Ferill 805. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1731  —  805. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um aðgerðir gegn áfengis- og vímuefnavanda.


     1.      Hefur ráðuneytið skipað vinnuhóp með fulltrúum helstu aðila sem sinna áfengis- og vímuefnavörnum líkt og lagt er til í skýrslu embættis landlæknis frá júní 2020 um vanda vegna áfengis og/eða annarra vímuefna: Bið eftir heilbrigðisþjónustu?
    Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki skipað slíkan vinnuhóp.

     2.      Er hafin söfnun viðeigandi gagna með aðferð miðstöðvar Evrópu í vímuefnamálum (EMCDDA), Treatment Demand Indicator (TDI), eða sambærilegum viðmiðum til að geta betur metið þörf fyrir þjónustu á hverjum tíma?
    Slík söfnun gagna hefur ekki verið sett af stað.

     3.      Hefur verklag við mat á þörf einstaklinga fyrir þjónustu með greiningarviðtali verið samræmt?
    Í allri heilbrigðisþjónustu er unnið eftir klínískum leiðbeiningum eins og við á en heildstætt verklag við mat á þörf einstaklinga fyrir þjónustu hefur ekki verið samræmt yfir öll heilbrigðisþjónustustig.

     4.      Hafa viðmið og verklag við skráningu einstaklinga á miðlægan biðlista eftir þjónustu verið samræmd?
    Slíkt hefur ekki verið framkvæmt.

     5.      Hver er staðan á vinnu við stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum? Hefur hún verið endurskoðuð og til hversu langs tíma gildir sú stefna?
    Fyrirhugað er að hefja vinnu við nýja stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum.

     6.      Verður í stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum sett heildstætt viðmið um þjónustu og meðferð á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar sem byggist á alþjóðlegum stöðlum?
    Heilbrigðisstefna til 2030 hefur verið samþykkt og þingsályktun um lýðheilsustefnu sem hefur verið til umræðu á Alþingi. Stefnur ráðuneytisins byggjast á bestu þekkingu á hverjum tíma og hafa það að markmiði að auka gæði og skilvirkni í heilbrigðismálum. Unnið er að undirbúningi heildarendurskoðunar á heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni með það markmið að þróa heildstæðan þjónustuferil þar sem fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er samþætt og byggir á alþjóðlegum viðmiðum, gagnreyndri þekkingu og er sérsniðin að íslenskum veruleika.