Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 616  —  326. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um aukinn fjölda tilkynntra brota gegn börnum á tímum COVID-19.


     1.      Hvernig ætlar ráðherra að bregðast við niðurstöðu nýrrar skýrslu Barnaverndarstofu þar sem fram kemur að tilkynningum til barnaverndarnefnda um brot gegn börnum á árunum 2020–2021 hafi fjölgað um tæp 17% milli ára?
    Frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hefur verið fylgst með þróun tilkynninga til barnaverndarnefnda og metið með reglubundnum hætti hvernig unnt sé að bregðast við. Alþingi veitti viðbótarfjármagn til reksturs Barnahúss árin 2020 og 2021 til að styrkja og efla starfsemina svo að tryggja mætti hraðari málsmeðferð og aukinn stuðning við börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og fjölskyldur þeirra.
    Haustið 2020 var bætt við einu viðbótarstöðugildi hjá Barnahúsi og árið 2021 voru gerðir samningar við sjálfstætt starfandi sálfræðinga hjá Domus Mentis um að taka að sér börn í meðferð. Sálfræðingar í verktöku voru fengnir til að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir hópa til að taka við þeim börnum sem voru að ljúka einstaklingsmeðferð svo að sérfræðingar Barnahúss gætu tekið nýja skjólstæðinga fyrr inn og stytt þar með biðlistann.
    Í byrjun árs 2022 var ákveðið að ráða í eitt stöðugildi sálfræðings til viðbótar og þar með hefur sérfræðingum Barnahúss verið fjölgað varanlega. Einnig hefur náðst samningur við fyrrverandi sérfræðing Barnahúss sem er í doktorsnámi um að sinna áfallameðferð fyrir börn í 40% starfi.
    Því miður hefur reynst erfitt að finna sérfræðinga sem hafa tilskilda sérþekkingu í áfallameðferð barna. Barnaverndarstofa, nú Barna- og fjölskyldustofa, hefur lagt áherslu á að velja vel hæfa sérfræðinga til starfa í Barnahúsi í ljósi þess að um er að ræða viðkvæman málaflokk sem krefst sérþekkingar.
    Sérfræðingar Barnahúss eru nú að ljúka CFTSI-áfallameðferðarnálgun sem felur í sér stutta áfallamiðaða meðferð sem gæti þjónustað börn sem hafa ekki fjölþættan vanda og þurfa á skemmri meðferð að halda en börn með langa áfallasögu. Með þessari nálgun ætti að vera unnt að veita fleiri börnum þjónustu á ársgrundvelli.
    Þá hafa vinnuferlar innan Barnahúss verið endurskoðaðir og farið var í LEAN-þjálfun til að auka skilvirkni. Nýir ferlar með straumlínustjórnun og tæknilausnum hafa aukið skilvirkni starfa sérfræðinga í Barnahúsi og gert það að verkum að hægt hefur verið að fjölga viðtölum við börn.

     2.      Greip ráðherra til einhverra aðgerða í þágu barna eftir að heimsfaraldur COVID-19 brast á í upphafi árs 2020 til að mæta víðtækum afleiðingum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda á börn? Ef svo er, skiluðu þær aðgerðir árangri að mati ráðherra?
    Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að draga úr áhrifum COVID-19 á börn, þ.m.t. úr áhrifum sóttvarnaaðgerða, og ætlunin er að halda áfram markvissum stuðningi við börn og ungmenni og horfa sérstaklega til barna í viðkvæmri stöðu. Grundvöllur aðgerðanna hefur m.a. byggst á reynslu annarra ríkja, ráðleggingum og viðmiðum alþjóðlegra stofnana, m.a. Sameinuðu þjóðanna, sem hafa undirstrikað mikilvægi þess að stjórnvöld beini aðgerðum sínum sérstaklega að því að halda skólastofnunum opnum, að bregðast við mögulegri aukningu ofbeldis, og vanrækslu, félagslegri einangrun og brottfalli barna og ungmenna úr námi.
