Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1499  —  404. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um loðdýrarækt.


     1.      Telur ráðherra að loðdýrarækt samræmist sjónarmiðum um náttúruvernd og lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994?
    Lög nr. 64/1994 fjalla um villt dýr en ekki búfé líkt og loðdýr. Helsta sjónarmið hvað varðar náttúruvernd og loðdýrarækt er að eldisdýr hafa sloppið og valdið tjóni á lífríki landsins. Það er hins vegar skylda samkvæmt lögum að loðdýrum skuli ávallt haldið í tryggri vörslu, sbr. 7. gr. laga um búfjárhald, nr. 38/2013.

     2.      Í hvaða löndum Evrópu hefur loðdýrarækt verið bönnuð?
    Nokkur Evrópuríki hafa innleitt bann við loðdýrarækt (e. fur farming). Hún er bönnuð í Austurríki, Bretlandi, Króatíu, Lúxemborg, Norður-Makedóníu, Serbíu, Slóveníu, Sviss og Tékklandi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir við vinnslu þessa svars hafa nokkur Evrópuríki bannað loðdýrarækt eða munu innleiða bann á komandi árum, þ.m.t. Belgía (2023), Holland (2024), Frakkland, Noregur og Slóvakía (2025) og Bosnía og Hersegóvína (2028).

     3.      Hver er afstaða ráðherra til loðdýraræktar á Íslandi?
    Sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Kemur til greina að mati ráðherra að leggja slíka rækt af og mun hann beita sér fyrir því?
    Ef forsendur fyrir loðdýrarækt á Íslandi eru ekki lengur til staðar hlýtur að koma til greina að leggja slíka rækt af. Ákvörðun um það er hins vegar ekki á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem loðdýr falla undir lög um búfjárhald, nr. 38/2013, og eru því á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.