Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1332  —  673. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ráðningar aðstoðarmanna dómara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu oft hefur verið ráðið í störf aðstoðarmanna dómara í héraði, Landsrétti og Hæstarétti frá því að lög um dómstóla, nr. 50/2016, tóku gildi? Svar óskast sundurliðað eftir dómstól, ári og því hvort stöður hafa verið auglýstar opinberlega.

    Til að svara fyrirspurninni leitaði ráðuneytið til dómstólasýslunnar sem hafði milligöngu um að afla upplýsinga frá hverjum dómstóli fyrir sig.

Hæstiréttur Íslands.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hafa þrír einstaklingar verið ráðnir sem aðstoðarmenn dómara við Hæstarétt Íslands, einn árið 2019 og tveir árið 2020. Allir umræddir einstaklingar voru ráðnir tímabundið til að byrja með og voru störfin ekki auglýst.

Landsréttur.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hafa 14 einstaklingar verið ráðnir sem aðstoðarmenn dómara við Landsrétt. Átta þeirra voru ráðnir að undangenginni auglýsingu við stofnun Landsréttar í ársbyrjun 2018 og sex þeirra voru ráðnir tímabundið án auglýsingar á tímabilinu maí 2019 til janúar 2021.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hafa samtals níu aðstoðarmenn verið ráðnir við Héraðsdóm Reykjavíkur, allir að undagenginni auglýsingu.

Héraðsdómur Vesturlands.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hefur enginn aðstoðarmaður verið ráðinn við Héraðsdóm Vesturlands. Við dómstólinn starfar einn aðstoðarmaður sem var ráðinn til starfa í gildistíð eldri laga.

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hafa tveir aðstoðarmenn verið ráðnir við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Annar þeirra var ráðinn að undangenginni auglýsingu en hinn tímabundið án auglýsingar. Sú staða verður auglýst í október 2021.

Héraðsdómur Suðurlands.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hefur enginn aðstoðarmaður verið ráðinn við Héraðsdóm Suðurlands. Við dómstólinn starfar einn aðstoðarmaður sem var ráðinn til starfa í gildistíð eldri laga.
Héraðsdómur Reykjaness.
    Frá gildistöku laga um dómstóla, nr. 50/2016, hefur einn aðstoðarmaður verið ráðinn við Héraðsdóm Reykjaness að undangenginni auglýsingu. Í þremur tilvikum hefur verið ráðið tímabundið í stöðu aðstoðarmanns við dómstólinn vegna fæðingarorlofa annarra aðstoðarmanna, þar af einu sinni að undangenginni auglýsingu.

    Engir aðstoðarmenn starfa við Héraðsdóm Austurlands, Héraðsdóm Norðurlands vestra og Héraðsdóm Vestfjarða.