Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 526  —  221. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um Geimvísindastofnun Evrópu.


     1.      Hvaða fundir eða önnur samskipti hefur ráðuneytið átt við Geimvísindastofnun Evrópu frá því að málið var sett í hendur ráðuneytisins 7. apríl 2020, sbr. svar í 557. máli 151. löggjafarþings (þskj. 1293)?
    Fulltrúar Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) áttu fundi með ýmsum fulltrúum íslenskra stjórnvalda á haustmánuðum 2020, þar með talið með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og símafund með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í framhaldi af þessum fundum áttu fulltrúar ESA og íslenskra stjórnvalda í óformlegum samskiptum fram að upplýsingafundi sem fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis áttu með þremur fulltrúum af skrifstofu ytri tengsla hjá ESA 10. febrúar 2021. Á þeim fundi gerðu fulltrúar ESA grein fyrir samstarfsmöguleikum íslenskra stjórnvalda við ESA. Í framhaldi af þessum upplýsingafundi fóru fram tölvupóstsamskipti milli fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis og ESA þar sem kallað var eftir frekari upplýsingum um íslenska vísindamenn og rannsóknastofnanir sem hafa tekið þátt í verkefnum á vettvangi ESA, auk þess sem óskað var upplýsinga um kostnað Íslands af mögulegum samstarfssamningi við ESA, og hugsanlegri aðild að stofnuninni síðar.
    Auk funda með sérfræðingum ESA hefur verið haft samráð við Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem hafði m.a. umsjón með þátttöku Íslands í geimáætlun Evrópusambandsins. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis hittu fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis á fundi 16. apríl 2021 þar sem fjallað var um mögulegan ávinning af samstarfi íslenskra stjórnvalda við ESA, m.a. á sviði fjarkönnunar sem fellur undir málefnasvið nokkurra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Þá hafa fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis átt samtöl við og kynnt sér greiningar Auðnu tæknitorgs, Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar og Geimvísindastofnunar Íslands um málið.

     2.      Hvaða skref hafa verið tekin varðandi viðræður um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu frá 7. apríl 2020?
    Framangreind samskipti við ESA hafa miðast við gerð mögulegs samstarfssamnings við stofnunina. Á fundum með fulltrúum stofnunarinnar hefur m.a. komið fram að ferlið við fulla aðild Íslands að ESA getur tekið um 10 ár. Þá er mikill kostnaður við fulla aðild. ESA hefur því lagt til sem fyrsta skref að unnið verði að gerð samstarfssamnings sem getur tekið um eitt ár og felur ekki í sér kostnað fyrir íslensk stjórnvöld. ESA tekur þátt í ýmsum verkefnum sem eru fjármögnuð af rannsóknaráætlunum Evrópusambandsins, Horizon Europe, ásamt öðrum evrópskum tæknifyrirtækjum. Í tengslum við gerð samstarfssamnings þurfa íslensk stjórnvöld að velja eitt eða fleiri af sex samstarfssviðum sem eru eftirfarandi: Geimferðir, fjarkönnun, geimflutningar, siglingar, vöktun jarðar og fjarskipti. Þá eru töluverð tengsl á milli starfsemi stofnunarinnar og ýmissa samstarfsáætlana Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í eins og European Space Programme og Horizon Europe. Þar sem samstarf og hugsanleg aðild að ESA snertir málefnasvið nokkurra ráðuneyta er mikilvægt að tryggja frekara samstarf og samhæfingu innan Stjórnarráðsins á þessu sviði.

     3.      Hver eru næstu skref ráðuneytisins varðandi aðildarviðræður og hvenær má áætla að hvert þeirra verði tekið?
    Í apríl 2020 óskaði utanríkisráðuneytið eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneyti tæki við forystu í samskiptum íslenskra stjórnvalda við ESA þar sem starfsemi stofnunarinnar var talin vera á sviði vísinda, menntamála og rannsókna. Í þessu fólst að eins konar forvinna um mat á mögulegum framtíðarsamskiptum Íslands við ESA og vinna að mögulegum samstarfssamningi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti skyldi þannig annast áfram samráð innan Stjórnarráðsins um mögulegt samstarf við ESA.
    Í samræmi við framangreint er talið óraunhæft á þessu stigi að stefna að aðild Íslands að ESA þar sem hún er mjög kostnaðarsöm, bæði hvað varðar fjármuni og mannafla innan stjórnsýslunnar og vísindasamfélagsins, auk þess sem ekki liggur fyrir nægileg greining á skýrum hagsmunum og ávinningi Íslands af fullri aðild. Ef gerður verður samstarfssamningur við ESA sem reynist hagfelldur fyrir Ísland fæst dýrmæt reynsla til að leggja mat á fýsileika fullrar aðildar síðar. Komi þá til aðildarviðræðna er gert ráð fyrir að utanríkisráðuneyti leiði þær, enda fer utanríkisráðuneyti með aðild Íslands að alþjóðastofnunum og -samtökum.

     4.      Hvenær er áætlað að aðildarviðræður geti hafist?
    Samkvæmt framansögðu þarf að fara fram frekari greining á ávinningi og tilkostnaði af samstarfi við ESA áður tekin verður ákvörðun um aðild Íslands að ESA.

     5.      Hver er afstaða ráðherra til mögulegrar aðildar?
    Eins og rakið er að framan hafa fulltrúar ESA átt kynningarfundi um ýmsa kosti samstarfs á vettvangi stofnunarinnar en þar sem faglegur ávinningur af fullri aðild Íslands að ESA hefur ekki verið metinn þykir ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi við þá leið. Vinna þarf frekari greiningu á ávinningi af samstarfi við ESA og huga að tilnefningu tengiliðar íslenskra stjórnvalda við stofnunina vegna hugsanlegs samstarfssamnings. Mikilvægt er að öll hlutaðeigandi ráðuneyti komi sameiginlega að undirbúningi slíks samstarfs. auk þátttöku Rannís sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna við þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Þar sem samstarfssamningur yrði mögulega fyrsta skref að fullri aðild að stofnuninni er mikilvægt að utanríkisráðuneyti sé upplýst um þau skref sem verða tekin.
    Að öðru leyti er vísað til svars mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn um sama efni á þingskjali 1357 á 151. löggjafarþingi 2020–2021 og svars utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn um sama efni á þingskjali 1293 á 151. löggjafarþingi 2020–2021.