Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 630  —  438. mál.
Undirritun.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2021.

1. Inngangur.
    Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Á hefðbundnu ári hittast meðlimir ráðsins tvisvar á ári, annars vegar á þemaráðstefnu ráðsins að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var þemaráðstefnu ársins frestað fram til ársins 2022. Ársfundur ráðsins var hins vegar haldinn í Færeyjum um mánaðamótin ágúst og september og var mikil ánægja með þennan fyrsta staðfund ráðsins í eitt og hálft ár. Landsdeildir Íslands, Færeyja og Grænlands voru fullskipaðar en heimsfaraldurinn hafði áhrif á þátttöku vestnorrænna utanríkisráðherra og samstarfsaðila frá Norðurlandaráði og norska Stórþinginu. Á ársfundi var lögð áhersla á aðgerðir vestnorrænna landa í loftslags- og umhverfismálum. Í ályktun sinni hvatti Vestnorræna ráðið umhverfisráðherra landanna til að auka samvinnu sína og halda reglubundna fundi sín á milli. Þá var samþykkt ályktun Íslandsdeildar um vestnorrænt samstarf um fjarmenntun til hagsbóta fyrir fámenn og strjálbýl samfélög í löndunum þremur. Bent var á að með því að nýta fjarkennslu væri hægt að auka stórlega námsframboð á Vestur-Norðurlöndum og stuðla að því að fólk byggi áfram í heimabyggð.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tók þátt í ráðstefnunni Hringborð norðurslóða í október. Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um loftslagsmál og græn umskipti og hins vegar um samstarf vestnorrænna landa við nágrannalönd sín. Þá tók ráðið þátt í málstofu um samskipti Bretlands við vestnorræn lönd. Bent var á sterkar taugar þeirra til Bretlands og mikilvægi þess að standa vörð um samstarf landanna í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Norðurlandaráðsþing var haldið í Kaupmannahöfn og að venju var forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins boðið að sitja þingið. Á fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs undirrituðu formenn ráðanna tveggja nýjan samstarfssamning sín á milli þar sem gert er ráð fyrir aukinni samvinnu ráðanna á alþjóðlegum vettvangi. Þá átti forsætisnefnd árlegan fund sinn með vestnorrænum samstarfsráðherrum samhliða þinginu. Þar kom fram að ráðherrarnir væru að skoða hvernig bæta mætti framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins með einhvers konar formlegum vettvangi í líkingu við Norrænu ráðherranefndina. Formaður Vestnorræna ráðsins lagði áherslu á loftslagsmál í ávarpi sínu á Norðurlandaráðsþingi og sagði málefnið gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa á norðurslóðum.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru tókst ekki að halda árlegan fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingmannanefnd Evrópuþingsins. Stefnt er að því að halda slíkan samráðsfund í Brussel árið 2022.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Í apríl var samþykkt á Alþingi þingsályktun um framfylgd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins frá árinu 2020. Um er að ræða ályktanir ráðsins um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra á Norðurlöndum um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga í lok september 2021 og hélt hún fyrsta fund sinn viku síðar. Í lok árs gekk forsætisnefnd frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Lárusar Valgarðssonar, í stað Sigurðar Ólafssonar sem sagt hafði stöðu sinni lausri. Nýr framkvæmdastjóri tók við í febrúar 2022.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (gr. Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (d. Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi árið 1997 var samþykktur nýr stofnsamningur og nafni samtakanna um leið breytt í Vestnorræna ráðið. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Árið 2016 var ákveðið að auka við fjárráð ráðsins og ráða annan starfsmann í hálft starf til að sinna málefnum norðurslóða og Norðurskautsráðs. Lögþing Færeyja, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlands velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, 1. varaformanni og 2. varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru teknar til umfjöllunar í þjóðþingum landanna sem þingsályktunartillögur. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og var hann tekinn til endurskoðunar árið 2021. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að taka ályktanir Vestnorræna ráðsins til umfjöllunar í Norðurlandaráði.
    Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sína þar sem fjallað var um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og var þar fjallað um nýtingu auðlinda hafsins, og sú þriðja árið 2016 þar sem fjallað var um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Fram að alþingiskosningum 25. september voru aðalmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingflokki Samfylkingar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða var Bryndís Haraldsdóttir og varamaður var Lilja Rafney Magnúsdóttir.
    Varaformaður Íslandsdeildar, Þórunn Egilsdóttir, lést á árinu eftir baráttu við krabbamein. Formaður Íslandsdeildar flutti minningarorð um Þórunni á ársfundi Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild lagði fram tillögu til þingsályktunar á 151. löggjafarþingi um framfylgd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi 2020. Ályktanirnar fjalla um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra á Norðurlöndum, um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þingsályktunartillagan var samþykkt á Alþingi í apríl 2021.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristrún Frostadóttir, þingflokki Samfylkingar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Orri Páll Jóhannsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Jakob Frímann Magnússon, þingflokki Flokks fólksins, Hildur Sverrisdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingar, Guðbrandur Einarsson, þingflokki Viðreisnar, og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða er Kristrún Frostadóttir og varamaður er Þórarinn Ingi Pétursson.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi fram að kosningum þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Ný Íslandsdeild hélt einn fund á árinu 2021.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2021.
    Þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins, sem halda átti á Suður-Grænlandi í júní, var frestað um eitt ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Til betri vegar horfði þegar kom að ársfundi ráðsins að hausti, en hann var haldinn í Vogi (fær. Vágur) á Suðurey í Færeyjum. Þá tók forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þátt í ráðstefnunni Hringborð norðurslóða og Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn.

