Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 384  —  106. mál.




Svar


félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðtíma hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.


    Ráðgjafar- og greiningarstöð er miðlæg þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem starfar á þverfaglegum grunni og sinnir börnum að 18 ára aldri. Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 83/2003. Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar, sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Í ársskýrslum stofnunarinnar er hægt að nálgast upplýsingar um verkefni hennar og nánari upplýsingar um skipulag er á heimasíðu stofnunarinnar, greining.is.
    Hinn 1. janúar 2022 tóku í gildi breytingar á lögum stofnunarinnar sem felur m.a. í sér að nafn hennar breyttist í Ráðgjafar - og greiningarstöð. Í lögunum kemur m.a. fram að þjónusta stofnunarinnar sé fjölþætt og fjölskyldumiðuð með áherslu á snemmtæka íhlutun. Áður en til tilvísunar til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar kemur skal hafa farið fram frumgreining hjá þjónustuveitendum í nærumhverfi barnsins. Þjónusta stofnunarinnar felst í greiningu, ráðgjöf og fræðslu til barns, fjölskyldu og þjónustuaðila varðandi íhlutun, þjálfun og önnur úrræði, auk þess að sinna tilvísun til annarra. Enn fremur fer stofnunin með langtímaeftirfylgd og ráðgjöf til lengri tíma vegna einstaklinga með óvenjuflókna og/eða sjaldgæfa fötlun.
    Ráðgjafar- og greiningarstöð tekur þátt í samþættingu þjónustu þegar hún telst þjónustuveitandi í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur samstarf við Barna- og fjölskyldustofu um stuðning við þjónustuveitendur vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna þar sem þörf er á sérþekkingu á fötlun barna, íhlutunarleiðum og stuðningsþörfum.

     1.      Hver er biðtími eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins? Óskað er eftir yfirliti yfir biðtíma síðustu fimm ár, sundurliðað.
    Þegar fjallað er um biðtíma þá er á hverjum tíma erfitt að gefa nákvæmar upplýsingar um það vegna þess hve aðstæður geta verið breytilegar. Hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð er stöðugt símat í gangi á því hvenær einstaklingar komast í greiningu. Það mat byggist á mörgum þáttum, m.a. umfangi röskunar og áhrifum hennar á aðstæður hvers og eins einstaklings.
    Hér að aftan má sjá yfirlit yfir biðtíma eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð síðustu fimm ár, sundurliðað eftir árum:

Ár Algengur biðtími eftir greiningu 2–18 ára barna
2017 10 til 17 mánuðir
2018 16 til 19 mánuðir
2019 13 til 21 mánuðir
2020 13 til 24 mánuðir
Des. 2021 11 til 22 mánuðir

    Þegar fjallað er um biðtíma eftir þjónustu er mikilvægt að eftirfarandi sé haft í huga:
     *      Biðtími er mismunandi eftir aldurhópum og alvarleika röskunar.
     *      Börn á aldrinum 0–2ja ára þurfa alla jafna ekki að bíða eftir þjónustu.
     *      Börn á aldrinum 2–6 ára geta þurft að bíða eftir þverfaglegri greiningu í allt að 22 mánuði. Forgangsraðað er í athuganir eftir alvarleika einkenna og styttist biðtíminn hjá þeim sem eru í forgangi styst úr 18 í 15 mánuði á árinu 2021. Fjármagn fékkst til átaksverkefnis fyrir þann aldurshóp, nýráðningum og þjálfun starfsfólks er lokið og átakið er hafið. Búast má við að biðtími fyrir þennan aldurshóp haldi áfram að styttast á fyrri helmingi þessa árs.
     *      Fyrir börn á aldrinum 6–18 ára er meðalbiðtími 12–14 mánuðir en sé um alvarlega röskun að ræða eða sérstakar aðstæður getur bið eftir þjónustu verið styttri.

     2.      Hversu mörg börn eru á biðlista hjá stöðinni? Óskað er eftir upplýsingum um lengd biðlista síðustu fimm ár, sundurliðað.
    Meðfylgjandi graf sýnir fjölda barna á bið eftir þverfaglegri greiningu á vegum Ráðgjafar- og greiningarstöðvar síðustu fimm árin en upplýsingar fyrir árið 2021 miðast við stöðuna 1. desember 2021.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Fjöldi tilvísana jókst á tímabilinu 2016–2018 en fækkaði aftur á árinu 2019 eftir að skerpt var á inntökuskilyrðum og skýrari grein gerð fyrir markhópum stöðvarinnar. Árið 2020 er nokkuð ólíkt árunum á undan þar sem færri tilvísanir bárust á því ári. Hugsanlega má rekja þá breytingu til áhrifa kórónuveirufaraldurs. Fjöldi tilvísana árið 2021 var 357.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og sjá má á grafinu hér að framan er klínísk þjónusta á vegum Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fjölþætt. Auk þess sem gerðar eru þverfaglegar greiningar á börnum sem vísað er í þjónustu t.d. vegna gruns um einhverfu eða þroskahömlun þá er lögð mikil áhersla á íhlutun og ráðgjöf. Fjöldi þverfaglegra athugana hefur haldist nokkuð stöðugur á síðustu árum ef frá er talin lítils háttar fækkun á árinu 2020 sem tengdist breyttri starfsemi vegna heimsfaraldurs. Á sama tíma hefur þjónusta tengd ráðgjöf og íhlutun aukist. Tímabundin ráðgjöf/íhlutun byggist oft á niðurstöðum frumgreiningar og er þá veitt á meðan beðið er eftir endanlegri greiningu hjá GRR. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ef sérhæfð og öflug þjálfun hefst snemma getur hún stuðlað að markverðum árangri, ekki hvað síst hjá börnum með einhverfu. Langtímaeftirfylgd er fyrir börn og ungmenni með samþætta og flókna fötlun og er þjónustan þá veitt yfir lengri tíma en stofnunin þjónustar fyrst og fremst þá sem eru á aldrinum 0–18 ára.

     3.      Hversu mikið fjármagn hefur ríkissjóður veitt árlega til starfseminnar síðustu fimm ár?
    Meðfylgjandi graf sýnir þróun fjárveitinga til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar á árunum 2017–2021 en árið 2021 samþykkti Alþingi framlag að upphæð 80 millj. kr. til að stytta biðtíma eftir þjónustu fyrir börn á aldrinum 2–6 ára.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.