    Aðgerðunum má skipta í fimm flokka:
     1.      Virkni nemenda í námi og íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi.
     2.      Aðgerðir gegn ofbeldi.
     3.      Félagslegar aðgerðir fyrir börn í viðkvæmri stöðu.
     4.      Fjárstuðningur vegna framfærslu barna.
     5.      Stuðningur við frjáls félagasamtök sem þjónusta börn og ungmenni.
     6.      Mælaborð um farsæld barna.
    Frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hefur verið lögð rík áhersla á að fylgjast með áhrifum faraldursins á framkvæmd skólastarfs, velferð barna og ungmenna og virkni þeirra, ekki síst barna í viðkvæmri stöðu, í þeim tilgangi að bregðast við með mótvægisaðgerðum og stuðningi við nemendur og meta reglulega áhrif faraldursins til skemmri og lengri tíma. Áhersla hefur ávallt verið lögð á að halda skólastarfi á öllum skólastigum eins eðlilegu og unnt er og má benda á að það hefur gengið mun betur hér á landi en í mörgum nágrannaríkjum okkar þann tíma sem heimsfaraldur hefur herjað á íslenskt samfélag. Um hefur verið að ræða samstarf bæði innan lands og á alþjóðavísu. Fjölbreytilegum gögnum og upplýsingum hefur verið safnað um áhrif faraldursins á daglegt líf barna og ungmenna, innan sem utan skóla. Gögnum og upplýsingum um áhrif faraldursins hefur verið safnað í tengslum við sérstök verkefni og jafnframt hefur ýmis söfnun gagna og upplýsinga, sem er viðvarandi og ætlað að standa lengi yfir, verið nýtt til að leggja mat á áhrif faraldursins á börn og ungmenni. Um samfellt samstarf hefur verið að ræða allt frá mars 2020 í kjölfar þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandi á heimsvísu og hættustig almannavarna var virkjað hér á landi í lok febrúar það ár. Þá var settur á fót samráðshópur lykilaðila í menntakerfinu sem í sátu m.a. fulltrúar frá öllum skólastigum og skólagerðum, og fulltrúar nemenda, foreldra og íþrótta- og æskulýðsstarfs sem ráðherra fundaði með reglulega vorið 2020. Einnig fóru fram fundir í afmarkaðri hópum þar sem úrlausnarefni tiltekinna skólastiga voru rædd sérstaklega. Viðbragðs- og uppbyggingarteymi um menntun og velferð barna og þjónustu við viðkvæma hópa hafa verið starfandi innan bæði mennta- og menningarmálaráðuneytis, nú mennta- og barnamálaráðuneytis, og félagsmálaráðuneytis, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
    Í upphafi faraldursins var í samstarfi við dómsmálaráðuneyti skipað aðgerðateymi um stýringu og samræmingu aðgerða gegn ofbeldi á tímum COVID-19. Fyrir tilstilli teymisins hafa verið útfærðar og framkvæmdar fjölmargar tillögur og aðgerðir í samvinnu við hlutaðeigandi aðila sem miðast að því að fyrirbyggja ofbeldi eða aðstoða þolendur þess.
    Meðal þeirra fjölmörgu verkefna sem ráðist hefur verið í og tengjast ofbeldi má nefna áðurnefnda eflingu Barnahúss, stuðning og meðferð fyrir gerendur ofbeldis, tilkomu nýrrar rafrænnar gáttar Neyðarlínunnar sem nefnist „Segðu frá“, upplýsingatorg um ofbeldi, styrki til frjálsra félagasamtaka á borð við Barnaheill, Samfés o.fl. og loks verkefni í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti sem miðast að því að auka foreldrafærni og draga úr líkum á vanrækslu barna og ungmenna. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, var efldur strax í upphafi faraldursins og tengdur enn frekar við fagaðila og félagasamtök um land allt.
    Meðal félagslegra aðgerða fyrir börn sem búið hafa við erfiðar félagslegar aðstæður má nefna styrki til sveitarfélaga vegna félagsstarfs fyrir börn í viðkvæmri stöðu sumarið 2020 og 2022 og aukinn stuðning við ART-verkefnið sem er fyrir börn og ungmenni sem glíma við tilfinninga- og hegðunarvanda. Samningur var gerður við SÁÁ um að veita börnum sem búa við vímuefnavanda aðstandenda aðgang að sálfræðiþjónustu samtakanna og jafnframt voru Samtökin ’78 styrkt í þeim tilgangi að gera þau enn betur í stakk búin til að veita skjólstæðingum sínum stuðning og ráðgjöf með sérstakri áherslu á börn, ungmenni og aðstandendur þeirra á tímum COVID-19.
