Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 628  —  436. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluendurskoðun á samningi íslenska ríkisins við Microsoft.

Frá Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Jakobi Frímanni Magnússyni, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Lenyu Rún Taha Karim, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Tómasi A. Tómassyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á samningi íslenska ríkisins við Microsoft í samræmi við ákvæði 6. gr. laganna.
    Í skýrslunni verði farið yfir hvaða áhrif samningurinn hefur haft á rekstur og fjárheimildir þeirra stofnana ríkisins sem nýta lausnir Microsoft í rekstri sínum. Tekið verði til skoðunar hvort ávinningur stofnana um skilvirkari stjórnsýslu, upptöku nýrra lausna í stað eldri, aukið öryggi og öflugri rekstur hafi gengið eftir og með hvaða hætti. Þá verði metið hvort áætluð hagræðing í tímasparnaði hafi raungerst og heildarávinningur stefni í að verða 5.500 millj. kr. á árinu 2023 eins og spár gerðu ráð fyrir.
    Þá skal enn fremur tekið til athugunar hvaða áhrif undirritun samningsins hefur haft á rekstur einstakra stofnana og hversu stórum hluta rekstrarframlaga stofnana í fjárlögum hvers árs sé ráðstafað í samning ríkisins við Microsoft.
    Að lokum verði könnuð hagkvæmni ríkisins í heild af samningnum þar sem mat verði lagt á heildarávinning ríkisins að teknu tilliti til reksturs stofnana þess.

Greinargerð.

    Þann 1. júní 2018 varð Ísland fyrsta ríkið til að undirrita heildarsamning um hugbúnað við Microsoft. Strax í kjölfarið birti Stjórnarráðið tilkynningu um vænta hagræðingu og sparnað í tengslum við innleiðingu samningsins. Einstakar stofnanir höfðu áður gert samninga en heildarsamningurinn átti að tryggja Íslandi meiri afslátt en mundi annars bjóðast og vera liður í að auka og bæta opinbera þjónustu. Samningurinn felur í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkans sem inniheldur m.a. Word, Excel, hópvinnukerfi og póstkerfi.
    Í kjölfar undirritunar samningsins bárust ábendingar vegna hækkunar á leyfakostnaði hjá einstökum stofnunum. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu í maí 2019 sagði að bæði fyrir og eftir undirritun samningsins hafi farið fram ítarlegt mat á fjölþættum ávinningi ríkisins af samningnum. Ekki hefur þó verið greint frá niðurstöðu þeirrar greiningarvinnu sem á að hafa farið fram eftir undirritun. Undanfarin misseri hafa komið upp fleiri atriði og athugasemdir sem benda til þess að innleiðing samningsins kunni að hafa haft neikvæð áhrif á rekstur einstakra stofnana ríkisins.
    Rétt þykir í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á samningnum, með vísan til hlutverks hans um að hafa í umboði Alþingis eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja á þann hátt sem nánar greinir í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016.
    Í skýrslubeiðninni er óskað eftir að farið verði yfir hvaða áhrif samningurinn hefur haft á rekstur og fjárheimildir þeirra stofnana ríkisins sem nýta lausnir Microsoft í rekstri sínum. Tekið verði sérstaklega til athugunar hvort viðskiptagreining sem unnin var í samstarfi við Capacent í aðdraganda innleiðingarinnar hafi verið sannspá um væntan ávinning stofnana um skilvirkari stjórnsýslu, upptöku nýrra lausna í stað eldri, aukið öryggi og öflugri rekstur. Tekið verði til skoðunar hvort áætluð hagræðing um 2.700 millj. kr. í tímasparnaði hafi raungerst og hvort heildarávinningur stefni í að verða 5.500 millj. kr. á árinu 2023 eins og matið spáði um. Gerð verði grein fyrir hvar hagræðing hafi birst og með hvaða hætti megi sjá ávinning stofnana og ríkisins í skilvirkari stjórnsýslu.
    Þá skal enn fremur tekið til athugunar hvaða áhrif undirritun samningsins hefur haft á rekstur einstakra stofnana og hversu stórum hluta rekstrarframlaga stofnana í fjárlögum hvers árs sé ráðstafað í samning ríkisins við Microsoft. Að lokum verði könnuð hagkvæmni ríkisins í heild af samningnum þar sem mat verði lagt á heildarávinning ríkisins að teknu tilliti til reksturs stofnana þess.