Ferill 792. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1432  —  792. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að fela dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um fjárframlög frá nánar tilgreindum erlendum aðilum.


Flm.: Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem banni að nánar tilgreindir erlendir einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á vegum þeirra, geti veitt innlendum aðilum fjárframlög í þeim tilgangi að vinna gegn eða grafa undan lýðræði og mannréttindum. Samráð verði haft við utanríkisráðuneyti, Útlendingastofnun og Skattinn. Frumvarpið verði lagt fram á haustþingi 2021.

Greinargerð.

    Hinn 15. mars 2021 tóku gildi í Danmörku lög um varnir gagnvart erlendum öfgaöflum sem Danir telja grafa undan dönsku samfélagi. 1 Danskir þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum greiddu frumvarpi dönsku jafnaðarmannastjórnarinnar atkvæði sitt. Lögin leggja bann við því að taka við fé eða annars konar stuðningi frá erlendum aðilum sem taldir eru varasamir.
    Markmið hinna dönsku laga er að leggja bann við því að einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á vegum þeirra, vinni gegn eða grafi undan lýðræði og mannréttindum með því að veita innlendum aðilum fjárframlög.
    Danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytinu er falið að taka saman lista yfir einstaklinga og lögaðila, þar á meðal ríkisstjórnir, ríkisstofnanir og fyrirtæki, sem taldir eru vinna gegn dönskum grundvallargildum um lýðræði og mannréttindi. Ráðuneytið tekur ákvörðun um aðila sem fara á listann að fengnu áliti dönsku útlendingastofnunarinnar. Aðili skal því aðeins skráður á listann að talin séu ákveðin líkindi á að hann hafi áform um að veita framlög til eins eða fleiri aðila í Danmörku. Haft skal samráð við utanríkisráðuneytið og ef það telur að það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir utanríkisstefnu landsins að aðili sé færður á listann skal horfið frá því.
    Að beiðni útlendingayfirvalda geta toll- og skattyfirvöld að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veitt þeim upplýsingar um hvort nánar tilteknir aðilar hafi upplýst um gjafir frá einum eða fleiri aðilum sem samanlagt nemi 20.000 dönskum krónum, eða jafnvirði 400.000 íslenskra króna.
    Skráning einstaklings eða lögaðila á hinn opinbera bannlista er til fjögurra ára og má framlengja í fjögur ár í senn. Skráningu á listann skal birta í dönsku stjórnartíðindunum. Á bannlistanum má birta upplýsingar um nafn einstaklings, þjóðerni, búsetuland, fæðingardag og -stað og heimilisfang. Um lögaðila má birta nafn, einkennismerki (lógó), heimilisfang og stjórn.
    Leiti einstaklingur eða lögaðili sem skráður hefur verið á listann eftir endurskoðun á þeirri ákvörðun tekur útlendingastofnunin danska málið fyrir. Beiðni um endurupptöku frestar ekki réttaráhrifum. Komi fram nýjar upplýsingar sem hafi þýðingu fyrir endurupptöku leggur stofnunin málið fyrir ráðherra útlendinga- og aðlögunarmála.
    Aðilum sem taka við framlögum sem eitt eða samanlagt eru hærri en 10.000 danskar krónur á tólf mánaða tímabili, jafnvirði um 200.000 íslenskra króna, skal refsað með sekt. Slíkur aðili skal endurgreiða framlagið innan 14 daga frá þeim tíma sem honum varð ljóst eða mátti vera ljóst að framlagið hefði verið innt af hendi.
    Breið samstaða var um frumvarpið. Alls 79 þingmenn úr sjö flokkum greiddu því atkvæði, á móti voru níu og sjö sátu hjá.
    Danskir stjórnmálamenn töluðu enga tæpitungu þegar þeir fögnuðu samþykkt frumvarpsins. Á vefsíðu danska útlendinga- og aðlögunarráðuneytisins var í frétt 2 um málið 9. mars 2021 haft eftir jafnaðarmanninum Mattias Tesfaye, ráðherra málaflokksins, að erlendis fyrirfyndust öfgaöfl sem leituðust við að snúa múslimskum samborgurum gegn Danmörku og þar með kljúfa danskt samfélag. Hann sagði fjölmiðla ítrekað hafa flutt fréttir á liðnum árum um danskar moskur sem þegið hefðu háar fjárhæðir frá Mið-Austurlöndum. Þessu vildi ríkisstjórnin vinna gegn.