    Til að styrkja stöðu barna af erlendum uppruna var ráðist í aðgerðir á borð við samstarf við Móðurmál – samtök um tvítyngi um fjarkennslu á móðurmáli og einstaklingsbundna aðstoð við heimanám fyrir nemendur af erlendum uppruna á meðan takmörkun var á skólastarfi. Sett var af stað virkniúrræði til handa ungmennum á aldrinum 18–25 ára af erlendum uppruna sem voru hvorki í námi né vinnu. Veittur var sérstakur stuðningur við fjölskyldur af erlendum uppruna sem nýta þjónustu og úrræði á vegum Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Í janúar 2021 tók til starfa ráðgjafarstofa innflytjenda sem jók til muna aðgengi þeirra að hvers kyns þjónustu sem í boði er fyrir börn og ungmenni í íslensku samfélagi.
    Gripið var til fjölda félagslegra aðgerða sem beindust sérstaklega að stöðu fatlaðra barna árin 2020 og 2021. Lutu þær aðgerðir að því að rjúfa þá miklu einangrun sem sá hópur hefur þurft að sæta í samkomutakmörkunum. Meðal aðgerða má nefna sumarbúðir og ævintýranámskeið fyrir börn og fjölskyldur, liðveislutíma í Reykjadal, helgarfrí fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra, átak vegna biðlista á Ráðgjafar- og greiningarstöð og forvarnanámskeið gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir ungmenni á aldrinum 15–20 ára með frávik í taugaþroska.
    Ýmis fjárstuðningur hefur verið í boði fyrir foreldra með börn á framfæri sem sérstaklega var gripið til vegna áhrifa faraldursins. Þar má helst nefna stuðning við íþrótta- og tómstundastarf barna af tekjulágum heimilum, umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, styrki vegna matarúthlutana og stuðning við einstæða foreldra sem glíma við félagslegan vanda. Auk framangreinds má nefna þrjá framfærsluauka vegna barna á tímum COVID-19 sem tengjast hækkun greiðslna vegna framfærsluskyldu barna atvinnuleitenda og sérstakan barnabótaauka auk þess sem skerðingarmörk barnabóta voru hækkuð frá og með 1. janúar 2021.
    Frá ársbyrjun 2022 hefur verið starfandi sérstakt vöktunarteymi um skóla- og frístundastarf og sóttvarnaráðstafanir á forræði mennta- og barnamálaráðherra sem fundað hefur daglega, farið yfir álitaefni sem uppi eru á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og velferðarþjónustu barna, svarað fyrirspurnum úr skólasamfélaginu og fundið málum farveg lausna. Stofnað var netfangið covid19@mrn.is en þangað hafa borist um 100 fyrirspurnir og ábendingar um skóla- og frístundastarf og íþrótta- og æskulýðsstarf sem mennta- og barnamálaráðuneyti hefur svarað jafnóðum.
    Mikilvægt er að allar víddir áhrifa COVID-19 á íslenskt samfélag, ekki síst á börn, verði áfram skoðaðar, rannsakaðar og metnar og til þess nýttar fjölbreyttar leiðir með velferð og hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi. Ráðuneytið hefur m.a. ákveðið að nýta næstu fyrirlögn Æskulýðsrannsóknarinnar vorið 2022 í þeim tilgangi. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að stjórnvöld séu á verði hvað varðar áhrif faraldursins á börn og ungmenni og hefur fræðasamfélagið lagt ríka áherslu á að hlúa sérstaklega að börnum og ungmennum, ekki síst þeim sem eru í viðkvæmri stöðu. Brýnt er að virkja alla hlutaðeigandi og tryggja aðkomu barna og ungmenna að þeirri vinnu.
    Stjórnvöld munu áfram veita markvissan stuðning við börn og ungmenni og beina aðgerðum sínum að því að huga sérstaklega að líðan allra í skólakerfinu, stuðla að auknum gæðum menntunar, styðja við starfsþróun kennara og skólastjórnenda, bregðast við mögulegri aukningu ofbeldis og vanrækslu, félagslegri einangrun, skólaforðun og brotthvarfi barna og ungmenna úr námi og félags- og frístundastarfi, efla getu til söfnunar og miðlunar upplýsinga og gagna um mennta- og velferðarmál og efla rannsóknir á sviði mennta- og velferðarmála.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að efla þjálfun kennara í skólakerfinu til að bregðast við þegar grunur vaknar um brot gegn börnum?
    Unnið hefur verið að því að auka og bæta aðgengi starfsfólks skóla að fræðslu- og námsefni vegna ofbeldis gegn börnum. Unnið hefur verið að samkomulagi um nýtingar- og þýðingarheimild á stafrænu fræðslu- og námsefni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Vefurinn verður þýddur og gerður aðgengilegur í íslenskri útgáfu hjá Menntamálastofnun. Efnið mun uppfylla þörf fyrir fræðslu um ofbeldi í víðum skilningi og miðlun fræðslunnar.
