Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1318  —  630. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um aðgengi að Nyxoid-nefúða eða sambærilegu lyfi.


     1.      Með hvaða hætti getur fólk í hættu á ofskömmtun ópíóða nálgast Nyxoid-nefúða eða sambærilegt lyf og fengið lyfið niðurgreitt?
    Nyxoid-nefúði fæst gegn lyfjaávísun læknis sem einnig getur sótt um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku hjá sjúkratryggingum eftir þeim verklagsreglum sem um það gilda.

     2.      Hversu margir einstaklingar hafa nýtt sér þá leið að fá niðurgreiðslu á fyrrgreindu lyfi vegna þess að þeir hafa verið í hættu vegna ofskömmtunar ópíóða?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur ekki enn verið sótt um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku fyrir umrætt lyf.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að gera breytingar á fyrirkomulagi aðgengis að fyrrgreindu lyfi ef núverandi fyrirkomulag gagnast ekki hópnum sem þarf mest á lyfinu að halda?
    Ráðherra telur vel koma til greina að kanna hvernig best megi ná til þess hóps sem þarf mest á lyfinu að halda. Greina þyrfti hversu stór sá hópur er, hvar er snertiflötur við hópinn í samfélaginu og í framhaldinu hvernig best væri að mæta þörfinni fyrir lyfið þessum hópi til handa. Þá er ljóst að til að lyfið gagnist sem best þarf lágmarksþjálfun í því hvernig brugðist skuli við í þeim aðstæðum þar sem lyfið kemur að notum.

     4.      Stendur til að heimila sölu lyfsins í lausasölu til að auðvelda aðgengi að því eins og gert hefur verið víða erlendis?
    Ef lyfið yrði leyft í lausasölu yrði það ekki niðurgreitt og því hætta á því að kostnaður yrði aðgengishindrun fyrir þann hóp sem þarf mest á lyfinu að halda. Fyrsti kostur er að skoða hvernig betur megi ná til þess hóps sem þarf mest á lyfinu að halda, sbr. svar við þriðja lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Kæmi til greina að greiða leið fólks að heilbrigðisþjónustu með því að ekki yrði leyfilegt að sækja til saka fólk sem leitar bráðaaðstoðar vegna ofskömmtunar lyfja, þó að það sé í aðstæðum sem annars teldust saknæmar? Ef ekki, hvers vegna?

    Í lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, er ekki kveðið á um það að neysla lyfseðilsskyldra lyfja sé saknæm í sjálfu sér. Þá liggur nú fyrir Alþingi frumvarp (þskj. 1193, 714. mál) þar sem heilbrigðisráðherra leggur til í 3. gr. að bætt verði við 5. gr. laganna ákvæði þess efnis að ekki skuli gera upptæk efni sem eru í vörslu einstaklinga 18 ára og eldri. Miðað er við að magnið sé innan þeirra marka sem talist getur til eigin nota samkvæmt því sem kveðið verður á um í reglugerð sem ráðherra mun setja, sbr. 5. mgr. 2. gr. Tilgangurinn með þeirri breytingu er að bregðast við þeim aðstæðum sem upp hafa komið þegar einstaklingar með vímuefnavanda hafa veigrað sér við að hringja eftir bráðaaðstoð eða leita sér aðstoðar af ótta við að lögregla fjarlægi neysluskammta þeirra og/eða vera handteknir vegna annars ólögmæts athæfis. Það getur átt við jafnvel þó að um bráðatilfelli sé að ræða eins og ofskömmtun á vímuefnum, heimilisofbeldi eða annars konar ofbeldi.