Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 624  —  364. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um lausagöngu búfjár.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra takmarka lausagöngu búfjár á þeim landsvæðum sem að mati Landgræðslunnar teljast of viðkvæm til að beit á þeim standist kröfur um ábyrga og sjálfbæra landnýtingu? Ef svo er, hvenær og með hvaða hætti?

    Í fyrstu má geta þess að í gildi eru lög um búfjárhald, nr. 38/2013, en í þeim er kveðið á um að m.a. sé sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Í þeim má ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað á tilteknum svæðum. Þá er kveðið á um það í 8. gr. laganna að umráðamanni lands sé heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað svæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð.     Unnið er að verkefninu Grólind en það er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, ráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Meginmarkmið verkefnisins eru að meta og vakta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og að þróa sjálfbærnisvísa fyrir landnýtingu. Í framangreindu felast til dæmis rannsóknir til að m.a. skoða beitaratferli sauðfjár í sumarhögum og fylgjast með því hvort gróður þróist með mismunandi hætti á beittu og friðuðu landi.
    Auk framangreinds hefur verið unnið að því að móta leiðbeiningar og viðmið um sjálfbæra landnýtingu í samræmi við 11. gr. landgræðslulaga, nr. 155/2018. Í september 2021 voru tillögur að slíkum leiðbeiningum og viðmiðum birtar í drögum að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu á samráðsgátt stjórnvalda. En setning viðmiða þar sem kröfur um ábyrga og sjálfbæra landnýtingu eru skilgreindar eru forsenda til þess að unnt sé að stjórna nýtingu með tilliti til þeirra sjónarmiða. Unnið er úr þeim athugasemdum sem bárust.
    Hver niðurstaða framangreinds verður er erfitt að segja til um á þessum tímapunkti.