum og úrræðum verði bætt.
3.1.3. Aðgerð:
    Stjórnvöld, hvort sem er ráðuneyti, stofnanir, úrskurðaraðilar eða sveitarfélög, tryggi barnvænt aðgengi að upplýsingum um réttindi og leiðir til að knýja á um þau. Aðkoma barna að málum og fyrirsvar fyrir þau verði skýrt, viðmið samræmd og leiðbeiningar settar fram um málsmeðferð í málum er varða börn. Leiðbeiningar og viðmið verði unnin í samstarfi við embætti umboðsmanns barna.
3.1.4. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
3.1.5. Framkvæmd:
    Stýrihópur í málefnum barna og viðkomandi stjórnvöld.
3.1.6. Tímasetning:
    Leiðbeiningar um barnvæna stjórnsýslu verði settar fram árið 2022.

3.2. Réttindagæsla hjá embætti umboðsmanns barna.
3.2.1. Markmið:
    Börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum, telji þau brotið gegn réttindum þess.
3.2.2. Aðgerð:
    Embætti umboðsmanns barna verði tryggt fjármagn til að ráða starfsmann til að sinna réttindagæslu til tveggja ára í tilraunaskyni. Starfsmaðurinn hafi reynslu og/eða menntun í því að vinna með börnum og eiga samtöl við börn. Hlutverk embættisins í að taka á móti erindum frá börnum, veita þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð við að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum verði þannig eflt. Úrræðið verði jafnframt sérstaklega kynnt börnum svo þau séu upplýst um þennan rétt sinn.
3.2.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti.
3.2.4. Framkvæmd:
    Umboðsmaður barna.
3.2.5. Tímasetning:
    Embætti umboðsmanns barna fái starfsmann í réttindagæslu árin 2022 og 2023.

4.1. Mótun barnvæns hagsmunamats.
4.1.1. Markmið:
    Hagsmunamat út frá réttindum barnsins verði innleitt markvisst og verði hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana í málum einstakra barna.
4.1.2. Aðgerð:
    Settur verður á fót starfshópur um mótun hagsmunamats sem leggi til leiðbeiningar, viðmið, innleiðingu, fræðsluefni o.fl. um hagsmunamat eftir eðli og umfangi hverju sinni. Þátttaka barna verði lykilþáttur í framkvæmd hagsmunamats og mótun þess unnin í víðtæku samráði.
4.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
4.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
4.1.5. Tímasetning:
    Starfshópur um mótun hagsmunamats skili af sér tillögum fyrir árslok 2021.

5.1. Mótun heildstæðrar stefnu í málefnum barna og ungmenna á landsvísu.
5.1.1. Markmið:
    Sett verði fram heildstæð stefna í málefnum barna og ungmenna.
5.1.2. Aðgerð:
    Sett verði fram heildstæð stefna í málefnum barna og ungmenna á Íslandi sem taki mið af barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum og viðmiðum. Stefnan verði unnin í þverfaglegu og víðtæku samráði og þátttaka barna og ungmenna verði tryggð. Litið verði til þess að lög, reglugerðir og stefnumótun endurspegli betur raunveruleika barna og ungmenna út frá þörfum og aldri hvers hóps fyrir sig.
5.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti og dómsmálaráðuneyti.
5.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins og viðeigandi aðilar.
5.1.5. Tímasetning:
    Stefnan verði lögð fram árið 2023.

6.1. Endurskoðun laga og samræming við ákvæði barnasáttmálans.
6.1.1. Markmið:
    Að tryggja aukið samræmi milli greina barnasáttmálans og íslenskrar löggjafar ásamt því að alþjóðlegar skuldbindingar er varða réttindi barna verði uppfylltar.
6.1.2. Aðgerð:
    Til að tryggja markvissa innleiðingu barnasáttmálans verði íslensk lög endurskoðuð til að tryggja samræmi milli barnasáttmálans og löggjafar. Horft verði sérstaklega til þess að tryggja að grundvallarforsendur sáttmálans endurspeglist í allri löggjöf er varðar börn, tryggja þátttöku og samráð við börn, samræma og skýra aðild og fyrirsvar barna í málum sem varða þau og innleiða skyldubundið hagsmunamat.
6.1.3. Ábyrgð:
    Dómsmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti o.fl.
6.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
6.1.5. Tímasetning:
    Endurskoðun verði lokið fyrir árslok 2022.

6.2. Fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmálann.
6.2.1. Markmið:
    Að börn geti leitað til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna með mál sín.
6.2.2. Aðgerð:
    Íslensk stjórnvöld fullgildi þriðju valfrjálsu bókunina og tryggi aðgengi barna að kvörtunarferli barnaréttarnefndarinnar.
6.2.3. Ábyrgð:
    Dómsmálaráðuneyti.
6.2.4. Framkvæmd:
    Dómsmálaráðuneyti.
6.2.5. Tímasetning:
    Fullgildingu verði lokið fyrir árslok 2023.

