Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 410  —  232. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Kristján Gunnarsson frá Skattinum, Aðalgeir Ásvaldsson, Emil Helga Lárusson, Eyþór Mar Halldórsson, Sólveigu Andersen og Björn Árnason frá Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Þorgeir Helgason og Hrafnkel Hring Helgason f.h. rekstraraðila átta veitingahúsa sem voru stofnuð árið 2020 og 2021 (27 Mathús & Bar, Brút, Finnsson Bistro, Hnoss Restaurant, Héðinn Restaurant, Kársness Brasserí, Mikki Refur og Ó-le).
    Umsagnir bárust frá Þorgeiri Helgasyni f.h. rekstraraðila átta veitingahúsa sem voru stofnuð árið 2020 og 2021 (27 Mathús & Bar, Brút, Finnsson Bistro, Hnoss Restaurant, Héðinn Restaurant, Kársness Brasserí, Mikki Refur og Ó-le), Alþýðusambandi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu, Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins, Skattinum, Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði og Viðskiptaráði Íslands.
    Nefndinni bárust tvö minnisblöð um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagslegra afleiðinga af heimsfaraldri kórónuveiru. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að greiða beina styrki til rekstraraðila sem hafa veitingaleyfi í flokki II og III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og sættu takmörkunum á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar vegna opinberra sóttvarnaráðstafana skv. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

Umfjöllun nefndarinnar.
Skilyrði um rekstrarleyfi (4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins eru talin upp þau skilyrði sem rekstraraðili þarf að uppfylla til þess að eiga rétt á styrk samkvæmt frumvarpinu. Meðal skilyrða skv. 1. tölul. 4. gr. er að rekstraraðili starfræki veitingastað sem fékk rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, fyrir 1. desember 2021. Við umfjöllun sína um málið bárust nefndinni ábendingar um að ekki væri ljóst hvernig færi um rekstraraðila sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2021 en störfuðu á grundvelli bráðabirgðarekstrarleyfis. Nefndin óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins um framangreint álitaefni. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji að líta megi svo á að rekstraraðili hafi fengið rekstrarleyfi þótt það sé til bráðabirgða. Telji ráðuneytið ekki tilefni til strangari túlkunar hvað þetta varðar.
    Meiri hlutinn tekur undir afstöðu ráðuneytisins um framangreint og beinir því til Skattsins að leggja framangreinda túlkun til grundvallar.

