Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 626  —  302. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um uppgjörsreglur sveitarfélaga.



     1.      Er flokkun og framsetning sveitarfélaga á fjárfestingarfasteignum í samræmi við framsetningu sveitarfélaga og annarra opinberra aðila í reikningsskilum á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, svo sem hvað varðar félagslegt leiguhúsnæði? Samræmist slík flokkun skyldum Íslands um samræmda túlkun og beitingu samkvæmt EES-samningnum?
    Á Íslandi gilda um gerð ársreikninga sveitarfélaga sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, lög um ársreikninga, nr. 3/2006, reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015, alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og góðar reikningsskilavenjur.
    Ráðuneytið hefur ekki yfirlit yfir það hvernig framsetning og flokkun félagslegs húsnæðis fer fram í ársreikningum sveitarfélaga á Norðurlöndum eða í Evrópu.
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum stjórnvöldum fyrirspurn varðandi flokkun félagslegs leiguhúsnæðis í reikningsskilum sveitarfélaga á Íslandi og vinna ráðuneytisins stendur yfir við að svara erindinu.

     2.      Ber sveitarfélögum að leggja fram hefðbundinn samstæðureikning við gerð samstæðureikningsskila og fara eftir lögum um ársreikninga við gerð hans í ljósi álits reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga nr. 1/2020 þar sem fram kemur að ekki liggi fyrir með afdráttarlausum hætti hvort sveitarfélög eigi að setja fram reikningsskil sín fyrir A-hluta og B-hluta miðað við reglur samstæðureikningsskila eða samantekinna reikningsskila?
    Samkvæmt 61. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, skal gera ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald, sbr. 60. gr. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum um ársreikninga, reglum settum samkvæmt þeim lögum og sveitarstjórnarlögum, sem og góðum reikningsskilavenjum.
    Að mati ráðuneytisins er ekki að sjá að álit reikningsskila- og upplýsinganefndar nr. 1/2020 kveði á um aðra niðurstöðu.

     3.      Er sveitarfélögum heimilt að leggja fram svonefnd samantekin reikningsskil samkvæmt reglugerð nr. 1212/2015, um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, í stað hefðbundins samstæðureiknings?
    Samkvæmt 61. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og 19. gr. reglugerðar um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015, skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélag, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald. Í 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið samantekin reikningsskil skilgreint sem sameinuð reikningsskil A-hluta og B-hluta. Um samantekin reikningsskil gilda reglur um samstæðureikningsskil samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga, nr. 3/2006, að svo miklu leyti sem við á.