6.3. Fullgilding Haag-samningsins um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samstarf varðandi foreldraábyrgð og ráðstafanir til verndar barna.
6.3.1. Markmið:
    Íslensk stjórnvöld fullgildi Haag-samninginn um barnavernd frá 1996
6.3.2. Aðgerð:
    Í samræmi við athugasemdir barnaréttarnefndarinnar fullgildi íslensk stjórnvöld Haag-samninginn um barnavernd frá 1996. Markmið samningsins er meðal annars að koma á samstarfi milli ríkja um vernd barna hvað varðar lögsögu, gildandi lög og fullnustu réttinda.
6.3.3. Ábyrgð:
    Dómsmálaráðuneyti.
6.3.4. Framkvæmd:
    Dómsmálaráðuneyti.
6.3.5. Tímasetning:
    Fullgildingu verði lokið fyrir árslok 2023.

7.1. Samræmingaraðili.
7.1.1. Markmið:
    Tryggja samræmda innleiðingu á réttindum barna.
7.1.2. Aðgerð:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna verði lögfestur og honum fengið hlutverk samræmingaraðila. Honum verði falin markviss og samræmd innleiðing barnasáttmálans og þátttöku barna, þvert á ráðuneyti, opinberar stofnanir og stjórnsýslustig. Stýrihópurinn verði þannig sá aðili sem mun tryggja framfylgd þessarar stefnu. Ráðnir verði starfsmenn stýrihópsins til að tryggja að hann geti sinnt þessu hlutverki.
7.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
7.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna og félagsmálaráðuneyti.
7.1.5. Tímasetning:
    Stýrihópurinn verði lögfestur á árinu 2021.

7.2. Eftirfylgni með lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar.
7.2.1. Markmið:
    Markvisst sé brugðist við lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar.
7.2.2. Aðgerð:
    Verkefnahópi sem stóð að ritun skýrslu stjórnvalda til barnaréttarnefndarinnar verði falið að leggja fram viðbragðsáætlun um hvernig stjórnvöld áætli að bregðast við lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar eftir úttekt hennar árið 2022.
7.2.3. Ábyrgð:
    Dómsmálaráðuneyti.
7.2.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi.
7.2.5. Tímasetning:
    Viðbragðsáætlun liggi fyrir innan við ári eftir að lokaathugasemdir berast.

7.3. Barnvæn sveitarfélög.
7.3.1. Markmið:
    Öll sveitarfélög innleiði barnasáttmálann markvisst.
7.3.2. Aðgerð:
    Unnið verði að því að öll sveitarfélög á Íslandi hefji markvissa innleiðingu barnasáttmálans, undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög. Öllum sveitarfélögum standi til boða markviss ráðgjöf og fræðsla við innleiðingu verkefnisins frá íslenskum stjórnvöldum og UNICEF á Íslandi.
7.3.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
7.3.4. Framkvæmd:
    Félagsmálaráðuneyti og UNICEF á Íslandi.
7.3.5. Tímasetning:
    Barnvæn sveitarfélög nái til að lágmarki 80% barna árið 2024.

8.1. Farsældarborð.
8.1.1. Markmið:
    Að til staðar sé víðtækt tölfræðilegt yfirlit yfir velferð, líðan og réttindi barna á Íslandi. Tölfræðigögnin séu aðgengileg í mælaborði.
8.1.2. Aðgerð:
    Farsældarmælaborð, sem byggist á mælaborði sem hefur verið í þróun síðustu ár, verði aðgengilegt öllum. Mælaborðið birti ópersónugreinanleg tölfræðigögn um börn markvisst og taki saman stöðu barna á landsvísu. Mælaborðið birti farsældarvísa um stöðu og réttindi barna og verði haft til hliðsjónar við forgangsröðun verkefna og stefnumótun stjórnvalda. Mælaborðið verði þannig nýtt sem vegvísir innan stjórnkerfisins.
8.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
8.1.4. Framkvæmd:
    Félagsmálaráðuneyti og stýrihópur Stjórnarráðsins um mælaborð um velferð barna.
8.1.5. Tímasetning:
    Mælaborðið verði tilbúið fyrir árslok 2021.