Fundur forsætisnefndar með Norðurlandaráði 12. mars.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði með forsætisnefnd Norðurlandaráðs með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var samstarf ráðanna tveggja og áhrif heimsfaraldursins á það. (Sjá fylgiskjal I.)

Fundir forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 10. og 21. maí.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins kom saman á tveimur fjarfundum. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundunum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Tilgangur fundanna var að ræða fyrirkomulag þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2021. (Sjá fylgiskjal II.)

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn 12. ágúst.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á fundinum var ársfundur ráðsins undirbúinn. (Sjá fylgiskjal III.)

Ársfundur Vestnorræna ráðsins í Vogi í Færeyjum 31. ágúst til 2. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Guðjón S. Brjánsson formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru loftslagsmál á Vestur-Norðurlöndum og aukið samstarf landanna á þeim vettvangi. (Sjá fylgiskjal IV.)

Hringborð norðurslóða í Reykjavík 14.–17. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Hringborð norðurslóða Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins í kjölfar alþingiskosninga, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um viðbrögð við loftslagsbreytingum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum og hins vegar um samskipti vestnorrænna landa við nágranna sína á norðurslóðum. Þá átti Vestnorræna ráðið fund með James Stockan, forseta Orkneyjaþings. (Sjá fylgiskjal V.)

Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Bryndís Haraldsdóttir, meðlimur Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Auk þess að taka þátt í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi. (Sjá fylgiskjal VI.)

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 20. desember.
    Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá fundarins voru ráðning nýs framkvæmdastjóra ráðsins og þemaráðstefna ráðsins sem var á dagskrá í janúar 2022. (Sjá fylgiskjal VII.)

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 1. september 2021.
     *      Ályktun nr. 1/2021 um aukið samstarf vestnorrænu landanna um umhverfis- og loftslagsmál.
     *      Ályktun nr. 2/2021 um vestnorrænt samstarf um fjarmenntun á háskólastigi.

Alþingi, 11. mars 2022.

Ásmundur Friðriksson. Eyjólfur Ármannsson Kristrún Frostadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.



Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs 12. mars 2021.


