Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 385  —  216. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um áhrifasvæði friðunar jarðarinnar Dranga í Árneshreppi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Nær áhrifasvæði friðunar jarðarinnar Dranga í Árneshreppi, sem friðlýst var sem óbyggt víðerni 26. nóvember 2021, sbr. 46. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, og tók gildi 13. desember sl., út fyrir jörðina og inn á aðliggjandi jarðir?
     2.      Ef svo er, hvert er þá áhrifasvæði friðunar Drangajarðarinnar sem fellur utan landamerkja hennar og hvaða takmarkanir gilda um nýtingu aðliggjandi jarða? Óskað er eftir að svarinu fylgi landakort þar sem áhrifasvæði friðunarinnar verði merkt sérstaklega á hverri og einni hinna aðliggjandi jarða.


    Samkvæmt verndarmarkmiðum laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, skal skv. e-lið 3. gr. stefnt að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Í 6. gr. laganna, sem fjallar um almenna aðgæsluskyldu, segir að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt og að við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif sem áhrif hafa á náttúruna skuli gera allt sem með sanngirni má ætlast til svo komið verði í veg fyrir náttúruspjöll. Náttúruverndarlög kveða því almennt á um það markmið að vernda óbyggð víðerni.
    Með lögum nr. 43/2020 var gerð breyting á skilgreiningu óbyggðra víðerna í 19. tölul. 5. gr. laga um náttúruvernd. Með breytingunni var orðunum „að jafnaði“ bætt við fjarlægðarmörkin 5 km í skilgreiningu hugtaksins. Rökin fyrir breytingunni voru fyrst og fremst þau að ef óbyggð víðerni væru skilgreind þannig að alltaf væri a.m.k. 5 km fjarlægð í næsta mannvirki yrði niðurstaðan sú að fá óbyggð víðerni væri að finna á Íslandi.
    Með breytingunni var tryggt að hægt væri að friðlýsa svæði sem óbyggð víðerni sem uppfylla að öðru leyti skilgreininguna þó svo að mannvirki væru innan þeirra fjarlægðarmarka í þeim tilvikum þar sem slík mannvirki hafa ekki áhrif á óbyggðaupplifun gesta svæðisins eða verndargildi þess. Með tilliti til friðlýsta svæðisins Dranga eru landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að mannvirki á nærliggjandi landareignum eiga ekki að hafa nein áhrif á verndargildi svæðisins, sem felst m.a. í óbyggðaupplifuninni, þar sem slík mannvirki eru alla jafna ekki sjáanleg frá hinu friðlýsta svæði. Hefði skilgreiningunni ekki verið breytt hefðu mannvirkjaframkvæmdir innan 5 km fjarlægðarmarka frá friðlýsta svæðinu alltaf verið innan áhrifasvæðis hins friðlýsta svæðis, óháð því hvort aðstæður væru með þeim hætti að áhrifin væru í raun engin.
    Í 54. gr. laga um náttúruvernd segir að ef starfsemi eða framkvæmdir utan friðlýsts svæðis, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, geti haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins skuli taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfisins. Leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Setja megi skilyrði til að koma í veg fyrir skaða af starfseminni eða framkvæmdunum á hinu friðlýsta svæði. Um aðra starfsemi og framkvæmdir gildir aðgæsluskylda skv. 6. gr. Þetta ákvæði gildir um öll friðlýst svæði og því ekki eingöngu um svæði sem friðlýst eru sem óbyggð víðerni. Vegna landfræðilegra aðstæðna á Dröngum er ekki að sjá hvernig framkvæmdir á nærliggjandi jörðum gætu haft áhrif á verndargildi hins friðlýsta svæðis með þeim hætti að þær skerði það.
    Með vísan til ofangreinds er það því mat ráðuneytisins að áhrifasvæði hins friðlýsta svæðis á Dröngum sé eingöngu innan marka viðkomandi jarðar. Ekki er því talin þörf á landakorti til að gera frekar grein fyrir áhrifasvæði friðlýsingarinnar.