9.1. Greining útgjalda með tilliti til réttinda barna.
9.1.1. Markmið:
    Að þróa verklag sem miði að því að greina útgjöld hins opinbera út frá réttindum barna, með sérstakri áherslu á að skoða úthlutun fjármagns til þjónustu og verkefna fyrir viðkvæma hópa barna.
9.1.2. Aðgerð:
    Þróað verði verklag sem miði að því að greina opinber útgjöld út frá réttindum barna, með sérstakri áherslu á að skoða úthlutun fjármagns til þjónustu og verkefna fyrir viðkvæma hópa barna. Verklagið auðveldi stjórnvöldum samanburð á úthlutun fjármagns til ólíkrar þjónustu fyrir börn milli ára, tímabila og landsvæða/hverfa. Jafnframt sé verklagið í samræmi við kröfur barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu barnasáttmálans.
9.1.3. Ábyrgð:
    Fjármála- og efnahagsráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
9.1.4. Framkvæmd:
    Fjármála- og efnahagsráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
9.1.5. Tímasetning:
    Verklag verði þróað til ársins 2024.

10.1. Áhersla á mannréttindi og velferð barna í alþjóðlegu samstarfi.
10.1.1. Markmið:
    Ísland verði leiðandi í að vekja athygli á velferð og réttindum barna í alþjóðlegu samstarfi.
10.1.2. Aðgerð:
    Íslensk stjórnvöld setji sér áætlun um hvernig Ísland geti verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi hvað varðar velferð og réttindi barna og tilheyrandi málafylgju á alþjóðavettvangi, með áherslu á nýsköpun og samþættingu í velferðarþjónustu í þágu barna og mikilvægi þátttöku barna í opinberri stefnumótun.
10.1.3. Ábyrgð:
    Utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
10.1.4. Framkvæmd:
    Utanríkisráðuneyti og stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
10.1.5. Tímasetning:
    Áætlun liggi fyrir árið 2021.

10.2. Áhersla á börn í þróunarsamvinnu Íslands.
10.2.1. Markmið:
    Ísland setji réttindi og velferð barna sem grundvallarþátt í mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu.
10.2.2. Aðgerð:
    Markvisst verði stutt við verkefni sem stuðla að velferð barna og ungmenna í tvíhliða þróunarsamvinnu og samstarfi við undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. UNICEF, í samræmi við stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023. Stefnumið fyrir mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu Íslands eru í mótun og munu réttindi barna verða einn meginþáttur þeirra.
10.2.3. Ábyrgð:
    Utanríkisráðuneyti.
10.2.4. Framkvæmd:
    Utanríkisráðuneyti.
10.2.5. Tímasetning:
    Lokið verði við stefnumið fyrir mannréttindamiðaða þróunarsamvinnu á árinu 2021.

11.1. Árleg skýrsla ráðherra um innleiðingu barnasáttmálans.
11.1.1. Markmið:
    Tryggja eftirfylgni með innleiðingu barnasáttmálans.
11.1.2. Aðgerð:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna kalli eftir upplýsingum frá ráðuneytum um innleiðingu barnasáttmálans árlega. Ráðherra sem ber ábyrgð á stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna hverju sinni leggi í kjölfarið fram ársskýrslu um stöðu innleiðingar barnasáttmálans. Skýrslan verði einnig liður í markvissum undirbúningi stjórnvalda fyrir reglulegar fyrirtökur hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.
11.1.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
11.1.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
11.1.5. Tímasetning:
    Fyrsta ársskýrsla verði lögð fram árið 2022.

11.2. Regluleg könnun á innleiðingu hjá ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum.
11.2.1. Markmið:
    Þróun innleiðingar barnasáttmálans hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum verði könnuð reglulega
11.2.2. Aðgerð:
    Embætti umboðsmanns barna meti stöðu á innleiðingu barnasáttmálans að minnsta kosti annað hvert ár til að fylgjast með þróun og kanna innleiðingu barnasáttmálans. Könnunin nái til ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga.
11.2.3. Ábyrgð:
    Forsætisráðuneyti.
11.2.4. Framkvæmd:
    Embætti umboðsmanns barna.
11.2.5. Tímasetning:
    Framkvæmd annað hvert ár, næst árið 2022.

