Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 600  —  308. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um byggðarlög í grennd við eldvirk svæði á Suðurnesjum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að undirbúa vörn fyrir Grindavík, Voga á Vatnsleysuströnd, Hafnarfjörð eða önnur byggðarlög í grennd við eldvirk svæði á Suðurnesjum í ljósi þess að líkur eru á aukinni eldvirkni á svæðinu?

    Í tilefni af framangreindri þingfyrirspurn kallaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Í byrjun mars 2021 tók til starfa vinnuhópur um varnir mikilvægra innviða í kjölfar jarðhræringa á Suðurnesjum. Hópurinn var skipaður fulltrúum frá Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og verkfræðistofunum EFLU og Verkís. Þegar vinnuhópurinn tók til starfa var jarðskjálftahrina í gangi en eldgos ekki hafið. Vinnuhópurinn hófst handa við eftirfarandi:
     1.      Meta líklegar og óheppilegar sprungur sem gosið gæti á ef jarðskjálftahrinu myndi ljúka með eldgosi.
     2.      Herma hraunflæði í tölvulíkani frá þeim sprungum sem voru líklegar miðað við þær jarðhræringar sem voru í gangi.
     3.      Greina innviði og byggð á svæðinu.
     4.      Frumhanna varnargarða og afla upplýsinga um reynslu af slíkum görðum víðs vegar úr heiminum.
     5.      Kanna aðgengilegar efnisnámur í viðráðanlegri fjarlægð.
     6.      Afla upplýsinga um aðgengileg tæki til framkvæmda.
    Þegar liðir 1–3 lágu fyrir var unnt að leggja mat á hvar hraun gæti runnið að/yfir byggð og innviði. Í kjölfarið var unnið að frumútfærslu varnargarða með áherslu á Grindavík og Svartsengi þar sem nálægð við umbrotasvæði og landlega benti til þess að huga þyrfti tímanlega að aðgerðum til verndar þessum svæðum. Vogar liggja fjær auk þess sem landhalli er minni í þá átt og nokkrir hraunpollar myndu myndast á leið hrauns sem rynni þangað og tefja það. Því er talið að mun meiri tími verði til ráðstöfunar komi til þess að grípa þurfi til varna þar.
    Þegar gos hófst lá fyrir forhönnun varna fyrir Grindavík og Voga. Hönnunin var þó á frumstigi og þyrfti nánari útfærslur, greiningar og í framhaldi fullnaðarhönnun á þeim vörnum. Einnig var búið að herma hraunrennsli frá fleiri sprungum nær höfuðborgarsvæðinu en meðal annars var hraunflæði til Hafnarfjarðar hermt. Ekki var búið að herma frá öllum kerfum sem líta þarf til, til dæmis var eftir að skoða óheppilega staðsetta jarðelda á Brennisteinsfjallakerfinu og í Hengli. Vinna við frumhönnun varnargarða á þessum svæðum var ekki hafin.
    Eftir að gjósa tók í Fagradalsfjalli var hraunrennsli einnig hermt þaðan. Þeir garðar sem voru reistir veita mikilvægar upplýsingar sem munu nýtast við frekari skoðun varna á Reykjanesi, bæði í þessu gosi og síðari gosum. Samspil garða og hraunflæðis var skráð og mælibúnaði var komið fyrir í varnargarði við enda Nátthaga. Ef gosið hefði haldið áfram hefðu upplýsingar frá þessum mælibúnaði nýst við frekari hönnun varna nærri byggð annars staðar á Reykjanesi og við gerð annarra garða vegna gossins. Þó fengust nokkrar upplýsingar, m.a. þegar hraun flæddi yfir ljósleiðara og hægt var að mæla áhrif.
    Leiðigarður við Stórhól var fyrsta varnarstaða vegna eldgoss í Fagradalsfjalli fyrir Grindavík. Þar var litið til lengri tíma og hugað að því að tefja eins og hægt væri hraunflæði til vesturs. Næstu varnarstaðir voru skoðaðir og metnir ýmsir þætti sem gætu haft áhrif á staðsetningaval.
    Auk þess að líta til varna fyrir byggð vann hópurinn drög að mögulegum vörnum lagna ofan- og neðanjarðar í þeim tilgangi að minnka líkur á skemmdum eða lágmarka þær, ásamt því að auka líkur á að veitur haldist sem lengst rekstrarhæfar. Byggt á núverandi upplýsingum er ekki talið hægt að tryggja rekstrarhæfi. Af þeim sökum hafa verið settar fram tillögur að skoðun á nýjum lagnaleiðum og möguleikum á fleiri byrgjum/uppsprettum heits og kalds vatns í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi komi til þess að núverandi aðveitur skemmist vegna jarðelda. Sömu atriði hafa einnig verið skoðuð varðandi raforkuflutningskerfið á svæðinu.
    Verkfræðistofan Verkís annast verkefnastjórn fyrir hönd almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Nú er beðið eftir lokaskýrslu Verkís. Þegar skýrslan liggur fyrir verður unnt að kalla saman hagaðila til kynningar á stöðu mála og í framhaldi munu viðeigandi stjórnvöld taka ákvarðanir um framhaldið.