Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1359  —  776. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 (endurnýjun).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Gildistími ferðagjafar fyrir sumarið 2021 er frá 1. júní til og með 31. ágúst.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 260 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum og lögum um viðspyrnustyrki, sem og lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki.
    Sé um að ræða fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019, annað en lítið fyrirtæki sem ekki hefur hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, getur það að hámarki tekið við samanlagt 30 millj. kr. til tengdra rekstraraðila í formi ferðagjafa. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ferðagjöf sem ekki hefur verið nýtt fyrir 1. júní 2021 fellur niður.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020, sem felur í sér endurnýjun á ferðagjöf stjórnvalda ásamt breytingu á heildarfjárhæð þess stuðnings sem fyrirtæki skv. 3. gr. laganna er heimilt að taka við.
    Frumvarp til laga um ferðagjöf var lagt fram á 150. löggjafarþingi (þingskjal 1476, 839. mál). Lögin tóku gildi 23. júní 2020. Tildrög laganna mátti rekja til efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru (SARS-CoV-2) 2020 og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að efla efnahagskerfið og draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar faraldursins. Í lögunum er meðal annars kveðið á um heimild stjórnvalda til útgáfu ferðagjafar að fjárhæð 5.000 kr. sem einstaklingar með íslenska kennitölu og skráð lögheimili á Íslandi, fæddir á árinu 2002 eða fyrr, geta greitt með hjá rekstraraðilum sem eru skilgreindir í 2. mgr. 1. gr. laganna.
    Þá var frumvarp til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020, lagt fram á 151. löggjafarþingi (þingskjal 469, 377. mál) sem fól í sér framlengingu á gildistíma ferðagjafar um fimm mánuði eða til og með 31. maí 2021. Breytingalögin tóku gildi 31. desember 2020.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með útbreiðslu kórónuveiru á heimsvísu hefur skapast alvarlegt lýðheilsulegt neyðarástand. Þá hafa áhrifin af útbreiðslunni miðlast út í hagkerfi ríkja eftir mismunandi farvegum. Flest ríki Evrópu og Norður-Ameríku hafa til að mynda gripið til hamlandi aðgerða, svo sem víðtækra ferðatakmarkana, í þeim tilgangi að reyna tryggja að áfallið vegna útbreiðslunnar vari sem styst og verði eins umfangslítið og hugsast getur. Þessar aðgerðir hafa gríðarleg áhrif á bæði framboð og eftirspurn, á fyrirtæki og starfsfólk, sér í lagi innan ferðaþjónustu, samgangna og verslunar.
    Viðbrögð til þess að hefta útbreiðslu faraldursins eiga sér ekki samsvörun og efnahagslegar afleiðingar eru taldar verða meiri en sést hafa í áratugi. Þannig horfa mörg fyrirtæki fram á samdrátt í eftirspurn vegna viðbragða almennings en önnur standa frammi fyrir tvíþættu áfalli þar sem aðgerðir stjórnvalda skerða einnig möguleika þeirra á að halda starfsemi sinni gangandi. Meginstef þeirra aðgerða sem um ræðir eru þær takmarkanir sem gripið hefur verið til í því skyni að draga úr samneyti milli fólks innanlands og fækka smitleiðum. Ásamt því hafa takmarkanir á landamærum verið hertar til þess að draga úr útbreiðslu smita.
    Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa ráðstafana til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldursins og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Með lögum um ferðagjöf var markmiðið að bregðast tímabundið við þeim neikvæðu áhrifum sem útbreiðsla kórónuveiru hefur haft í för með sér. Gildandi lög um ferðagjöf veita stjórnvöldum heimild til útgáfu ferðagjafar til einstaklinga sem eru skilgreindir í 1. mgr. 1. gr. laganna til notkunar hjá aðilum sem eru skilgreindir í 2. mgr. 1. gr. laganna. Ætlaðir fjármunir til ferðagjafar samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020, eru samtals 1,5 milljarðar kr.
    Frá gildistöku laganna í júní 2020 til 10. apríl 2021 hafa um 199 þúsund einstaklingar sótt ferðagjöfina af þeim um 280 þúsund sem fengið hafa hana útgefna. Það nemur samtals um 994 millj. kr. Af þeim hafa um 139 þúsund einstaklingar þegar nýtt sér ferðagjöfina, sem nemur um 787 millj. kr. Enn eru því um 700 millj. kr. til ráðstöfunar. Fjöldi fyrirtækja sem hafa tekið þátt í verkefninu er 812.