11.3. Könnun meðal barna á innleiðingu barnasáttmálans.
11.3.1. Markmið:
    Þekking barna á réttindum sínum og upplifun af innleiðingu sáttmálans verði könnuð reglulega.
11.3.2. Aðgerð:
    Þátttökuvettvangurinn verði nýttur til þess að kanna þekkingu meðal barna á réttindum sínum auk upplifunar þeirra af innleiðingu sáttmálans. Könnun verði gerð að minnsta kosti annað hvert ár svo hægt verði að fylgjast með þróuninni.
11.3.3. Ábyrgð:
    Félagsmálaráðuneyti.
11.3.4. Framkvæmd:
    Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
11.3.5. Tímasetning:
    Framkvæmd annað hvert ár, fyrst árið 2022.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða barnasáttmálann, 26. janúar 1990 og fullgilti 28. október 1992. Barnasáttmálinn var svo lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013 með lögum nr. 19/2013.
    Samkvæmt barnasáttmálanum bera aðildarríki ábyrgð á innleiðingarferlinu og þeim skyldum sem á þeim hvíla. Það felur meðal annars í sér að ná fram sýnilegum og raunveruleg-um ávinningi fyrir börn og skapa menningar- og félagslegt umhverfi þar sem réttindi barna eru virt og þau geta notið þeirra.
    Nauðsynlegt er að huga markvisst að öllum þáttum innleiðingar barnasáttmálans með hliðsjón af almennum athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægt er að forsendur sáttmálans séu rauður þráður í starfsemi hins opinbera og endurspeglist í viðhorfum og ákvörðunum þeirra sem vinna með og fyrir börn á einn eða annan hátt. Jafnframt þarf að tryggja að góð þekking á réttindum barna sé útbreidd í samfélaginu öllu og að til staðar séu verklagsreglur og ferli innan stjórnsýslunnar sem aðgerðabindi réttindi barna og stuðli að því að sáttmálinn sé hluti af stefnumótun, lagasetningu og öllum ákvörðunum stjórnvalda sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Sjónarmið og hagsmunir barna séu þannig leiðarstef í allri vinnu stjórnvalda við að uppfylla markmið Barnasáttmálans.
    Hinn 7. september 2018 rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að afnema hindranir milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Þar lýstu framangreindir aðilar yfir vilja til að auka samstarf milli málefnasviða sem undir þá heyra og varða réttindi og farsæld barna. Í kjölfarið tók til starfa þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna, þar sem sæti eiga fulltrúar allra flokka á Alþingi og stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna, sem samanstendur af fulltrúum þeirra ráðuneyta sem undirrituðu viljayfirlýsinguna auk fulltrúa forsætisráðherra og áheyrnarfulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Umfangsmikil vinna fór af stað í kjölfarið innan Stjórnarráðsins með það að markmiði að tryggja snemmtækan stuðning, aukna samþættingu í þjónustu og samstarf við stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um réttindi og farsæld barna.
    Hinn 28. febrúar 2019 samþykkti ríkisstjórn tillögu félags- og barnamálaráðherra þess efnis að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu um að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá réttindum barna. Með samþykktinni var stigið mikið framfaraskref og liggur nú fyrir skýr vilji ríkisstjórnarinnar um að innleiða réttindi barna markvisst. Áætlun þessi var unnin á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í víðtæku samráði stýrihóps Stjórnarráðsins um málefni barna, embætti umboðsmanns barna og annarra hagsmunaaðila. Drög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda sumarið 2020 (mál nr. S-109/2020) og embætti umboðsmanns barna var falin umsjón með framkvæmd samráðs við börn og tóku 785 börn víðsvegar af landinu þátt í samráði um drög að Barnvænu Íslandi.
    Með hliðsjón af athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu barnasáttmála til íslenskra stjórnvalda, almennum athugasemdum nefndarinnar um innleiðingu sáttmálans og víðtæku samráði eru eftirfarandi tillögur lagðar fram. Tillögurnar varða alla aðila er fara með stefnumótun, framkvæmdaaðila þjónustu og þá sem taka ákvarðanir sem varða börn, hvort sem er innan ráðuneyta, stofnana eða sveitarfélaga. Lagt er til að stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna verði lögfestur í samræmi við frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (þingskjal 440–354. mál á 151. löggjafarþingi)og honum verði falið veigamikið hlutverk við að tryggja samræmda innleiðingu með markvissum hætti. Skýrsla unnin fyrir stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna um innleiðingu barnasáttmálans er fylgiskjal með stjórnartillögu þessari.

