Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 623  —  352. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um farsímasamband í dreifbýli.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg lögheimili í dreifbýli voru án Tetra-sambands árin 2021 og 2020? Svar óskast sundurliðað eftir póstnúmerum.
     2.      Hversu mörg símamöstur voru án rafmagns og hve lengi árin 2021 og 2020? Svar óskast sundurliðað eftir klukkustundum og póstnúmerum.
     3.      Hvað hyggst ráðherra gera til að ráða bætur á farsímasambandi í dreifðum byggðum og tryggja fjarskiptaöryggi íbúa?


    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sem tók gildi 1. febrúar sl. fer dómsmálaráðuneytið m.a. með almannavarnir og leit og björgun, þar á meðal samræmda neyðarsvörun. Samkvæmt sama úrskurði fer háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti með fjarskipti, þar á meðal fjarskiptanet, fjarskiptaþjónustu, gagnaflutninga og fjarskiptarekstur, fjarskiptavernd, öryggi rafrænna samskipta og netöryggi, öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, eftirlit með fjarskiptum og fleira. Samkvæmt því og með hliðsjón af orðalagi 2. og 3. tölul. fyrirspurnar er það mat dómsmálaráðuneytisins að eðlilegt sé að þeim spurningum verði beint að réttu fagráðuneyti, þ.e. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Svo sem fyrr var rakið fer dómsmálaráðuneytið með samræmda neyðarsvörun, sbr. lög um sama efni nr. 40/2008. Í tilefni af fyrirspurninni kallaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá Neyðarlínunni. Neyðarlínan hefur sinnt samræmdri neyðarsvörun og númerinu 112 frá 1996 og Tetra frá 2006. Neyðarlínan rekur vaktstöð fyrir samræmda neyðarsvörun fyrir Ísland en markmiðið með slíkri vaktstöð er að sinna viðtöku tilkynninga um fólk, eignir og umhverfi í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð.
    Markmiðið með Tetra öryggis- og fjarskiptaþjónustu fyrir Ísland er að tryggja örugg fjarskipti um land allt og þau fjarskipti sem þurfa að vera til staðar á tímum neyðar vegna slysa, náttúruhamfara eða hamfara af mannavöldum. Tetra er öflugt miðstýrt hópfjarskiptakerfi sem nær til meginhluta landsins, þéttbýlis og vega. Tetra-kerfið hefur um árabil þjónustað mikilvæga innviði samfélagsins, eins og lögregluna, slökkvilið, björgunarsveitir og fleiri, með góðum árangri. Einu notendur Tetra-kerfisins eru viðbragðsaðilar og er notkun kerfisins því ólík almennri farsímaþjónustu. Af því leiðir að ekki hefur verið kannað hversu mörg lögheimili eru án sambands við Tetra-kerfið en sé litið til dreifikorta eru þau þó ekki mörg. Almenna áherslan er sú að bæta farsímasamband þannig að allir landsmenn geti náð að hringja í 112 eftir aðstoð þegar þess er þörf.