    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði með forsætisnefnd Norðurlandaráðs með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn frá Vestnorræna ráðinu voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar, og Arnaruluk Lundblad og Elly Hauge Pedersen, starfsmenn grænlensku landsdeildarinnar. Fyrir hönd Norðurlandaráðs tóku þátt Gunilla Carlsson, þingkona frá Svíþjóð, Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, og Johan Tiedemann, starfsmaður Norðurlandaráðs.
    Kristina Háfoss, nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, kynnti sig stuttlega en hún sat áður í Vestnorræna ráðinu fyrir hönd færeyska þingsins. Hún er menntuð í hagfræði og lögfræði og hefur tvisvar gegnt stöðu ráðherra í Færeyjum. Hún sagðist hlakka til að vinna að framgangi hugsjóna þingmanna í Norðurlandaráði og sagði tækifæri til að endurskoða 15 ára gamlan samstarfssamning Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Guðjón S. Brjánsson óskaði Kristinu til hamingju með stöðuna og sagði Vestnorræna ráðið stolt af því að leggja Norðurlandaráði til sterkan starfsmann þrátt fyrir að hennar yrði saknað í Vestnorræna ráðinu.
    Fundarmenn ræddu stöðu útbreiðslu COVID-19 á Norðurlöndum. Gunilla Carlsson sagði Norðurlöndin hafa farið ólíkar leiðir í baráttunni við faraldurinn. Viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum hefðu haft í för með sér miklar áskoranir, sérstaklega fyrir tugþúsundir einstaklinga sem byggju og ynnu þvert á landamæri. Þingmenn Norðurlandaráðs reyndu nú að beina sjónum ríkisstjórnanna að þessu vandamáli. Henrik Old sagði stöðuna varðandi útbreiðslu COVID-19 í vestnorrænum löndum vissulega hafa verið nokkuð betri en almennt á Norðurlöndum. Undanfarna mánuði hefði verið mjög lítið um smit, sérstaklega væru Grænland og Færeyjar svo gott sem laus við veiruna. Hins vegar vissi fólk að það þyrfti ekki nema eitt tilfelli til að smit breiddist út aftur og því héldu löndin ströngum ferðatakmörkunum og sóttvarnaráðstöfunum. Í þessum löndum væri sama bólusetningarferli og annars staðar á Norðurlöndum og í forgangi væri fólk í áhættuhópum og í framvarðasveit heilbrigðisþjónustu. Vonast væri til þess að lífið gengi aftur sinn vanagang í sumar í kjölfar bólusetninga.
    Gunilla Carlsson sagði mikla möguleika á að auka samstarf milli Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, sérstaklega hvað varðar norðurslóðamál og loftslagsmál. Hún lýsti ánægju sinni með áherslu Vestnorræna ráðsins á málefni ungs fólks. Henrik Old lýsti ánægju með þátttöku fulltrúa Norðurlandaráðs í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins og ársfundi ársins 2020 og bauð Norðurlandaráði að senda fulltrúa sinn á fundi Vestnorræna ráðsins á yfirstandandi starfsári. Sigurður Ólafsson sagði stuttlega frá samræðum milli skrifstofa Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs um samstarfssamning ráðanna frá árinu 2006. Hann sagði samninginn góðan að mörgu leyti og bjóða upp á ýmsa ónýtta möguleika til samstarfs. Ákveðið var að fela skrifstofunum að koma fram með tillögur að auknu samstarfi ráðanna síðar á árinu.
    Þá var rætt um hvort stefna ætti að sameiginlegri ráðstefnu á vegum Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Það yrði í fjórða skipti sem slík ráðstefna yrði haldin. Ýmsar hugmyndir að umræðuefnum voru ræddar, t.d. loftslagsmál og tungumál á Norðurlöndum. Guðjón S. Brjánsson sagði tungumálið grundvallarþátt þjóðarsálarinnar. Skandinavísk tungumál ættu það sameiginlegt að vera smá málsamfélög og undir miklum áhrifum frá ensku. Þróun máltækni gæti aðstoðað löndin við að standa vörð um tungumálin.
    Guðjón S. Brjánsson svaraði spurningum fundarmanna um jarðhræringar á Reykjanesskaga. Hann sagði skjálftahrinuna vera óvenjulega sterka og að búist væri við því að eldgos fylgdi í kjölfarið en vonast væri til þess að það hefði lítil áhrif í byggð eða á samgöngur.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hélt stuttan undirbúningsfund vegna fjarfundarins með Norðurlandaráði. Á þeim fundi samþykkti forsætisnefnd að beina sjónum Vestnorræna ráðsins að loftslagsbreytingum og grænum umskiptum í starfi ráðsins starfsárið 2021–2022.
    Næsti fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs er áætlaður samhliða Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn í lok október 2021.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fjarfundum forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 10. og 21. maí 2021.