II. Nánar um tillögur
1. Þátttaka barna.
1.1. Framtíðarsýn:
    Börn taka virkan þátt í ákvarðanatöku og stjórnvöld eiga markvisst og reglulegt samráð við börn. Samráð fellur að þörfum barna og jafnræði er í samskiptum stjórnvalda við ólíka hópa barna.
1.2. Nánar:
    Samkvæmt barnasáttmálanum ber stjórnvöldum að hlusta eftir skoðunum barna og taka réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða.
    Þegar teknar eru ákvarðanir um málefni barna er þátttaka þeirra lykilþáttur í því að uppfylla skilyrði barnasáttmálans. Það er því mikilvægt að við allar ákvarðanir sem varða börn sé tryggt að þau fái að tjá sig með merkingarbærum hætti á eigin forsendum, hvort sem mál varða einstaka barn eða börn sem hóp.
    Þátttaka barna í stefnumótun og ákvarðanatöku styrkir lýðræðið og tryggir að litið sé til fjölbreyttari sjónarhorna við ákvarðanatöku. Með þátttöku í samfélagsumræðu læra börn að sýna frumkvæði og leita lausna, gera sér grein fyrir því að þau geti haft áhrif sem hvetur þau til frekari þátttöku. Börn sjá oft tækifæri til úrbóta og framfara í þeirra eigin nærumhverfi og þannig getur þátttaka barns orðið hlekkur í langri keðju þróunar og framfara í samfélaginu.
    Tækifæri barna til að hafa áhrif eru oft bundin við ólík ráð og hópa, svo sem ungmennaráð og nemendafélög. Engu að síður ber að nefna að barnasáttmálinn tryggir öllum börnum jafnan rétt til þátttöku. Frá sjónarhorni réttinda allra barna þarf að veita ólíkum aldurshópum athygli og leitast þarf við að hlusta á raddir ólíkra hópa. Tryggja þarf að raddir þeirra barna sem eiga á hættu að verða fyrir hvers kyns mismunun heyrist til jafns við raddir annarra barna og leitað sé leiða til að skoðun þeirra sé ljós við ákvarðanir er að þeim snúa.
    Mikilvægt er að börnum standi til boða ólíkar leiðir til þátttöku. Hvort sem er í gegnum formlegan vettvang, gegnum skóla- og frístundastarf eða á eigin forsendum. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi og styðji við fjölbreyttar leiðir fyrir börn til að hafa áhrif. Það er á ábyrgð stjórnvalda að skapa aðstæður fyrir markvisst samtal við börn, samtal sem er merkingarbært, öruggt, gagnkvæmt og á forsendum þeirra.
    Börn taka nú þegar virkan þátt með fjölbreyttum hætti. Innan menntakerfisins fer þátttaka fram á hverjum degi og fjöldi ungmennaráða starfa um allt land. Sem dæmi má nefna lögbundin nemendafélög í grunn- og framhaldsskólum, ungmennaráð sveitarfélaga, ungmennaráð Samfés, ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, ráðgjafahóp umboðsmanns barna, ungmennaráð um sértæk málefni og hjá félaga- og nemendasamtökum. Hingað til hafa ráðuneyti og opinberar stofnanir átt samráð við flest þessara ungmennaráða, að einhverju marki. Hins vegar hefur ákveðins misræmis gætt í því hvort, hvenær og til hverra er leitað. Setja þarf fram skýra og markvissa verkferla fyrir samráð stjórnvalda við börn sem tekur mið af eðli og efni ákvarðana sem leita þarf samráðs um.
    Mikilvægt er að komið verði á þátttökuvettvangi þar sem öll börn geta tekið þátt í virku samráði við stjórnvöld. Hvort sem er á einstaklingsbundnum forsendum eða í gegnum skipulagða hópa. Opinberir aðilar leiti markvisst eftir samráði við þátttökuvettvanginn við frumvarpasmíð, stefnumótun er varðar málefni barna og vinnslu hagsmunamats út frá réttindum barna. Jafnframt verði hvatt til þess að opinberir aðilar leiti annarra leiða til samráðs við börn, eftir eðli máls hverju sinni, t.d. yngri börn eða einstaka hópa barna sem málefnið snertir sérstaklega.

2. Fræðsla um þátttöku og réttindi barna.
2.1. Framtíðarsýn:
    Þekking á réttindum barna og skyldum stjórnvalda samkvæmt barnasáttmálanum er útbreidd í samfélaginu.
2.2. Nánar:
    Barnasáttmálinn kveður á um að stjórnvöld tryggi fræðslu til barna og fullorðinna um efni sáttmálans. Sérstaklega þarf að líta til þeirra stofnana og starfsstétta sem koma að málefnum barna, en einnig að tryggja að aðrar stofnanir þekki skyldur sínar og geti greint ákvarðanir út frá hagsmunum barna, ásamt því að börn þekki réttindi sín.
    Tryggja þarf markvissa fræðslu til barna svo þau þekki barnasáttmálann og séu fær um að setja réttindin í samhengi við aðstæður í umhverfi sínu. Embætti umboðsmanns barna, skólar, æskulýðs- og íþróttastarf, félagasamtök og fleiri aðilar gegna hér lykilhlutverki. Jafnframt þarf að tryggja markvissa fræðslu með það í huga að efla þekkingu almennings, opinberra starfsmanna og fagstétta á hagnýtu gildi barnasáttmálans og þeim skyldum sem sáttmálanum fylgja. Mikilvægt er að nýta og byggja á því fræðsluefni sem þegar er til, ásamt því að stuðla að framþróun fræðslu í ríkri samvinnu við börn. Jafnframt er mikilvægt að gefnar séu út handbækur, fræðsluefni og námskeið fyrir ólíkar fagstéttir sem koma að málefnum barna, t.d. lögreglu, heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk dómstóla, lögmenn, félagsráðgjafa, starfsmenn á vettvangi skóla og frítíma, kjörna fulltrúa og starfsfólk ríkis og sveitarfélaga.