    Á vefsíðu ráðuneytisins kemur fram í frétt 3 frá 7. febrúar 2021 að málið megi rekja til samkomulags sex stjórnmálaflokka og nú komi í hlut ríkisstjórnar jafnaðarmanna að ljúka meðferð þess á þjóðþinginu. Vitnað er til forystumanna í nokkrum þessara flokka sem tala með líkum hætti og tilvitnuð orð ráðherrans hér að framan bera vott um. Haft er eftir Piu Kjærsgaard, forystukonu í Danska þjóðarflokknum — en til flokksins sóttu danskir jafnaðarmenn stefnu sína í málaflokknum — að formyrkvaðar ríkisstjórnir Mið-Austurlanda megi að sjálfsögðu ekki senda peninga í moskur eða kóranskóla í Danmörku til að grafa undan dönskum gildum. Þess vegna fagni þau þessu inngripi og líti svo á að með hinum nýju lögum megi stöðva árásir á lýðræðið sem stafi m.a. frá öfgafullum moskum. „Við munum að sjálfsögðu aldrei samþykkja árásir á hið friðsamlega samfélag okkar og lýðræði,“ sagði Pia Kjærsgaard. Talsmaður miðhægriflokksins Venstre, Mads Fuglede, sagði að samflokksmenn hans væru mjög ánægðir með að breiður stuðningur lægi að baki málinu, sem fram kom í stjórnartíð þess flokks. „Við berum pólitíska ábyrgð á að gæta Danmerkur. Það gerum við best með því að banna framlög frá myrkum öflum sem vilja grafa undan lýðræði í landi okkar,“ sagði hann. Svo virðist sem danskir stjórnmálamenn hafi lyft kyndli til að lýsa upp myrkrið sem þeir telja steðja að Danmörku.
    Í stefnuyfirlýsingu danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum 4 segir í kaflanum „Hin nýja frelsisbarátta“ (d. „Den nye frihedskamp“) að danskir jafnaðarmenn vilji að algjört bann verði lagt við erlendum fjárstuðningi við trúfélög í Danmörku frá ríkjum sem sjálf hvorki virða né ástunda trúfrelsi (bls. 14). Dagblaðið Berlingske greindi frá því 22. janúar 2020 að Sádi-Arabía hefði með milligöngu sendiráðs síns í Danmörku lagt fram nærfellt 100 milljónir íslenskra króna til Taiba-moskunnar í Nørrebro-hverfinu. Taiba-moskan, stundum kölluð „stórmoska Kaupmannahafnar“, var opnuð í júní árið 2014 með framlagi upp á jafngildi 4,5 milljarða íslenskra króna frá Hamad bin Khalifa al Thani, fyrrverandi emír í Katar.
    Ríkisútvarpið greindi frá því 22. nóvember 2015 að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði sagt að það hefði komið sér í opna skjöldu þegar sendiherra Sádi-Arabíu greindi frá fyrirætlunum þarlendra stjórnvalda um að styrkja byggingu mosku hér á landi. Forseti sagðist gjalda varhug við því. Ólafur Ragnar sagði að lög í landinu bönnuðu erlendum aðilum að leggja fé í stjórnmálastarf á Íslandi og að breið pólitísk samstaða hefði ríkt um slíkt bann. Með líkum hætti fyndist forseta óeðlilegt að ríki eins og Sádi-Arabía hefði fullt frelsi til þess að blanda sér með fjármunum og íhlutunum af hálfu sendiráðsins í trúariðkun á Íslandi. Fréttamaður spurði forseta hvort hann hefði mótmælt fyrirætlunum Sádi-Araba á fundi sínum með sendiherra landsins. Forseti svaraði að það hefði hann ekki gert því að yfirlýsing sendiherrans hefði komið sér í opna skjöldu og að hann hefði ekki vitað með hvaða hætti hann hefði átt að bregðast við. Hann hefði orðið svo hissa og lamaður við yfirlýsinguna að hann hefði aðeins tekið á móti henni, sest niður og hugleitt hana. Síðan taldi hann rétt að greina frá henni, sem hann hefði gert.
    Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja að Íslendingar þurfi að læra af þeirri reynslu Dana sem leitt hefur til þess að í Danmörku hefur nú verið lögleitt bann við fjárframlögum eða annars konar stuðningi frá erlendum aðilum sem taldir eru varasamir vegna viðleitni þeirra til að vinna gegn eða grafa undan lýðræði og mannréttindum. Margar aðrar Evrópuþjóðir hafa reynt að bregðast við með sambærilegum hætti. Er því lagt til að dómsmálaráðherra láti semja lagafrumvarp um þetta efni hér á landi og að það verði lagt fram á haustþingi 2021.


1     Slóð á lögin: www.ft.dk/samling/20201/lovforslag/l81/20201_l81_som_vedtaget.htm
2     Slóð á frétt ráðuneytis 9. mars 2021: uim.dk/nyheder/nu-bliver-antidemokratiske-donationer-til-modtagere-i-danmark-forbudt
3     Slóð á frétt ráðuneytis 7. febrúar 2021: uim.dk/nyheder/2020/2020-02/opgor-med-antidemokratiske-donationer
4     Slóð á stefnuyfirlýsinguna: www.socialdemokratiet.dk/media/8545/retfaerdig-og-realistisk-ny.pdf