    Þegar horft er til svæðisbundinnar skiptingar fjármagns liggur fyrir að 293 millj. kr. hafa verið nýttar hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa um 119 millj. kr. verið nýttar hjá fyrirtækjum á Suðurlandi, 83 millj. kr. á Norðurlandi eystra, 48 millj. kr. á Vesturlandi, 35 millj. kr. á Suðurnesjum, 28 millj. kr. á Austurlandi, 15 millj. kr. á Norðurlandi vestra, 15 millj. kr. á Vestfjörðum, og loks 151 millj. kr. hjá fyrirtækjum sem starfa á landsvísu.
    Sem fyrr segir eru enn um 700 millj. kr. til ráðstöfunar þann 10. apríl 2021. Það má vafalaust rekja til þess að á gildistímanum hafa sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda verið hertar, meðal annars með samkomutakmörkunum og lokunum hjá hluta fyrirtækja sem geta tekið á móti ferðagjöf. Þá hafa stjórnvöld hvatt einstaklinga til að ferðast ekki að óþörfu. Af því leiðir að tækifæri til að nýta ferðagjöf hafa verið færri en upphaflega var gert ráð fyrir. Það hefur haft í för með sér að áætlaðir fjármunir til ferðagjafar hafa til þessa ekki verið fullnýttir.
    Nú þegar gildistími ferðagjafar er að líða undir lok er ljóst að enn eru í gildi sóttvarnaaðgerðir til að hamla útbreiðslu kórónuveiru sem valda fyrirtækjum af öllum stærðum erfiðleikum þvert yfir hagkerfið með tilheyrandi skaðlegum áhrifum. Með endurnýjun ferðagjafar eru einstaklingar hvattir til að ferðast innanlands sumarið 2021 en gildistími endurnýjaðrar ferðagjafar er fyrirhugaður frá 1. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Með þessu er ferðaþjónustufyrirtækjum hérlendis veitt enn frekari viðspyrna yfir sumarið 2021.
    Við lok gildistíma ferðagjafar, 31. maí 2021, munu ónýttar ferðagjafir falla niður. Áætlað er að um 30–50 millj. kr. verði nýttar það sem eftir er af gildistíma ferðagjafar til 31. maí 2021. Þá verða áætlaðir fjármunir til ráðstöfunar um 650 millj. kr., ásamt 750 millj. kr. viðbótarfjármagni sem áætlað er að leggja í endurnýjaða ferðagjöf sumarið 2021. Sá útreikningur byggir á upplýsingum frá Ferðamálastofu en samkvæmt stofnuninni var greitt með ferðagjöf að fjárhæð 48 millj. kr. á tímabilinu 1. janúar 2021–31. mars 2021.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er lögð til endurnýjun á ferðagjöf stjórnvalda með gildistíma frá 1. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Í öðru lagi er lögð til breyting, í samræmi við orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 28. janúar 2021, þess efnis að heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila geti að hámarki numið 260 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum og lögum um viðspyrnustyrki, sem og lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki. Sé um að ræða fyrirtæki sem töldust í erfiðleikum 31. desember 2019, önnur en lítil fyrirtæki sem ekki hafa hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, getur fyrirtæki að hámarki tekið við samanlagt 30 millj. kr. til tengdra rekstraraðila í formi ferðagjafa. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.
    Verði frumvarpið að lögum gefst færi á að styðja enn frekar við ferðaþjónustufyrirtæki hérlendis, að því gefnu að frekara svigrúm gefist til ferðalaga og mannamóta á næstu mánuðum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.
    Sú aðstoð sem lög um ferðagjöf heimila fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning samkvæmt kafla 3.1 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020.
    Með orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 13. október 2020 var tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs framlengdur til 30. júní 2021. Sá rammi hefur nú verið framlengdur til næstkomandi áramóta og þak stuðnings til hvers rekstraraðila hækkað í 1,8 milljónir evra sem er rúmlega 250 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð í aprílbyrjun 2021.
    Frumvarpið um endurnýjun ferðagjafar felur í sér þriggja mánaða framlengingu á ríkisaðstoðarkerfi sem þegar hefur verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. til og með 31. maí 2021, sbr. lög nr. 147/2020 um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020. Af því leiðir að endurnýjun ferðagjafar er einnig tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA og háð samþykki stofnunarinnar samkvæmt kafla 3.1 í orðsendingunni um aðstoð í formi beins fjárstuðnings, endurgreiðanlegrar fyrirgreiðslu eða skattaívilnana. Óformlegt samráð var haft við Eftirlitsstofnun EFTA við vinnslu frumvarpsins. Gerður er fyrirvari um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA hvað viðkemur lögmæti ríkisaðstoðarinnar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að samræmi við stjórnarskrá sé metið sérstaklega.

