Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 553  —  257. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um starfshópa samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær skipaði ráðherra sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna, sbr. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði? Hver eiga sæti í nefndinni? Hversu mörg mál hafa borist nefndinni til afgreiðslu?
     2.      Hvað líður störfum starfshóps um endurskoðun 11. gr. a laga um kynrænt sjálfræði, sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða átti að skipa innan þriggja ára frá gildistöku? Hvenær er búist við að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra að mögulegum úrbótum í þágu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni?
     3.      Hvenær skipaði ráðherra teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sbr. 13. gr. a laganna? Hver eiga sæti í teyminu og hvenær tók það til starfa? Hefur það sett sér verklagsreglur? Hversu mörg mál hefur það tekið til afgreiðslu?


1.
    Forsætisráðherra skipaði sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna, sbr. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, hinn 14. október 2019. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn en hlutverk hennar er að fjalla um ósk barns um breytingu á skráðu kyni sínu ef það nýtur ekki stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, til að breyta opinberri skráningu kyns síns, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.
    Í nefndinni eru:
    Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands.
    Elísabet Gísladóttir, tilnefnd af dómsmálaráðherra.
    Ragnar Bjarnason, tilnefndur af embætti landlæknis.
    Varamenn eru Svanhildur Þorbjörnsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðherra, Soffía Guðrún Jónasdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis og Guðrún Häsler, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands.
    Nefndin hefur fundað einu sinni en engin mál hafa borist henni til afgreiðslu.

2.
    Með breytingu á lögum nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, sbr. lög nr. 154/2020, var í 11. gr. a lögfest nýtt ákvæði um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Þá var jafnframt sett ákvæði til bráðabirgða í lög um kynrænt sjálfræði þess efnis að innan þriggja ára frá gildistöku 11. gr. a skyldi ráðherra skipa starfshóp til að endurskoða ákvæðið með hliðsjón af fenginni reynslu og þróun rannsókna og þekkingar og bestu framkvæmd á sviði mannréttinda.
    Lög nr. 154/2020 tóku gildi 29. desember 2020. Samkvæmt framangreindu skal ráðherra skipa starfshópinn eigi síðar en 29. desember 2023. Starfshópurinn hefur ekki verið skipaður.

3.
    Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laga um kynrænt sjálfræði er það ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu sem skipar teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu hefur nefndin ekki verið skipuð en málið er í vinnslu. Standa vonir forsætisráðherra til þess að lokið verði við að skipa teymið hið fyrsta svo tryggja megi einstaklingum þá meðferð og stuðning sem þörf er á til samræmis við ákvæðið. Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um störf nefndarinnar ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til heilbrigðisráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.