Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1568  —  600. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um áhrif og forsendur áfrýjunar dóms um brot ráðherra gegn jafnréttislögum.


     1.      Hver verður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna skipunar ráðherra á ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sitt 1. desember 2019? Óskað er eftir sundurliðun þar sem fram komi launakostnaður og annar afleiddur kostnaður vegna hæfnisnefndar, kostnaður ráðuneytisins við meðferð málsins hjá kærunefnd jafnréttismála, allur kostnaður vegna málsóknar fyrir héraðsdómi, þar á meðal laun lögmanns og málsvarnarlaun verjanda stefndu, sem og áætlaður kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar.
    Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna skipunar í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis nam 5.010.309 kr. sem skiptist þannig:
          Kostnaður við birtingu auglýsingar í blöðum og Stjórnartíðindum nam 554.404 kr.
          Kostnaður ráðuneytisins vegna starfa hæfnisnefndar nam 4.455.905 kr.
          Ráðuneytið heldur ekki verkbókhald fyrir starfsmenn og afleiddur kostnaður vegna vinnu innan ráðuneytisins er því ekki skráður.
    Útlagður kostnaður vegna meðferðar málsins hjá kærunefnd jafnréttis var enginn. Ekki er haldið verkbókhald fyrir starfsmenn í ráðuneytinu og því er ekki skráður afleiddur kostnaður vegna vinnu innan ráðuneytisins.
    Kostnaður vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi nam alls 8.732.190 kr. sem skiptist þannig.
          Laun setts ríkislögmanns: 2.384.309 kr.
          Málsvarnarlaun lögmanns stefnda: 4.500.000 kr.
          Kostnaður vegna öflunar lögfræðiálita: 1.847.881 kr.
          Kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar liggur ekki fyrir en áætlað er að hann verði á bilinu 900.000 kr. til 1.200.000 kr. án virðisaukaskatts.

     2.      Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun ráðherra um að áfrýja dómi héraðsdóms í máli nr. E-5061/2020 til Landsréttar? Hvaða vinna fór fram í ráðuneytinu við að greina niðurstöður dómsins áður en ákvörðun um áfrýjun var tekin aðeins rúmum fjórum klukkustundum eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir? Við hverja ráðfærði ráðherra sig, innan ráðuneytis sem utan, í aðdraganda ákvörðunarinnar? Hvaða fundi og samtöl átti ráðherra, hvenær fóru fundirnir og samtölin fram og hvaða gögn og faglegu álitsgerðir lágu til grundvallar? Hvaða lögfræðilegu sjónarmið vill ráðherra að komi til skoðunar á æðra dómstigi?
    Í samræmi við leiðbeiningar fyrir ráðuneyti og stofnanir, Verklag í samskiptum við embætti ríkislögmanns, gefnar út af forsætisráðuneytinu í desember 2019, ákvað mennta- og menningarmálaráðherra, hinn 5. mars 2021, eftir fund með lögmanni utan embættis ríkislögmanns, sem falin var meðferð málsins fyrir dómi, að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5061/2020 til Landsréttar. Fundurinn hófst um kl. 12 og ásamt ráðherra og Víði Smára Petersen sátu fundinn Milla Ósk Magnúsdóttir og Hrannar Pétursson, aðstoðarmenn ráðherra, og Guðjón Ármannsson hæstaréttarlögmaður. Á þeim fundi var farið yfir forsendur héraðsdóms og málið greint með tilliti til þeirra sjónarmiða sem upphaflega lágu til grundvallar málshöfðunar vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.
    Áður hafði ráðherra aflað lögfræðilegra álitsgerða og áttu þau sjónarmið sem þar komu fram enn við um ákvörðun um áfrýjun málsins. Á áðurnefndum fundi kom einnig fram sú staðfasta skoðun þeirra sem komu að skipan í starf ráðuneytisstjóra að rétt hefði verið staðið að málum og jafnréttislög hefðu ekki verið brotin. Talið var mikilvægt að eyða öllum vafa um efnisatriði málsins og er varða ákveðin grundvallaratriði við skipan í opinber embætti. Er þá meðal annars vísað til þess hvort ráðherra skuli fara að ráðum hæfnisnefndar eða víkja frá niðurstöðu hennar, án þess að ríkar ástæður séu fyrir hendi.

     3.      Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun um að útvista rekstur málsins frá ríkislögmanni? Kom ráðherra að þeirri ákvörðun eða að ákvörðun um til hvaða lögmanns yrði leitað?
    Með bréfi hinn 19. júní 2020 óskaði ráðherra eftir því við ríkislögmann að farið yrði í ógildingarmál á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Í bréfinu var rakið að í kjölfar þess að kærunefndin kvað upp úrskurð sinn hefði ráðherra aflað lögfræðiálita um hvort ætti að bera úrskurðinn undir héraðsdóm.
    Hinn sama dag tjáði ríkislögmaður ráðuneytinu að í máli þessu teldi hann ástæðu til að nýta heimild 2. mgr. 3. gr. laga um ríkislögmann, nr. 51/1985, til að fela lögmanni utan embættisins meðferð þess fyrir dómi. Ástæða þess væri einkum sú að hlut að máli ætti skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti en samkvæmt forsetaúrskurði fer það ráðuneyti með málefni embættis ríkislögmanns. Embætti ríkislögmanns fékk kynningu á lögfræðiáliti Víðis Smára Petersen og Guðjóns Ármannssonar hæstaréttarlögmanna og þar sem óska þurfti eftir flýtimeðferð og þess að lögmennirnir hefðu kynnt sér málið ítarlega stóðu til þess rök að fela Víði Smára Petersen meðferð málsins fyrir dómi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðherra vegna íslenska ríkisins.
    Ráðuneytið var samþykkt þessari ráðstöfun.