5. Samráð.
    Ef frá er talið óformlegt samráð við Eftirlitsstofnun EFTA var ákveðið með hliðsjón af aðstæðum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, stuttum fyrirvara og því að um ívilnandi aðgerð er að ræða að ekki færi fram hefðbundið samráð við almenning og hagsmunaaðila.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun ferðagjöf stjórnvalda vera endurnýjuð með gildistíma frá 1. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021 eða þremur mánuðum lengur en gildandi lög gera ráð fyrir.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 (þingskjal 1172, 695. mál), sbr. lög nr. 26/2020 sem samþykkt voru á Alþingi þann 30. mars 2020, var veitt heimild til að veita allt að 1,5 milljarða kr. til ferðagjafar. Þann 21. mars 2021 höfðu um 199 þúsund einstaklingar, af um 280 þúsund sem fengið höfðu ferðagjöfina útgefna, sótt ferðagjöfina fyrir um 994 millj. kr. Af þeim hafa um 137 þúsund einstaklingar þegar nýtt sér ferðagjöfina fyrir um 787 millj. kr. í apríl 2021.
    Sem fyrr segir var greitt með ferðagjöf að fjárhæð 48 millj. kr. á tímabilinu 1. janúar 2021–31. mars 2021. Því er áætlað að um 30–50 millj. kr. verði nýttar það sem eftir er af gildistíma ferðagjafar og má því áætla að 650 millj. kr. verði til ráðstöfunar þegar gildistími ferðagjafar rennur út þann 31. maí 2021. Til viðbótar þeim 650 millj. kr. er lagt upp með að veita 750 millj. kr. til viðbótar vegna endurnýjunar ferðagjafar en áætlað er að samanlagður kostnaður vegna endurnýjunar nemi um 1,4 milljarði kr. verði endurnýjaðar ferðagjafir nýttar til fulls. Sá útreikningur byggir á margfeldi fjárhæðar endurnýjaðrar ferðagjafar með fjölda einstaklinga sem eiga rétt á ferðagjöf, eða 5.000 kr. x 280.000 einstaklingar. Þessi útreikningur miðar við að endurnýjuð ferðagjöf verði nýtt til fulls. Sem fyrr segir eru 700 millj. kr. enn til ráðstöfunar frá tímabilinu júní 2020–10. apríl 2021. Með vísan til þess má telja hverfandi líkur á því að endurnýjuð ferðagjöf verði nýtt til fulls á þriggja mánaða gildistíma hennar. Allir innviðir eru til staðar og einungis er um að ræða framlengingu á gildandi samningum um framkvæmd hennar. Af því leiðir að framkvæmd endurnýjaðrar ferðagjafar mun hafa óverulegan kostnað í för með sér sem gert er ráð fyrir að rúmist innan áætlaðs 1,4 milljarða kr. ramma. Verði ferðagjöf fullnýtt verður kostnaði vegna framkvæmdar hennar forgangsraðað innan gildandi útgjaldaramma málefnasviðs 15 hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það hafa 1,4 milljarða kr. neikvæð áhrif fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 2021.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að einstaklingar geti á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2021 notað nýja ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði laganna og hafa starfsstöð á Íslandi. Í því felst jafnframt að ferðagjafir sem ekki hafa verið nýttar fyrir 1. júní 2021 falla sjálfkrafa niður eins og áréttað er í ákvæði til bráðabirgða.

Um 2. gr.

    Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur ekki numið hærri fjárhæð en 260 millj. kr. Stuðningur í tengslum við lög um ferðagjöf, tekjufallsstyrki og framhald lokunarstyrkja skal tekinn með í reikninginn að því leyti. Ef um er að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð stuðnings þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítið fyrirtæki, enda hafi það ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð. Ákvæðið er hliðstætt 2. efnismgr. 4. gr. laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, (framhald á lokunarstyrkjum), nr. 119/2020. Um skilgreiningu á hugtökunum tengdir rekstraraðilar, fyrirtæki í erfiðleikum, lítið fyrirtæki, björgunaraðstoð og endurskipulagningaraðstoð vísast til skýringa í 4. kafla greinargerðar með frumvarpi til þeirra laga.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er til áréttingar á því að ferðagjafir sem ekki hafa verið nýttar fyrir 1. júní 2021 falla sjálfkrafa niður.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.