    Haustið 2021 var búinn til safnvefurinn Stopp ofbeldi! 1 sem er vefsvæði með hugmyndum að fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk skóla á fyrstu þremur skólastigunum. Á vefnum verða verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks skóla gerðar aðgengilegar með betri hætti en verið hefur, sbr. 4. tölul. svars þessa. Einnig verða þar slóðir inn á verklag sem þróað hefur verið í nokkrum sveitarfélögum vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna svo að önnur sveitarfélög og skólar geti nýtt sér það.
    Unnið er að því að uppfæra og endurskoða námsefni sem nú þegar er til, m.a. rafbókina Ofbeldi gegn börnum sem er handbók fyrir starfsfólk skóla.
    Að öðru leyti er vísað til 2. tölul. í svari þessu.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að viðbragðsáætlun verði í gildi í öllum skólum landsins til að mæta aðstæðum þegar grunur leikur á um brot gegn börnum?
    Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Allir sem hafa vegna stöðu sinnar og starfa afskipti af málefnum barna, þ.m.t. innan skóla landsins, bera slíka tilkynningarskyldu, sbr. jafnframt 17. gr laganna.
    Fyrir liggja verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsmanna leik-, grunn- og framhaldsskóla til barnaverndarnefndar sem varða börn upp að 18 ára aldri og ná því til allra starfsmanna leik- og grunnskóla og fyrstu bekkja framhaldsskóla. Verklagsreglurnar voru unnar í samstarfi fulltrúa menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndar Reykjavíkur og þáverandi Barnaverndarstofu. Stuðlað verður að bættu aðgengi að upplýsingum um reglurnar, sbr. 3. tölul. svars þessa. Nánari upplýsingar um verklagsreglurnar má finna á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu.

     5.      Hvað tekur að meðaltali langan tíma að vinna úr tilkynningu um grun um brot gegn börnum hjá barnaverndarnefndum?
    Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, er kveðið á um að sveitarfélög beri ábyrgð á meðferð barnaverndarmála og ákvörðunum sem þeim tengjast. Í þessu felst að taka við tilkynningum, taka ákvörðun um könnun, kanna mál, gera áætlanir og eftir atvikum sækja um viðeigandi stuðningsúrræði. Ekki liggja fyrir upplýsingar frá sveitarfélögum um þann tíma sem tekur að meðaltali að vinna úr tilkynningum sem berast barnaverndarnefndum. Tilkynningum er forgangsraðað og reynt að bregðast við tilkynningu um brot gegn barni án tafar og koma máli þess í viðeigandi farveg. Breytilegt getur verið eftir eðli málanna hversu lengi könnun þeirra og meðferð tekur innan barnaverndarnefnda.
    Mikilvægt er að hafa í huga að eftir að sveitarfélag hefur fengið tilkynningu eða upplýsingar á annan hátt um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar þarf að meta hvort um rökstuddan grun sé að ræða. Skal sú ákvörðun tekin eins fljótt og hægt er og eigi síðar en sjö dögum eftir að upplýsingarnar berast, sbr. 21. gr. barnaverndarlaga.

     6.      Úr hversu mörgum tilkynningum um brot gegn börnum á nú eftir að vinna hjá barnaverndarnefndum?
    Allt frá árinu 2005 hafa barnaverndarnefndir landsins staðið Barnaverndarstofu, nú Barna- og fjölskyldustofu, skil á svokallaðri sískráningu barnaverndartilkynninga. Tilgangurinn er að hafa mánaðarlega yfirsýn yfir allar tilkynningar og eðli þeirra. Með þessu móti geta barnaverndarnefndir einnig haft betri hugmynd um hvernig haga eigi störfum sínum og hvers konar úrræði henta best. Á grundvelli þessara upplýsinga hefur stofnunin reglulega birt skýrslur frá barnaverndarnefndum. Þessar skýrslur innihalda ítarlegar tölfræðiupplýsingar um tilkynningar og mál, þar á meðal um fjölda tilkynninga, eðli tilkynninga, fjölda barna og fjölda umsókna um meðferð. Upplýsingasöfnunin nær ekki til fjölda tilkynninga sem enn á eftir að kanna og liggja slíkar upplýsingar ekki fyrir. Í þessu sambandi er þó vakin athygli á því sem kemur fram í 5. tölul. svars þessa um að tilkynningum sé forgangsraðað eftir alvarleika.
1     stoppofbeldi.namsefni.is/