Ferill 753. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1548  —  753. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðtíma og stöðugildi geðlækna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu langur biðtími er nú eftir viðtali við geðlækni hjá eftirfarandi stofnunum:
                  a.      Heilbrigðisstofnun Austurlands,
                  b.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
                  c.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
                  d.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,
                  e.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,
                  f.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands,
                  g.      Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins?
     2.      Hversu mörg stöðugildi geðlækna eru nú við hverja þessara stofnana og hversu mörg telur ráðherra að þau þurfi að vera til að tryggja viðunandi þjónustu?
     3.      Hversu mörg stöðugildi geðlækna hafa verið auglýst síðastliðið ár en engar umsóknir borist, sundurliðað eftir stofnunum?


    Fyrirspurninni er svarað eftir heilbrigðisumdæmum. Forstjóri heilbrigðisstofnunar skipuleggur heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði viðkomandi stofnunar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Þörf fyrir þjónustu geðlæknis er því mat hverrar stofnunar og kemur það mat fram hér í upplýsingum um hverja heilbrigðisstofnun fyrir sig.

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
     1.      Biðtími eftir geðlæknisþjónustu er um fjórir mánuðir. Erindum er forgangsraðað eftir bráðleika.
     2.      Við stofnunina starfar nú yfirlæknir geðheilbrigðismála í 50% stöðugildi. Ein staða er talin nægja til að tryggja þjónustu fyrir þá 11 þúsund íbúa sem búa í heilbrigðisumdæmi Austurlands.
     3.      Einu sinni hefur verið auglýst eftir geðlækni og eftir það var sá ráðinn sem nú starfar hjá stofnuninni.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
     1.      Ekki er boðið upp á þjónustu geðlækna við Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN, utan þjónustu geðheilsuteymis. Mannaflaþörf geðlæknisþjónustu HSN fer eftir mönnun á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
     2.      Stofnunin er með geðlækni í 20% stöðu í geðheilsuteymi og líklegt er talið að stofnunin geti nýtt fulla stöðu geðlæknis í geðheilsuteymi, í almenn viðtöl og sem stuðning við heilsugæslulækna.
     3.      Stofnunin hefur einungis auglýst hlutastöðu í geðheilsuteymi og fékk þá eina umsókn.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
     1.      Geðlæknir í 40% starfshlutfalli lét af störfum í mars sl. og ekki hefur tekist að manna þá stöðu að nýju. Því er þjónustan ekki til boða sem stendur og enginn biðlisti eftir þjónustu geðlæknis á staðnum.
     2.      Þangað til ákveðið verður að ráða að nýju nýtir stofnunin ráðgjafaþjónustu frá geðlæknateymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
     3.      Ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni við stofnunina sl. ár.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
     1.      Enginn geðlæknir er starfandi við stofnunina og enginn biðlisti er eftir slíkri þjónustu á staðnum.
     2.      Að mati stofnunarinnar væri æskilegt að hafa eitt stöðugildi geðlæknis starfandi við geðheilsuteymið.
     3.      Ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni síðasta árið. Það var síðast gert 2019 og þá sótti enginn um.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    
Það er ekki starfandi geðlæknir við stofnunina og ekki er talinn grundvöllur fyrir slíku stöðugildi að mati forstjóra.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
     1.      Biðtími eftir fyrsta viðtali getur verið allt að þrír mánuðir eða lengri og getur verið breytilegur eftir eðli vandans.
     2.      Geðlæknir er sem stendur starfandi við stofnunina í 30% starfshlutfalli. Miðað við þann biðtíma sem er má ætla að starfshlutfall geðlæknis þyrfti að vera a.m.k. 60%.
     3.      Geðlæknir kom til starfa í lok október 2019 í 25% starf þegar fjármagn fékkst til að stofna geðheilsuteymi. Stöðugildið var aukið í 30% á síðasta ári.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     1.      Geðlæknar starfa innan geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, HH, í þverfaglegri teymisvinnu og koma einungis að þjónustu við notendur teymanna eftir að þeir hafa verið innkallaðir. Biðtími eftir viðtali við geðlækna teymanna ræðst því að mestu af bið eftir þjónustu teymanna frá því að tilvísun hefur verið samþykkt. Biðtími eftir þjónustu teymanna er sem stendur eftirfarandi:
                   Geðheilsuteymi HH austur (GHA): Fjórir mánuðir.
                   Geðheilsuteymi HH vestur (GHV): Þrír mánuðir.
                   Geðheilsuteymi HH suður (GHS): Einn mánuður.
        Eftir að einstaklingur er kominn í þjónustu geðheilsuteymis er biðtími þeirra sem þurfa viðtal við geðlækni hjá GHA, GHV og GHA 1–2 vikur. Þar sem þjónusta geðheilsuteymanna er þverfagleg er þörf á aðkomu geðlækna breytileg.
         Geðheilsuteymi þroskaraskana (GHT): Teymið er landsteymi. Eins og nú háttar er engin bið eftir að komast að hjá geðlækni teymisins, þar sem byrjað var að taka við tilvísunum 1. apríl 2021.
        Geðheilsuteymi fangelsa (GHF): Teymið er landsteymi. Enginn skilgreindur biðtími er eftir viðtali geðlækni teymisins og er biðtíminn sveigjanlegur. Viðtal getur þannig fengist samdægurs alla virka daga eða innan fárra daga, allt eftir þjónustuþörf einstakra skjólstæðinga, sem metin er hverju sinni.
         Geðheilsuteymi fjölskylduverndar: Teymið er landsteymi, og hóf það starfsemi í janúar sl. Teymið er fyrsta tilraunaverkefni með tilliti til samstarfs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og geðþjónustu Landspítala. Bið eftir viðtali við geðlækni er 3–4 vikur.
     2.      Innan geðheilsuteyma HH starfa nú sex geðlæknar í jafnmörgum stöðugildum. Fyrirsjáanlegt er að fjölga þurfi stöðugildunum í a.m.k. níu til að tryggja viðunandi þjónustu. Almennt er talið að hver geðlæknir geti að jafnaði sinnt 100 skjólstæðingum geðheilsuteyma hverju sinni. Í sérhæfðari teymum er þessi fjöldi lægri. Áætlað er að almennu geðheilsuteymin séu með í virkri þjónustu hverju sinni 150 skjólstæðinga og 200 yfir árið.
     3.      Ekki hafa verið auglýst stöðugildi geðlækna við framangreind sex geðheilsuteymi HH á nefndu tímabili. Þó ber að nefna að í júní á síðasta ári fól ráðuneytið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að koma á fót landsþjónustu ráðgjafar- og þjónustugeðlækninga sem næði til allra heilsugæslustöðva á landinu. Um er að ræða þrjú tímabundin störf til eins árs til að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og til að þjóna landsbyggðinni með fjarþjónustu og heimsóknum. Auglýst var eftir þremur geðlæknum á árinu 2020, en engar umsóknir bárust þar til nú í ársbyrjun. Gengið hefur verið frá ráðningu eins geðlæknis í 60% starf frá fyrsta apríl sl. til að hefja þessa þjónustu. Enn er unnið að ráðningu fleiri geðlækna til að veita þessa ráðgjafarþjónustu fyrir landsbyggðina. Standa nokkrar vonir til að úr rætist á næstu vikum og mánuðum með frekari ráðningar.