Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 466  —  169. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta).

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að gera breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er varðar áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta en telur nauðsynlegt að tryggja einnig hagsmuni neytenda í samræmi við innihald ákvæðis 57. gr. í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga sem lagt var fram tvívegis á síðasta kjörtímabili, nánar tiltekið á 150. og 151. löggjafarþingi (209. mál).
    Í aðdraganda sölu Mílu voru umfangsmikil og nauðsynleg fjarskiptakerfi flutt frá Símanum til Mílu sem þá bættust ofan á það grunnnet fjarskipta sem Míla átti. Lóðrétt samþætting innan eins fyrirtækis er því umfangsmeiri innan Mílu nú en sést hefur á íslenskum fjarskiptamarkaði frá því að Míla var stofnuð. Frekari og umfangsmeiri slík samþætting er hugsanleg og jafnvel líkleg þar sem tvö fjarskiptafyrirtæki í landinu, Sýn og Nova, hafa þegar selt hluta sinna innviða og annað þeirra lýst opinberlega yfir áformum um frekari sölu á slíkum búnaði.
    Upplýst er að hluti sölusamnings Símans á Mílu til Ardian er 20 ára samningur um afnot Símans af kerfum Mílu. Sá samningur kann að vera þess eðlis að um lóðrétta samþættingu á markaði sé að ræða, þrátt fyrir mismunandi eignarhald á Símanum og Mílu. Þetta sjónarmið kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 3/2021 (liður 30).
    Símasamstæðan hefur starfað undir sérstökum sáttargerðum við Samkeppniseftirlitið frá árunum 2013 og 2015 vegna úrskurða, dóma og kæra vegna misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu en niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var að fyrirtæki innan samstæðunnar hefðu gerst brotleg við ákvæði samkeppnislaga. Í því ljósi og vegna þess að frekari samþjöppun á fjarskiptamarkaði er yfirvofandi telur 1. minni hluti ekki tækt, með hliðsjón af almannahagsmunum og neytendaöryggi, að bíða með að innleiða ákvæði úr frumvarpi til heildstæðra fjarskiptalaga sem lagt var fram á síðustu tveimur löggjafarþingum, er helst snerist um vernd neytenda í þessu tilliti. Þau rök ráðuneytisins, sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd, þess efnis að umrætt ákvæði skyldi heldur bíða heildarendurskoðunar enda ákvæði ekki afturvirk telur 1. minni hluti allt eins geta átt við frumvarpið í heild sinni enda hafa samningar Mílu við Ardian þegar átt sér stað og ákvæði sem verða að lögum, hvort sem er þau sem eru í framtíðarheildarendurskoðun eða því frumvarpi sem nú er til afgreiðslu, ekki afturvirk. Heildarendurskoðun fjarskiptalaga er framtíðarverk sem óvíst er hvenær kemur til kasta þings að nýju. Ágreiningur sá er varð við vinnslu frumvarpanna á síðustu tveimur þingum, varðandi önnur ákvæði en það sem 1. minni hluti ætlar nú að leggja til að bætt verði við, og kom í veg fyrir afgreiðslu heildarlaga getur hæglega átt sér stað aftur. Því er hvort tveggja óvíst hvort frumvarp til heildarlaga kemur aftur inn til þingsins sem og hvort það nái fram að ganga.
    Fyrsti minni hluti telur að skaðlegt geti verið að láta öryggi íslenskra neytenda gagnvart samþjöppun á fjarskiptamarkaði og sérstaklega lóðrétt samþættum fjarskiptafyrirtækjum sitja á hakanum nú þegar Alþingi bregst við gerbreyttum aðstæðum við þann gerning að Míla er seld úr landi.
    Heppilegast hefði verið að heildstæð fjarskiptalöggjöf hefði legið fyrir áður en tilkynnt var um sölu Símans á Mílu enda sáust merki um þá atburðarás þegar fyrir um tveimur árum. Nú þegar merki eru um enn frekari samþjöppun og samþættingu verður löggjafinn að bregðast við með aðgerðum til verndar almenningi. Viðbrögð stjórnvalda og Alþingis við orðnum hlut ættu að taka mið af þessu og í þeim ættu ekki einungis að felast tilraunir til verndar þjóðar- og fjarskiptaöryggi heldur einnig og ekki síður neytendaöryggi. Þar má og á að grípa strax í taumana hvað sem líður tímasetningu á yfirstandandi sölu á Mílu úr landi.
    Ákvæði það sem 1. minni hluti leggur til að verði bætt við var í fyrri frumvörpum til heildarlaga um fjarskipti. Er ákvæðið nýmæli og byggist á 78. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 er nefnist kóðinn. Í ákvæðinu er fjallað um tilvik þar sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk aðskilur aðgangsnet sín frá annarri starfsemi að eigin frumkvæði. Skv. 3. mgr. ákvæðisins skal Fjarskiptastofa meta áhrif aðskilnaðar ásamt öðrum skuldbindingum sem fyrirtækið kann að bjóða samhliða aðskilnaði og meta hvort ástæða er til að endurskoða kvaðir á viðkomandi markaði með tilliti til aðskilnaðarins.
    Að framansögðu virtu leggur 1. minni hluti til eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:
    Á eftir 36. gr. laganna kemur ný grein, 36. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Aðgreining lóðrétt samþætts fyrirtækis að eigin frumkvæði.

    Fjarskiptafyrirtæki sem hefur verið útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á einum eða fleiri mikilvægum mörkuðum skal upplýsa Fjarskiptastofu með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara ef það hyggst yfirfæra aðgangsnet sín eða umtalsverðan hluta þeirra til aðskilins lögaðila í annarri eigu eða stofna sérstaka rekstrareiningu í því skyni að veita öllum smásölubirgjum, þ.m.t. eigin smásöludeildum, fullkomlega jafngildan aðgang. Fyrirtæki skulu einnig upplýsa stofnunina um hvers konar breytingu sem verður á þeirri fyrirætlun ásamt lokaniðurstöðu aðskilnaðarferlisins.
    Fjarskiptafyrirtæki geta einnig boðið skuldbindingar að því er varðar aðgangsskilyrði sem gilda um net þeirra, eftir að aðskilnaðurinn kemur til framkvæmda, með það fyrir augum að tryggja skilvirkan aðgang án mismununar fyrir þriðju aðila. Boð um skuldbindingu skal innihalda nægilegar upplýsingar, þ.m.t. varðandi tímasetningu og tímalengd.
    Fjarskiptastofa skal meta áhrifin af fyrirhugaðri aðgreiningu ásamt skuldbindingunum sem boðnar eru, eftir atvikum, á þær kvaðir sem kunna að gilda á viðkomandi markaði. Í þeim tilgangi skal gera greiningu á þeim mörkuðum sem tengjast viðkomandi aðgangsneti.
    Á grundvelli mats síns skal Fjarskiptastofa leggja á, viðhalda, breyta eða afturkalla kvaðir á viðkomandi markaði. Stofnunin getur ákveðið að gera skuldbindingarnar bindandi í heild sinni eða að hluta. Fjarskiptastofa skal fylgjast með framkvæmd þeirra skuldbindinga sem gerðar eru bindandi og skal taka til athugunar framlengingu þeirra þegar tímabilið sem þær eru upphaflega boðnar á er runnið út.

Alþingi, 7. febrúar 2022.

Helga Vala Helgadóttir,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.