Ferill 847. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1632  —  847. mál.




Skýrsla


stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um álit umboðsmanns vegna stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld.


    Með bréfi, dags. 13. ágúst 2020, sendi forseti Alþingis álit umboðsmanns Alþingis nr. 9938/2018, um frumkvæðisathugun á stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Rut Kristjánsdóttur og Hallgrím J. Ámundason frá forsætisráðuneyti, Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur, Lindu Rós Alfreðsdóttur og Hrafnhildi Kvaran frá félagsmálaráðuneyti, Tatjana Latinovic frá innflytjendaráði, Lindu Dröfn Gunnarsdóttur frá Fjölmenningarsetri, Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur og Sögu Kjartansdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Joanna Marcinkowska frá ráðgjafarstofu innflytjendamála og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Undanfarin ár hafa umboðsmanni borist ýmsar ábendingar og kvartanir vegna viðbragða stjórnvalda við erindum frá einstaklingum sem ekki eru mæltir á íslensku. Þessum málum hefur farið fjölgandi í ljósi verulegra breytinga á íbúasamsetningu á Íslandi. Málin hafa meðal annars lotið að því að fá leiðbeiningar og svör á tungumáli sem viðkomandi skilur og að skortur hefur verið á fullnægjandi túlkaþjónustu.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að almennt leitist stjórnvöld við að tryggja að einstaklingar sem ekki skilja íslensku fái úrlausn erinda sinna og viðeigandi aðstoð. Lagaleg umgjörð þessara mála sé þó sundurleit. Þegar sérákvæðum í lögum sleppir hvíla skyldur stjórnvalda til að eiga í samskiptum við borgara á öðru tungumáli en íslensku á almennum og matskenndum lagagrundvelli. Af því leiðir að stjórnvöld taka á þeim málum með misjöfnum hætti og lítils samræmis gætir milli þeirra þrátt fyrir að sambærilegar ákvarðanir kunni að vera undir gagnvart þeim. Starfsfólk stjórnvalda sé í ákveðinni óvissu um hvaða skyldur hvílir á því um notkun tungumála í samskiptum við þá sem ekki tala eða skilja íslensku í þeim tilvikum.
    Fram kom í máli gesta að niðurstöður umboðsmanns rími vel við upplifun margra þeirra sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Mikilvægt sé að taka málið föstum tökum til að koma í veg fyrir misskilning sem getur leitt til tortryggni gagnvart stjórnvöldum. Sérstaklega sé það brýnt í viðkvæmum málefnum, svo sem fjölskyldumálum hjá embættum sýslumanna. Í máli ráðuneytanna kom fram að unnið sé að því að styrkja stöðu þeirra sem ekki eru mæltir á íslensku hér á landi meðal annars með eflingu samfélagstúlkunar. Markmiðið sé að einstaklingar sem ekki tala íslensku eigi kost á faglegri túlkun af og á eigið tungumál í samskiptum þeirra við stjórnvöld og þjónustuaðila. Þá er fyrirhugað í forsætisráðuneytinu að taka ábendingar umboðsmanns til nánari skoðunar. Sjónarmiðum sem fram koma í áliti umboðsmanns verður miðlað til allra ráðuneyta og álitið haft til hliðsjónar við fræðslu á vettvangi Stjórnarráðsskólans.
    Þrátt fyrir að unnið sé að þessum málum í Stjórnarráðinu er ljóst að hluti stjórnvalda telur að það leiði ekki af reglum stjórnsýslulaga og/eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar að veita þurfi einstaklingum sem ekki skilja íslensku aðstoð og leiðbeiningar á máli sem þeir skilja. Draga má þá ályktun að þetta ósamræmi í framkvæmd megi meðal annars leiða af hinni sundurleitu lagalegu umgjörð. Nefndin hvetur því forsætisráðherra, sem fer með forystu og samhæfingu innan Stjórnarráðs Íslands, að halda áfram þeirri vinnu að tryggja samræmda túlkun ráðuneyta og stofnana þegar kemur að reglum stjórnsýslulaga og -réttar þannig að þeir sem ekki skilja íslensku fái aðstoð og leiðbeiningar á máli sem þeir skilja. Við þá vinnu megi leggja áherslu á framkvæmd stjórnvalda sem sinna viðkvæmum félags- og fjölskyldumálum. Þá telur nefndin rétt að ákvæði stjórnsýslulaga, sem ætlað er að tryggja þátttökurétt borgara í undirbúningi ákvarðana stjórnvalda í málum þeirra, verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að þau mæli fyrir um skýran rétt borgara til að fá úrlausn sinna mála á tungumáli sem þeir skilja.
    Með vísan til þessarar umfjöllunar leggur nefndin til, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um þingsköp Alþingis, að Alþingi samþykki svofellda þingsályktunartillögu:


Tillaga til þingsályktunar

um að efla stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að innleiða sem fyrst samræmda framkvæmd stjórnvalda um notkun tungumála í samskiptum þeirra við borgara sem ekki tala eða skilja íslensku þannig að meðferð mála þeirra samrýmist skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar.
    Jafnframt verði álit umboðsmanns í máli nr. 9938/2018 haft til grundvallar við endurskoðun stjórnsýslulaga sem nú fer fram í forsætisráðuneytinu með það að markmiði að tryggja á raunhæfan hátt þátttökurétt borgara sem ekki tala eða skilja íslensku í undirbúningi ákvarðana stjórnvalda í málum þeirra.