3. Barnvæn stjórnsýsla.
3.1. Framtíðarsýn:
    Aðgengi barna að stjórnvöldum er tryggt og upplýsingar settar fram á barnvænan hátt. Börn geta leitað stuðnings og ráðgjafar hjá umboðsmanni barna við að leita réttar síns.
3.2. Nánar:
    Tryggja þarf að umhverfi, viðhorf, stjórnsýsla og þjónusta sé barnvæn og taki mið af þörfum og hagsmunum barna. Mikilvægt er að auðvelda aðgengi barna að ólíkum stofnunum og að þjónusta og umhverfi sem ætlað er börnum sé barnvænt. Skýra þarf aðild og aðkomu barna að málum sem þeim tengjast svo þau geti leitað sjálf til stjórnvalda og fengið leiðbeiningar og ráðgjöf, án aðkomu foreldra ef þörf er á.
    Stjórnvöld þurfa að tryggja að til staðar sé aðili sem börn geta leitað til telji þau á réttindum sínum brotið. Sá aðili vinnur fyrir hönd barna og býður þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð í málum sínum. Efla þarf hlutverk embættis umboðsmanns barna í því að taka á móti og vinna úr kvörtunum barna, jafnframt verði hlutverk annarra mikilvægra aðila í þessu sambandi skýrt, eins og skóla, fræðslu- og félagsmálayfirvalda, dómstóla, Umboðsmann Alþingis og kærunefnda.
    Mikilvægt er að auðvelda börnum að segja frá aðstæðum sínum og fá stuðning til að koma í veg fyrir að brotið sé gegn réttindum þeirra. Huga þarf að því að stuðningsúrræði séu vel kynnt börnum og tryggt að þau geti með auðveldum hætti átt samskipti við viðkomandi aðila á eigin forsendum.

4. Hagsmunamat út frá réttindum barna.
4.1. Framtíðarsýn:
    Hagsmunamat er hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana um réttindi einstakra barna.
4.2. Nánar:
    Framkvæmd matsins er hluti af þeim kröfum sem barnasáttmálinn gerir til aðildarríkja skv. 3. gr. sáttmálans. Umrædd grein leggur þá kröfu á opinbera aðila að það sem sé barninu fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stofnanir á vegum hins opinbera og einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafinn gera ráðstafanir sem varða börn. Hagsmunamatið tryggir þannig að markvisst sé lagt mat á hagsmuni barns/barna þegar ákvarðanir eru teknar. Tryggja þarf leiðbeiningar um framkvæmd matsins og þjálfun og stuðning við starfsmenn.
    Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint með hvaða formerkjum hagsmunamatið eigi að fara fram, en það tilgreinir meðal annars að alltaf skuli eiga samráð við börn við gerð slíks mats. Þannig er þátttaka barna markvisst tryggð í stefnumótun og ákvarðanatöku í málum sem varða þau. barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríki að réttindi sáttmálans séu tryggð fyrir öll börn innan lögsögu þeirra. Við framkvæmd slíks mats er lögð sérstök áhersla á viðkvæma hópa barna.
    Nauðsynlegt er að aðstoða opinberar stofnanir og kjörna fulltrúa við framkvæmd slíks mats á frumstigum frumvarpsgerðar, útbúa leiðbeiningar og fræðsluefni og standa fyrir námskeiðum til að efla opinbera starfsmenn og kjörna fulltrúa í að vinna slíkt mat. Lagafrumvörp og stefnumótun opinberra aðila hefur að mismiklu leyti tengingu eða áhrif á börn og hefur það áhrif á hvort og hversu ítarlegt hagsmunamatið væri hverju sinni.

