Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 495  —  242. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um kolefnisjöfnun Landgræðslunnar.


     1.      Hverjar eru tekjur Landgræðslunnar af samstarfi sínu við Olís um kolefnisjöfnun eldsneytiskaupa viðskiptavina og hvert er umfangið í mældri kolefnisbindingu?
    Árið 2019 skrifuðu Landgræðslan og Olíuverzlun Íslands ehf. (Olís) undir samstarfssamning um landgræðsluaðgerðir sem myndu meðal annars stuðla að auknum loftslagsávinningi. Markmið Olís með samningunum er að kolefnisjafna hluta af rekstri fyrirtækisins og þeirra viðskiptavina sem það kjósa. Með samningnum jókst framkvæmdageta Landgræðslunnar sem nam árlegu framlagi Olís. Skýrt er að sú binding á koltvísýringi er ekki vottuð og kolefniseiningar ekki framseljanlegar, heldur telja aðeins inn í loftslagsbókhald Íslands, eins og aðrar aðgerðir Landgræðslunnar og samstarfsaðila. Endanlegar tekjur Landgræðslunnar vegna samninga við Olís vegna framkvæmda á árinu 2021 liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað en áætla má að þær verði um 12 millj. kr. Þetta framlag greiðir að fullu kostnað við endurheimt vistkerfa á 90 hekturum lands. Framreiknuð kolefnisbinding miðað við áætlaða árlega meðalbindingu koltvísýrings upp á 2,1 t/ha og 50 ára bindilotu yrði því um 9.450 tonn koltvísýrings, auk annars ávinnings, svo sem stöðvunar jarðvegs- og gróðureyðingar, bættrar vatnsmiðlunar, styrkingar líffræðilegs fjölbreytileika og aukinna notkunarmöguleika landsins.

     2.      Er Landgræðslan að selja kolefnisbindingu til Olís og fleiri fyrirtækja eða aðila og ef svo er, til hverra og hvert er heildarumfang stofnunarinnar með tilliti til tekna og magns bindingar?
     Landgræðslan selur ekki kolefnisbindingu. Hins vegar hefur, líkt og í tilviki Olís, í nokkrum tilvikum verið samið um framlag fyrirtækja til endurheimtar vistkerfa þar sem hluti ávinningsins er binding kolefnis úr andrúmslofti.

     3.      Er bindingin vottuð og ef svo er, eftir hvaða stöðlum?
    Landgræðslan selur ekki kolefniseiningar og því ekki um vottun á einingum að ræða. Hins vegar fylgir endurheimt vistkerfa loftslagsávinningur sem er talinn fram árlega í loftslagsbókhaldi Íslands (e. National Inventory Report). Landgræðslan rekur kerfi mælireita á landgræðslusvæðum þar sem kolefni er mælt í jarðvegi og gróðri.

     4.      Á hvaða formi er þessi binding?
    Endurheimt vistkerfa leiðir meðal annars af sér bindingu koltvísýrings úr andrúmslofti, í jarðvegi og fjölbreyttum gróðursamfélögum og er í samræmi við markmið um náttúruvernd.

     5.      Hversu mikið land er Landgræðslan að taka undir þessa bindingu og hvar fer hún fram? Svar óskast með kortlagningu.
    Svæði sem samið hefur verið sérstaklega um eru á Suður- og Norðurlandi. Um er að ræða svæði í nágrenni Gunnarsholts og svæði á Hólasandi. Yfirlit yfir staðsetningu og stærð svæða má sjá á meðfylgjandi korti.
    Landgræðslan hefur einnig gert tvo samninga við Kolvið, alls 397 ha land á Geitasandi við Gunnarsholt. Kolviður selur afkolun til almennings og fyrirtækja á því landi og kostar alla ræktun og umhirðu skógarins. Landgræðslan skal tryggja að landið sé friðað fyrir búfjárbeit á samningstímanum. Samningarnir gilda til 2060 og að samningstíma loknum eignast ríkissjóður skóginn.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     6.      Er allt land sem nýtt er til þessarar bindingar í eigu ríkisins? Ef ekki, hverjir eru aðrir landeigendur?
    Allt land sem samið hefur verið um er í eigu opinberra aðila og í umsjá Landgræðslunnar. Allir samningar þar sem landi er ráðstafað sérstaklega til slíkra nota eru staðfestir af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

     7.      Stendur stofnunin sjálf allan straum af kostnaði við bindinguna eða er einhver hluti þessarar bindingar unninn í samvinnu við aðra aðila? Ef svo er, hvaða aðilar eru það og með hvaða hætti hafa þeir aðkomu að þeim verkefnum?
    Í þeim verkefnum sem stofnunin hefur tekið að sér er allur kostnaður greiddur af samstarfsaðilum sem hingað til hafa verið Landsvirkjun, Olís og Mountaineers of Iceland. Viðkomandi samstarfsaðilar fjármagna verkefni við endurheimt vistkerfa án skuldbindingar um vottun á kolefniseiningum af hálfu Landgræðslunnar. Sé um afmörkuð svæði að ræða ber samstarfsaðili ábyrgð og allan kostnað af vottun kolefniseininga, komi til þess. Verkefni Mountaineers of Iceland er unnið á landi í eigu sveitarfélags.
    Eitt af þeim verkefnum sem nú liggja fyrir er að flýta því að koma á markaði með vottuðum innlendum kolefniseiningum sem stuðla að bindingu með endurheimt íslenskra vistkerfa og í samræmi við náttúruvernd og verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Umtalsverður fjöldi fyrirtækja hefur sóst eftir því að nýta sér vottaðar kolefniseiningar sem fengnar eru með endurheimt íslenskra vistkerfa, í stað þess að kaupa þær á erlendum mörkuðum. Komist innlendur markaður og vottun á fót þá getur það leitt til aukins umfangs endurheimtar vistkerfa, stutt enn frekar við markmið Íslands í loftslagsmálum og stuðlað að því að fjármagn til kolefnisbindingar nýtist hér á landi.