Viðmið um stöðugildi (5. gr.).
    Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins tekur hámarksstyrkfjárhæð mið af fjölda stöðugilda hjá rekstraraðila veitingastaðar eða veitingastaða sem sættu takmörkunum. Miðað er við að styrkur geti ekki orðið hærri en 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi og að hámarki 2,5 millj. kr. ef tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr. var á bilinu 20–60% eða 600 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi og að hámarki 3 millj. kr. ef tekjufallið var meira en 60%.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að það kynni að gefa betri mynd af styrkþörf minni rekstraraðila, með færri stöðugildi, að miða hámarkið við tiltekið hlutfall af föstum kostnaði. Nefndin óskaði eftir því að ráðuneytið léti nefndinni í té afstöðu sína til tillögu þess efnis. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að slík nálgun fæli í sér talsverða breytingu frá framkvæmd tekjufalls- og viðspyrnustyrkja sem gæti flækt framkvæmdina og myndi að líkindum seinka því að úrræðið komist til framkvæmda. Að auki kemur fram í umsögn Skattsins að óhjákvæmilega muni nokkur tími líða frá samþykkt frumvarpsins og þar til rekstraraðilar geti sótt um styrki. Af framangreindu leiðir að umfangsmiklar breytingar frá úrræðum sem reynsla hefur fengist af í framkvæmd muni að líkindum seinka því enn frekar að úrræðið komist til framkvæmda. Meiri hlutinn telur þann takmarkaða ábata sem fengist af slíkri breytingu ekki réttlæta aukið flækjustig úrræðisins og mögulegar tafir á því að það komist til framkvæmda.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Afmörkun hugtaksins „veitingastaður“ (7. tölul. 3. gr.).
    Í frumvarpinu er kveðið á um styrki til rekstraraðila sem starfrækja veitingastað eða veitingastaði sem hafa sætt takmörkun á opnunartíma. Í 7. tölul. 3. gr. er hugtakið „veitingastaður“ afmarkað þannig að það taki til veitingastaða í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Líkt og rakið er í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis greindi ráðherra frá því í framsöguræðu við 1. umræðu um frumvarpið að heppilegt væri að rýmka gildissvið frumvarpsins þannig að skilgreining á veitingastöðum yrði látin ná til veitingarekstrar á vegum gististaða með vínveitingaleyfi.
    Til samræmis er í minnisblaði ráðuneytisins lögð til viðbót við orðskýringuna „veitingastaður“ í 7. tölul. 3. gr. svo að undir hugtakið falli staðir þar sem áfengi er selt, og eftir atvikum matur, til neyslu á staðnum sem heyrir undir rekstrarleyfi gististaðar í flokki IV skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Undir flokk IV skv. 3. mgr. 3. gr. falla gististaðir með áfengisveitingum.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreinda breytingu og gerir hana að sinni. Meiri hlutinn áréttar, líkt og fram kemur í minnisblaðinu, að sú viðbót sem lögð er til nái aðeins til veitingarekstrar á vegum þeirra rekstraraðila sem falla undir flokk IV skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðrir þættir í rekstri þeirra, svo sem gisting gegn endurgjaldi, falla því ekki undir skilgreininguna og við mat á tekjum, rekstrarkostnaði og stöðugildum skuli aðeins taka tillit til veitingarekstrarins en ekki annarra rekstrarþátta. Framangreind afmörkun er í samræmi við það markmið frumvarpsins að mæta tekjufalli vegna takmarkana á opnunartíma veitingastaða.

Styrktímabil (inngangsmálsliður 4. gr.).
    Samkvæmt frumvarpinu á rekstraraðili sem uppfyllir þau skilyrði sem kveðið er á um í 4. gr. rétt á styrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá desember 2021 til og með mars 2022. Í umsögn Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði kemur fram að sóttvarnaaðgerðir hafi verið hertar í byrjun nóvember 2021 og ættu styrkirnir því að ná til þess mánaðar. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 1266/2021, tók gildi um miðjan nóvember 2021. Í reglugerðinni var opnunartími veitingastaða takmarkaður og þeim ekki heimilt að hafa opið lengur en til kl. 22.00 alla daga vikunnar. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að styrktímabilið samkvæmt frumvarpinu taki mið af tímabili viðspyrnustyrkja, sem náði út nóvember 2021. Í ljósi þess að boðað hafi verið að til standi að framlengja tímabil viðspyrnustyrkja eigi þau rök ekki við með sama hætti. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og bendir á að skv. 1. gr. laga um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020, gilda lögin ekki um einstaklinga og lögaðila sem hófu starfsemi sína eftir 1. október 2020. Í umsögn 27 Mathús & Bar o.fl. kemur fram að viðspyrnustyrkir hafi ekki nýst veitingahúsum stofnuðum á árunum 2020 og 2021.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að hægt verði að sækja um styrki vegna nóvember 2021.