5. Heildstæð stefna í málefnum barna.
5.1. Framtíðarsýn:
    Íslensk stjórnvöld vinna eftir heildstæðri stefnu í málefnum barna á Íslandi sem tekur mið af barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
5.2. Nánar:
    Til að efla og tryggja réttindi barna þurfa stjórnvöld og stjórnsýslustig að starfa eftir samræmdri og víðtækri stefnu fyrir landið í heild. Slík stefna þarf að vera byggð á barnasáttmálanum, taka tillit til allra barna án mismununar og vera unnin í víðtæku samráði við börn og þá sem vinna að málefnum barna. barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríki að réttindi sáttmálans séu tryggð fyrir öll börn innan lögsögu þeirra. Því þarf að taka sérstaklega tillit til viðkvæmra hópa barna.
    Slík stefna þarf að vera lögð fram af ráðherrum og studd af stjórnvöldum. Hún þarf að vera samræmd við aðra opinbera stefnumótun eins og menntastefnu, íþrótta- og æskulýðsstefnu, heilbrigðisstefnu og fjármálaáætlun svo hún sé hluti af heildarnálgun við stefnumótandi ákvarðanir stjórnvalda. Mikilvægt er að slík stefna feli í sér vitundarvakningu um réttindi barna þvert á öll stjórnsýslustig og alla opinbera þjónustu. Til viðbótar við almenna stefnumótun og meginreglur þarf stefnan að fela í sér raunhæf og mælanleg markmið út frá efnahagslegum, félagslegum, menningarlegum, borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum allra barna.
    Mikilvægt er að endurskoðun og endurmat á innleiðingu stefnunnar eigi sér jafnframt stað á opnum og lýðræðislegum vettvangi, með verklagi sem tryggir samráð og þátttöku þeirra sem eiga hagsmuna að gæta, sérstaklega börn.

6. Lagabreytingar og alþjóðlegar skuldbindingar um réttindi barna.
6.1. Framtíðarsýn:
    Íslensk löggjöf er í samræmi við barnasáttmálann og íslensk stjórnvöld hafa uppfyllt frekari alþjóðlegar skuldbindingar er varða réttindi barna.
6.2. Nánar:
    Til að tryggja markvissa innleiðingu barnasáttmálans þarf að fara fram endurskoðun á íslenskum lögum til að tryggja aukið samræmi þeirra við barnasáttmálann. Verður þar horft sérstaklega til þess að tryggja að grundvallarforsendur sáttmálans endurspeglist í allri löggjöf er varðar börn, einnig að samráð og þátttaka barna sé tryggð í verkefnum stofnana og ráðuneyta og að fram fari mat á hagsmunum barna þar sem við á.
    Fyrir liggur að gera verði breytingar á ýmsum lögum og reglum til að áætlun þessi gangi eftir. Meðal annars þarf að lögfesta ungmennaráð sveitarfélaga með breytingum á æskulýðslögum, nr. 70/2007, og skýra hlutverk þeirra, ábyrgð og umboð. Jafnframt er mikilvægt að útfæra í lögum gerð hagsmunamats út frá réttindum barna við vinnslu frumvarpa og stærri ákvarðana á vegum opinberra aðila í samræmi við 3. gr. barnasáttmálans.
    Samhliða endurskoðuninni verði hugað að því að fullgilda Haag-samninginn frá 1996 um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samstarf varðandi foreldraábyrgð og ráðstafanir til verndar barna, oftast nefndur Haag-samningurinn um barnavernd. Sem og þriðju valkvæðu bókunina við barnasáttmálann sem fjallar um sjálfstæða kvörtunarleið fyrir börn og fulltrúa þeirra til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna í samræmi við ráðleggingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda.

7. Samræmd innleiðing á réttindum barna.
7.1. Framtíðarsýn:
    Innleiðing réttinda barna er samræmd þvert á ráðuneyti, stofnanir og stjórnsýslustig.
7.2. Nánar:
    Við lögfestingu barnasáttmálans var mörkuð sú stefna að allar ákvarðanir opinberra aðila byggist á þeim réttindum sem sáttmálinn kveður á um. Markviss innleiðing barnasáttmálans innan stjórnsýslunnar kallar á að til sé vettvangur sem hafi það hlutverk að samræma og leiða vinnu við innleiðingu barnasáttmálans og þátttöku barna, þvert á ráðuneyti og opinberar stofnanir og stjórnsýslustig.
    Stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna verði falið það hlutverk að samræma innleiðingu barnasáttmálans þvert á ráðuneyti í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi og fylgja eftir innleiðingu sáttmálans. Aðstoða opinbera aðila við gerð hagsmunamats út frá réttindum barna, vinna með opinberum aðilum að því að tryggja virka, marktæka og ábyrga þátttöku barna. Hlutverk samræmingaraðila er lagt til með hliðsjón af athugasemd barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til Íslands árið 2011, en þar lagði nefndin til að stofnað yrði varanlegt „kerfi“ sem hefði það hlutverk að samræma innleiðingu réttinda barna þvert á allar stofnanir og stjórnsýslustig.

