Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 56  —  56. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (heimilisuppbót).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 21 árs aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
    Foreldri einstaklings sem er á aldrinum 21–25 ára og stundar fullt skólanám eða starfsþjálfun telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. sex mánuði hvert ár. Ef um er að ræða óreglulegt nám eða námskeið skal námstími reiknaður í kennslustundafjölda á almanaksárinu og telst þá sex mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Brot úr mánuði telst heill mánuður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 151. löggjafarþingi (820. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt.
    Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram síðastliðið vor gerði ráðherra loks langþráðar breytingar á reglugerð um heimilisuppbót sem koma í veg fyrir að heimilisuppbót skerðist vegna námsmanna á aldrinum 18–25 sem búa á sama heimili og lífeyrisþegi. Því ber að fagna en fullt tilefni er til að ganga alla leið og tryggja réttindi foreldra að þessu leyti í lögunum sjálfum. Auk þess gengur frumvarpið lengra en gildandi reglugerð þar eð undanþága frumvarpsins nær einnig til einstaklinga sem ekki eru í námi á aldrinum 18–21.
    Löggjafanum ber að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Bannað er að skerða þá friðhelgi nema með lögum og aðeins ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Óumdeilt er að löggjöfin mismunar fjölskyldum á ýmsa vegu og ýmis lagaákvæði stuðla beinlínis að sundrung og upplausn fjölskyldunnar. Það er sá raunveruleiki sem lífeyrisþegar almannatrygginga mega þola. Ýmis réttindi falla niður um leið og börn ná 18 ára aldri. Við það tímamark verða lífeyrisþegar fyrir verulegum tekjumissi. Líkt og aðrir missa þeir rétt til barnabóta, en einnig missa þeir ýmis önnur réttindi. Barnabætur, barnalífeyrir og mæðra- og feðralaun falla niður. Auk þess fellur niður réttur til heimilisuppbótar ef barn dvelur áfram á heimili einstæðs foreldris. Tekjur einhleyprar tveggja barna móður skerðast um nærri 100.000 kr. á mánuði þegar eldra barnið nær 18 ára aldri. Þá lækkar barnalífeyrir og mæðralaun en heimilisuppbótin skerðist að fullu. Með undanþágu má þó fá réttinn framlengdan um tvö ár til viðbótar ef barn er í fullu námi, en sækja þarf sérstaklega um það.
    Það liggur í augum uppi að núgildandi löggjöf brýtur niður fjölskyldur sem ná ekki endum saman án þessarar framfærslu. Til þess að missa ekki réttinn til heimilisuppbótar neyðast margir foreldrar til að vísa börnum sínum á dyr. Þannig má oft gera ráð fyrir að lögheimilisskráning á öðru heimili sé aðeins til málamynda.
    Vissulega eru gild rök fyrir því að bætur sem eiga að renna til einstæðra foreldra skuli falla niður þegar börn þeirra ná fullorðinsaldri. Það verður þó að gæta þess að áhrifin verði ekki of íþyngjandi. Það þarf að dreifa álaginu betur og koma í veg fyrir að allir greiðsluflokkarnir skerðist á sama tíma.
    Því er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 21 árs aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í fullu námi. Með því að girða fyrir að heimilisuppbót foreldris falli niður þar til einstaklingurinn nær 21 árs aldri gefst ákveðið svigrúm svo að viðkomandi geti fundið sér nám eða vinnu við hæfi og leitað að hentugu húsnæði.
    Þá er einnig lagt til að heimilisuppbót skuli ekki falla niður hjá foreldri einstaklings í fullu námi fyrr en hann verður 26 ára. Þannig skapast svigrúm einstaklingsins til þess að búa heima þar til framhaldsnámi lýkur. Þá hefur viðkomandi raunverulegt val um það að búa heima meðan á framhaldsnámi stendur eða á eigin vegum og taka námslán. Börn efnaðra foreldra geta valið á milli og notið góðs af því að hafa búið heima á námstímanum. Þetta val á að standa öllum til boða óháð efnahag.
    Skerðingarreglur sem miða við aldur barna eru til þess fallnar að auka enn frekar á ójöfnuð og líkurnar á því að börn einstæðra öryrkja fái tækifæri til að brjótast út úr fátæktargildrunni sem foreldrarnir búa við eru litlar sem engar. Verði þetta frumvarp að lögum þá hverfa verstu áhrif slíkra skerðinga og einstaklingnum er gert mögulegt að brjótast út úr viðjum fátæktar.