Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 555  —  273. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um einstaklinga sem leitað hafa eftir geðþjónustu.


     1.      Hversu mörg hafa leitað til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna geðsjúkdóma eða geðvandamála undanfarin fimm ár? Hversu mörg þeirra voru lögð inn, hversu mörg hlutu göngudeildarþjónustu, hversu mörg fengu ávísað lyfjum og hversu mörgum var vísað frá? Hversu mörg þeirra sem vísað var frá höfðu áður leitað þjónustu geðdeildar? Svar óskast sundurliðað eftir sjúkrastofnun.
Landspítali.
    Í töflunni hér á eftir má sjá upplýsingar um heildarfjölda einstaklinga sem leitað hafa til Landspítala eftir geðheilbrigðisþjónustu á dag-, göngu- eða bráðadeildum (ferliþjónusta) annars vegar og á legudeildum hins vegar á tímabilinu 2017–2021. Í síðasta dálki sést heildarfjöldi koma og lega hvert ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt skráningu í sjúkraskrárkerfi Landspítala er árlegur fjöldi einstaklinga sem fær þjónustu á spítalanum vegna geðvanda og eiga skráðan lyfseðil um 2.500. Þessi tala endurspeglar ekki réttan heildarfjölda þeirra sem fá ávísað lyfjum því einungis er um að ræða samtölu þeirra einstaklinga sem eru með skráða ávísun hjá spítalanum.
    Gagnagrunnar spítalans bjóða ekki sem stendur upp á að taka út heildarfjölda frávísana. Að sama skapi reyndist ekki unnt að rýna hversu margir af þeim einstaklingum sem vísað var frá höfðu áður leitað þjónustu geðdeildar. Unnið er að breyttri skráningu til að gera þetta mögulegt í framtíðinni.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Á fimm ára tímabilinu 2017–2021 voru 982 einstaklingar lagðir inn og voru innlagnir samtals 1.399 á tímabilinu. Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig skiptingin er á tímabilinu:

Ár Heildarfjöldi innlagðra einstaklinga Fjöldi innlagna
2017 199 282
2018 203 311
2019 203 272
2020 182 261
2021 197 273

    Fjöldi einstaklinga sem fengu þjónustu í dag- og göngudeild á umbeðnu fimm ára tímabili var alls 3.288 og voru 1.638 þeirra með fleira en eitt meðferðarferli. Fjöldi þeirra sem átti einungis eitt meðferðarferli á tímabilinu var 1.600. Komur í dag- og göngudeildarþjónustu á tímabilinu voru alls 27.801. Í eftirfarandi töflu má sjá sundurliðun fjölda einstaklinga og koma á umbeðnu fimm ára tímabili:

Ár Heildarfjöldi einstaklinga sem fá þjónustu í dag- og göngudeild Heildarfjöldi koma á dag- og göngudeild
2017 710 5.698
2018 670 5.632
2019 655 5.867
2020 502 4.608
2021 701 5.996

    Nánast allir sem fá þjónustu í dag-, göngu- eða legudeild sjúkrahússins vegna geðvanda fá einhver geðlyf af eftirfarandi fimm flokkum geðlyfja: geðrofslyf, þunglyndislyf, kvíðastillandi, róandi lyf og svefnlyf, jafnvægislyf eða lyf við ADHD-vanda.
    Beiðni um geðheilbrigðisþjónustu í göngudeild er stofnuð um leið og tilvísun berst. Tilvísanir berast aðallega frá heimilislæknum, öðrum einingum sjúkrahússins eða frá öðrum þjónustukerfum, svo sem VIRK eða félagsþjónustu. Beiðnum um þjónustu er vísað frá ef einstaklingur er ekki talinn tilheyra markhópi göngudeildar. Frá árinu 2016 hefur 676 einstaklingum verið vísað frá af inntökuteymi göngudeildar. Af þeim voru 503 einstaklingar sem metnir voru í þörf fyrir þjónustu á lægra þjónustustigi, 133 afþökkuðu innköllun að eigin ósk eftir að inntökuteymi samþykkti tilvísun, 15 einstaklingar mættu ekki í boðað forviðtal eftir að hafa fengið bókaðan tíma, 23 einstaklingar svöruðu ekki innköllun þrátt fyrir upphringingu og boðun með bréfi og 2 einstaklingar létust áður en til innköllunar á göngudeild kom.

     2.      Hversu mörg þeirra sem leituðu til geðdeildar undanfarin fimm ár tóku eigið líf á 12 mánaða tímabili eftir að þau leituðu til geðdeildar? Hversu mörg þeirra höfðu verið lögð inn, hversu mörg hlutu göngudeildarþjónustu, hversu mörg fengu ávísað lyfjum og hversu mörgum var vísað frá? Hversu mörg þeirra sem vísað var frá höfðu áður leitað þjónustu geðdeilda?
Landspítali.
    Embætti landlæknis heldur dánarmeinaskrá og ekki er um að ræða samkeyrslu þeirrar skrár við sjúkraskrárkerfi eða aðra gagnagrunna spítalans.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Ekki hefur verið haldin sérstök skráning um sjálfsvíg hjá skjólstæðingum geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Vísað er til dánarmeinaskrár embættis landlæknis.

     3.      Hver var meðallengd innlagnar þeirra einstaklinga sem vísað er til í 1. og 2. tölul.?
Landspítali.
    Í eftirfarandi töflu má sjá meðallengd innlagna á legudeildir geðþjónustu spítalans á umbeðnu fimm ára tímabili:

Ár Innlagnir í geðþjónustu (allar)
– meðallegutími (dagar)
2017 17,7
2018 16,1
2019 18,5
2020 17,7
2021 15,4

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Í eftirfarandi töflu má sjá meðallengd innlagna á legudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri á umbeðnu fimm ára tímabili:

Ár

Meðallengd innlagna á legudeild geðdeildar SAk
– meðallegutími (dagar)

2017
10,1
2018 8,9
2019 11,4
2020 10,2
2021 9,7

     4.      Hversu mörg á mánuði leituðu að meðaltali til bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans sl. 5 ár?
    Í eftirfarandi töflu má sjá meðalfjölda koma á mánuði á bráðamóttöku geðdeildar yfir umbeðið fimm ára tímabil:

Ár Komur á bráðamóttöku geðdeildar
– meðalfjöldi á mánuði
2017 390
2018 373
2019 353
2020 335
2021 360

     5.      Hversu mörg á mánuði leituðu að meðaltali til bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi utan opnunartíma bráðamóttöku geðdeildar sl. fimm ár?
    Í meðfylgjandi töflu má sjá meðalfjölda koma á mánuði vegna geðvanda á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi utan opnunartíma bráðamóttöku geðdeildar:

Ár Komur v. geðvanda á bráðamóttöku Fossvogs utan opnunartíma BMT geð – meðalfjöldi á mánuði
2017 106
2018 89
2019 89
2020 105
2021 92