8. Markviss öflun gagna um velferð og réttindi barna á Íslandi.
8.1. Framtíðarsýn:
    Mælaborð sem veitir víðtækt yfirlit yfir stöðu barna og líðan, sem og réttindi þeirra í íslensku samfélagi er aðgengilegt öllum. Mælaborðið hefur markviss áhrif á stefnumótun og forgangsröðun verkefna og fjármuna.
8.2. Nánar:
    Forsenda þess að tryggja aukið jafnræði og markvissar aðgerðir í þágu barna, ekki síst hópa er standa höllum fæti, er víðtækt gagnasafn yfir velferð og réttindi barna hverju sinni. Stjórnvöld þurfa að ljúka yfirstandandi vinnu við mælaborð á landsvísu sem tryggi aðgengi að helstu farsældarvísum og þær upplýsingar verði hafðar til hliðsjónar við forgangsröðun/fjármögnun verkefna og stefnumótun stjórnvalda.
    Vinna þarf að því að efla rannsóknir á líðan og högum barna og ungmenna til að forgangsröðun og stefnumótun stjórnvalda verði studd raunprófaðri þekkingu með markvissum hætti.

9. Greining útgjalda hins opinbera til að tryggja réttindi barna.
9.1. Framtíðarsýn:
    Opinber fjármál greind út frá réttindum og velferð barna, með sérstakri áherslu á úthlutun fjármagns til þjónustu og verkefna fyrir viðkvæma hópa barna.
9.2. Nánar:
    Opinber fjármál fela í sér ákvörðun um forgangsröðun stjórnvalda en skv. 2., 3., og 4. gr. barnasáttmálans ber aðildarríkjum að tryggja forgangsröðun í þágu barna og nauðsynlega fjármögnun eftir fremsta megni. Með greiningu fjárlaga með tilliti til réttinda barna er hugað að því hvaða áhrif ákvarðanir um fjármögnun hafa. Það er gert með því að greina úthlutun fjármagns til þjónustu og verkefna er snúa að börnum. Byggist slík greining meðal annars á tölfræðigögnum og upplýsingum um stöðu viðkvæmra hópa barna.
    Samanburður af þessu tagi er mikilvægt stjórntæki við ákvarðanir er varða réttindi barna. Þetta á enn fremur við um tilfærslukerfi innan hins opinbera og málaflokka sem varða réttindi barna sérstaklega.

10. Áhersla á réttindi barna í alþjóðlegu samstarfi.
10.1 Framtíðarsýn:
    Stjórnvöld leggja áherslu á réttindi barna í samstarfsverkefnum á alþjóðlegum vettvangi með markvissum hætti.
10.2. Nánar:
    Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og alþjóðlegs samstarfs. Þvert á ráðuneyti er unnið að alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem stuðla að vernd og eflingu mannréttinda meðal annars í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið og Norðurlandaráð. Hefur þessi vinna skapað Íslandi sterka stöðu á alþjóðlegum vettvangi með tilliti til mannréttinda, ekki síst hvað varðar jafnrétti og málefni hinsegin fólks.
    Í alþjóðlegu samhengi er einnig algengt að litið sé til Íslands sem þátttakanda í framvarðasveit réttinda og farsældar barna. Sú staða hefur styrkst síðustu ár með stóraukinni áherslu á málefni barna hér á landi, stöðu Íslands á alþjóðlegum mælikvörðum á borð við „KidsRights Index“, fulltrúa Íslands í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og fjölda alþjóðlegra viðurkenninga á starfsemi Barnahúss.
    Með hliðsjón af áætlun þessari, ríkum áherslum stjórnvalda á velferð og réttindi barna, utanríkisstefnu Íslands og ábendinga barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna er mikilvægt að stigin séu skref í þá átt að forgangsraða réttindum og velferð barna í alþjóðlegu samstarfi enn frekar. Á grundvelli þeirra fjölda þróunarverkefna sem stjórnvöld standa fyrir á því sviði hefur Ísland ríka burði til að taka sér enn öflugra hlutverk hvað varðar mannréttindi og velferð barna í alþjóðasamfélaginu, í virku samtali og samstarfi við börn.

11. Eftirfylgni og endurmat.
11.1. Framtíðarsýn:
    Regluleg eftirfylgni og endurmat á stöðu innleiðingar barnasáttmálans.
11.2. Nánar:
    Við innleiðingu barnasáttmálans verður til ný þekking sem nýta þarf við endurskoðun aðgerða og innleiðingar í heild. Mikilvægt er að nýta þá reynslu sem verður til við að yfirstíga hindranir og tryggja samráð og samstarf um lausnir sem reynst hafa vel.
    Mikilvægt er að reglulega fari fram mat á árangri og grípa til aðgerða ef á þarf að halda. Margvíslegar breytingar geta orðið á innra og ytra umhverfi, vandamál komið upp, framvinda orðið önnur en stefnt var að og fjárveitingar breyst. Gera þarf reglulega grein fyrir framgangi innleiðingar og tryggja að stöðumat sé aðgengilegt, gagnsætt og opinbert. Verður það meðal annars gert með árlegri skýrslu ráðherra um innleiðinguna og könnun hjá stjórnvöldum og börnum.


Fylgiskjal.


Barnvænt Ísland – Framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1308-f_I.pdf