Viðmiðunartímabil við mat á tekjufalli (2. tölul. 4. gr.).
    Meðal skilyrða styrkja samkvæmt frumvarpinu er að tekjur rekstraraðila af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun á opnunartíma hafi verið a.m.k. 20% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og að tekjufallið megi rekja til takmörkunar á opnunartíma. Hafi rekstraraðilinn fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skuli miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til loka nóvember 2021. Þá segir að við sérstakar aðstæður megi nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að við mat á tekjufalli veitingastaða sem hófu starfsemi eftir upphaf heimsfaraldurs kórónuveiru feli ákvæðið í sér að tekjufallið taki almennt mið af tímabili þegar veitingastaðir höfðu takmarkaðar tekjur vegna sóttvarnaráðstafana. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ákvæðið útiloki að mati ráðuneytisins ekki að rekstraraðili sem hóf rekstur veitingastaðar eftir upphaf viðkomandi almanaksmánaðar árið 2019 miði tekjufall við afmarkað tímabil frá þeim tíma sem hann fékk rekstrarleyfi í stað tímabilsins alls ef hann getur fært rök fyrir því að það gefi betri mynd af tekjum hans alla jafna. Sanngirnisrök geti þó mælt með því að gera það að sjálfgefnum möguleika, í stað þess að gera rekstraraðila að sýna fram á að það tímabil gefi betri mynd af tekjufalli hans en tekjur frá upphafi rekstrar.
    Í umsögn 27 Mathús & Bar o.fl. er lagt til að heimilt verði að miða við meðaltekjur á tímabilinu 28. ágúst 2021 til 8. desember þegar takmarkaðar samkomutakmarkanir voru við lýði og tekjur því eðlilegri. Í minnisblaði ráðuneytisins er réttilega bent á að það kunni að auðvelda framkvæmd og flýta fyrir afgreiðslu umsókna að miða frekar við heila mánuði, svo sem við tímabilið september til og með nóvember 2021. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að í tilviki rekstraraðila sem hafa fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar og umsókn varðar árið 2019 skuli miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2021, eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021 ef hann fékk rekstrarleyfi eftir 1. september 2021.

Samspil styrkja við viðspyrnustyrki og lokunarstyrki (5. gr.).
    Við framlagningu frumvarpsins var ekki gert ráð fyrir framlengingu á umsóknarfresti lokunarstyrkja samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, og framhaldi viðspyrnustyrkja samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020. Nefndin hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (framhald lokunarstyrkja) (253. mál) auk þess sem ráðherra hefur boðað framhald viðspyrnustyrkja. Meiri hlutinn bendir á að ekki hefur verið gert ráð fyrir því að rekstraraðili geti notið fullra lokunarstyrkja, viðspyrnustyrkja og styrkja samkvæmt frumvarpi þessu vegna sama tímabils og er því t.d. lagt til í áðurgreindu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru að hafi rekstraraðila verið ákvarðaður styrkur samkvæmt frumvarpi þessu fyrir sama tímabil og lokunartímabil nær til dragist hann frá lokunarstyrk. Að óbreyttu yrðu því greiddir tvenns konar styrkir vegna lokunartímabils ef sótt er um lokunarstyrk á undan styrk samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að hafi rekstraraðila verið ákvarðaður viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum um viðspyrnustyrk vegna þess almanaksmánaðar sem umsókn varðar eða lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru vegna tímabils í sama mánuði og umsókn varðar dragist hann frá styrk samkvæmt lögum þessum.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við orðskýringuna „Veitingastaður“ í 7. tölul. 3. gr. bætist: og staður þar sem selt er áfengi, og eftir atvikum matur, til neyslu á staðnum sem heyrir undir rekstrarleyfi gististaðar í flokki IV skv. 3. gr. sömu laga.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „1. desember“ í 1. tölul. komi: 1. nóvember.
                  b.      Í stað orðanna „frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til loka nóvember 2021“ í 2. málsl. 2. tölul. komi: á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2021, eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021 ef hann fékk rekstrarleyfi eftir 31. ágúst 2021.
     3.      Á eftir 1. mgr. 5. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki vegna þess almanaksmánaðar sem umsókn varðar eða lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru vegna tímabils í sama mánuði og umsókn varðar dregst hann frá styrk samkvæmt lögum þessum.
            

Alþingi, 1. febrúar 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Jóhann Páll Jóhannsson. Orri Páll Jóhannsson.