Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 462  —  327. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um mat á bifreiðahlunnindum.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Hvers vegna gilda reiknireglur um hlunnindamat rafbíla aðeins ef bíllinn er hlaðinn á kostnað notanda en annars er það jafngilt hlunnindamati bíla sem nota jarðefnaeldsneyti, sbr. reiknivél á heimasíðu Skattsins?
     2.      Hvers vegna er hlunnindamatið það sama á jafn verðmætum ökutækjum samkvæmt reiknivélinni hvort sem vinnuveitandi greiðir fyrir jarðefnaeldsneyti á bíl eða kaupir á hann rafmagn?
     3.      Kosta orkugjafarnir jarðefnaeldsneyti og rafmagn jafn mikið að meðaltali miðað við sambærilegan ársakstur?
     4.      Er viðhaldskostnaður, afföll og annar rekstrarkostnaður rafbíla í hlunnindamatinu sá sami og þeirra sem nota jarðefnaeldsneyti?
     5.      Hvernig breytist hlunnindamatið ef launþegi tekur aukinn þátt í öðrum rekstrarkostnaði bifreiðarinnar?
     6.      Hvers vegna er ekki sambærilegur möguleiki í reiknivélinni til að reikna hlunnindamat greiði launþeginn fyrir jarðefnaeldsneytið úr eigin vasa?
     7.      Stenst reiknivélin þær kröfur sem gerðar eru til þess að reikna hlunnindamat til peningaverðs?


Skriflegt svar óskast.