    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins kom saman á tveimur fjarfundum. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Siverth K. Heilmann, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Annika Mouritsen og Poula Árnadóttir Lervig, starfsmenn færeysku landsdeildarinnar, og Arnaruluk Lundblad og Elly Hauge Pedersen, starfsmenn grænlensku landsdeildarinnar. Tilgangur fundanna var að ræða fyrirkomulag þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2021.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var fyrirhuguð í Qaqortoq á Suður-Grænlandi í lok júní 2021 undir yfirskriftinni Málefni ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Fyrir fundinum lá að taka ákvörðun um hvort fallið yrði frá þeim fyrirætlunum. Bent var á að samkvæmt gildandi sóttvarnareglum Grænlendinga væri óheimilt að halda viðburð þar sem saman kæmu erlendir gestir, auk þess sem öllum erlendum ferðamönnum væri skylt að vera í sóttkví í fimm daga frá komu til landsins, burtséð frá því hvort þeir væru bólusettir eður ei. Þá væru flugsamgöngur milli landanna í óvissu. Siverth K. Heilmann sagði Grænlendinga því miður ekki treysta sér til að halda ráðstefnuna við þessar aðstæður. Enn væri of mikil hætta á kórónuveirusmiti. Sigurður Ólafsson lagði fyrir forsætisnefnd tillögu sína um að breyta þemaráðstefnunni í fjórar styttri málstofur þar sem málefninu yrðu gerð skil í erindum fræðimanna og pallborðsumræðum með þátttöku meðlima ráðsins með fjarfundarbúnaði. Málstofunum yrði streymt á netinu.
    Forsætisnefnd ræddi málið á tveimur fundum og að lokum varð ofan á að fresta þemaráðstefnunni um eitt ár. Því er áætlað að halda tvær þemaráðstefnur árið 2022, annars vegar í janúar á Íslandi um loftslagsáhrif á Vestur-Norðurlöndum og hins vegar í júní í Qaqortoq um málefni ungs fólks.
    Á fyrri fundi forsætisnefndar kynnti Henrik Old drög að ályktun sem lögð verður fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins í lok ágúst um aukið samstarf Vestur-Norðurlanda í umhverfismálum.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn 12. ágúst 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, og Edva Jacobsen, varaformaður, Siverth K. Heilmann, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Annika Mouritsen og Poula Árnadóttir Lervig, starfsmenn færeysku landsdeildarinnar, og Elly Hauge Pedersen, starfsmaður grænlensku landsdeildarinnar.
    Meginefni fundarins var að undirbúa ársfund Vestnorræna ráðsins í Færeyjum 31. ágúst til 2. september. Forsætisnefnd ræddi fyrirkomulag ársfundar og drög að nýjum ályktunum og innri ákvörðunum sem lágu fyrir. Einnig fór forsætisnefnd yfir eldri ályktanir ráðsins og ákvað að leggja til við ársfund að ályktanir sem væru eldri en þriggja ára yrðu afskrifaðar. Í umræðum var ítrekað að með afskrift eldri ályktana væri ekki verið að gefa til kynna að málefnið sem slíkt væri ekki lengur talið mikilvægt. Yfirleitt hefði ályktunin náð fram að ganga en í þeim tilvikum þar sem ráðsmeðlimir teldu að ályktunum hefði ekki verið framfylgt með fullnægjandi hætti væri betra að endurskoða þær og leggja fram að nýju með breyttu sniði.
    Formenn landsdeilda sögðu stuttlega frá stöðu stjórnmála og heimsfaraldursins í löndum sínum. Henrik Old tilkynnti forsætisnefnd að í lok ársfundar myndi Edva Jacobsen taka við sem formaður færeysku landsdeildarinnar, í samræmi við samkomulag stjórnmálaflokka á þingi.


Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af ársfundi Vestnorræna ráðsins í Vogi í Færeyjum 31. ágúst til 2. september 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara.
    Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, ávarpaði ársfundinn undir yfirskriftinni Aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum. Hann sagði vestnorrænt samstarf geta stuðlað að aukinni þekkingu fólks á neikvæðum áhrifum af loftslagsbreytingum. Færeysk stjórnvöld hefðu sett sér markmið um græn umskipti og nýting á vindorku og sólarorku færi vaxandi, auk þess sem verið væri að skoða virkjun sjávarfalla og sjávarstrauma. Hins vegar gengi þetta ekki nógu hratt fyrir sig og enn væri langstærstur hluti rafmagns framleiddur með olíu. Að breyta þessu krefðist hugrekkis og pólitísks vilja. Þá sagði ráðherrann að græn umskipti í sjávarútvegi væru nauðsynleg náttúrunni og afkomendum okkar. Saman gætu vestnorræn lönd stuðlað að hraðari þróun í þeim efnum. Græn umskipti yrðu gríðarstór fjárfesting en velmegun landanna væri slík að þau réðu vel við það. Hann sagði einnig mikilvægt að fólk endurskoðaði neysluvenjur sínar til að minnka flutning á matvælum heimshorna á milli. Of mikil orka færi í að flytja matvæli til Færeyja sem auðveldlega væri hægt að framleiða heima fyrir. Gott væri að byrja strax að venja sig við að meta kolefnisspor neysluvöru því að brátt kæmi að því að það yrði nauðsynlegt.
    Guðjón S. Brjánsson benti Jenis av Rana á að íslensk stjórnvöld hefðu lagt áherslu á jafnrétti og mannréttindi í utanríkisstefnu sinni og þróunarsamvinnu og spurði ráðherrann hvort Færeyingar hefðu sams konar áherslur. Jenis av Rana sagði að þrátt fyrir að utanríkismálin væru formlega á hendi danskra stjórnvalda tækju Færeyingar sífellt meiri þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum og samskiptum. Færeyingar gætu verið stoltir af því á alþjóðlegum vettvangi að heyra til þeim löndum í heimi þar sem lýðræði og mannréttindi væru virt og hver manneskja metin að verðleikum. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði ráðherrann um afstöðu hans og færeyskra stjórnvalda til þess að taka á móti flóttafólki frá Afganistan í kjölfar valdatöku talibana þar í landi. Ráðherrann benti á að móttaka flóttafólks yrði að vera í samráði við dönsk stjórnvöld. Málefnið væri mjög umdeilt í Færeyjum og hann tæki það nærri sér þegar fólk segðist ekki vilja taka á móti flóttafólki. Mikils misskilnings gætti meðal Færeyinga sem sæju fyrir sér vopnaða múslima en raunin væri sú að meiri hluti alls flóttafólks í heiminum væri kristinn.
    Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu einnig fundinn. Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, sagði frá starfi ráðsins á tímum heimsfaraldurs. Hún sagði faraldurinn hafa verið prófstein á norrænt samstarf. Landamæri milli landanna hefðu verið algjörlega lokuð sem hefði haft mikil áhrif á almenning og efnahagslíf. Þetta hefði opnað augu fólks fyrir því hve norræn samvinna væri dýrmæt. Mikil áhersla væri lögð á það að opna landamærin aftur og auka norrænt samstarf um alþjóðleg úrlausnarefni á borð við netöryggismál og loftslagsbreytingar. Petur Petersen, frá utanríkisráðuneyti Færeyja, flutti ávarp fyrir hönd hinna vestnorrænu samstarfsráðherra Norðurlanda og Ásdís Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hringborðs norðurslóða, sagði frá fyrirhuguðum ráðstefnum.
    Formenn landsdeilda gerðu ráðinu grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Guðjón S. Brjánsson skýrslu Íslandsdeildar. Hann sagði Íslandsdeild hafa fengið kynningu á skýrslu utanríkisráðuneytis um samskipti Íslands og Grænlands á vormánuðum. Skýrslan væri ítarleg og gæti nýst við gerð ályktana ráðsins í framtíðinni. Guðjón minntist einnig Þórunnar Egilsdóttur, meðlims Vestnorræna ráðsins, sem lést 9. júlí eftir baráttu við krabbamein. Guðjón sagði alla sem hana þekktu sakna hennar og þakkláta fyrir tíma sinn með henni. Í pólitísku starfi hefði alltaf verið hægt að treysta á Þórunni og hún hefði unnið ötullega að hagsmunum kjördæmis síns á sinn rólega máta, með hlýtt bros á vör og kímni að vopni. Gestir ársfundar heiðruðu minningu Þórunnar með einnar mínútu þögn.
    Í umræðum um málefni norðurslóða sagði Bryndís Haraldsdóttir mikilvægt að beina sjónum að stóru verkefnunum, loftslagsbreytingum á norðurslóðum og áhrifum þeirra. Meðlimir Vestnorræna ráðsins þyrftu að vera talsmenn íbúa landanna, styðja við sjálfbært atvinnulíf og stuðla að því að ákjósanlegt væri fyrir ungt fólk að búa á svæðinu. Áhugi stórvelda á svæðinu færi vaxandi og þar með spennustigið en fyrir vestnorræn lönd væri nauðsynlegt að tryggja áframhaldandi friðsamleg samskipti á norðurslóðum. Bryndís sagði einnig frá nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og frá vinnunni við hana.
    Ársfundurinn samþykkti tvær ályktanir sem verða sendar til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrstu eru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að auka samvinnu sína á vettvangi umhverfismála. Lagt er til að umhverfisráðherrar landanna þriggja geri með sér samstarfssamning og haldi árlegan samráðsfund. Í annarri ályktuninni er lagt til að löndin þrjú kanni möguleika á samstarfi um fjarmenntun á háskólastigi. Bent er á að í öllum löndunum geta fjarlægðir og fámenni fækkað valkostum þegar kemur að framhaldsmenntun. Með því að nýta fjarkennslu væri hægt að auka stórlega námsframboð á Vestur-Norðurlöndum og stuðla að því að fólk búi áfram í heimabyggð. Þá voru lögð fram drög að tveimur ályktunum til viðbótar á ársfundinum sjálfum. Ályktanirnar voru þó ekki teknar á dagskrá heldur vísaði forsætisnefnd í starfsreglur ráðsins sem gera ráð fyrir að fundargögn liggi fyrir fjórum vikum fyrir ársfund.
    Á ársfundi var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði á Akureyri í janúar 2022 og að þemað yrði græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum. Þá var samþykkt að þemaráðstefna um málefni ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum, sem halda átti sumarið 2021 á Suður-Grænlandi en var frestað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, yrði haldin sumarið 2022. Einnig var ákveðið að næsti ársfundur ráðsins yrði haldinn í Ilulissat á Grænlandi í september 2022. Siverth K. Heilmann frá Grænlandi var einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi. Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins.
    Samhliða ársfundi heimsótti Íslandsdeild höfuðstöðvar póstþjónustu Færeyja í Þórshöfn auk þess sem Vestnorræna ráðið fékk leiðsögn um verksmiðju Varðans Pelagic á Tvøroyri og skoðaði íþróttamannvirki í Vogi.


Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN
af þátttöku forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Hringborði norðurslóða í Reykjavík 14.–17. október 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Hringborð norðurslóða Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins í kjölfar alþingiskosninga, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um viðbrögð við loftslagsbreytingum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum og hins vegar um samskipti vestnorrænna landa við nágranna sína á norðurslóðum. Þá átti Vestnorræna ráðið fund með James Stockan, forseta Orkneyjaþings.
    Pipaluk Lynge-Rasmussen, formaður Vestnorræna ráðsins, opnaði málstofuna um loftslagsbreytingar og græn umskipti. Naaja H. Nathanielsen, ráðherra húsnæðismála, innviða, hráefna, dómsmála og jafnréttismála á Grænlandi, ávarpaði fundinn og sagði mikilvægt að vestnorrænu löndin beindu sjónum sínum í auknum mæli að áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðir og lífríkið þar. Þá fluttu erindi Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands og Sigurd Christiansen frá Fróðskaparsetri Færeyja. Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í umræðum í pallborði í kjölfar erindanna ásamt öðrum forsætisnefndarmeðlimum. Hún benti á að hlýnun sjávar og súrnun gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki sjávar og þar með sjávarútveg og efnahagslíf í vestnorrænum löndum.
    Á annarri málstofu Vestnorræna ráðsins var fjallað um hvernig ráðið gæti styrkt stöðu sína og stuðlað að friði og samvinnu á norðurslóðum í samstarfi við önnur lönd á svæðinu. Erindi fluttu Halla Nolsøe Poulsen, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, Jákup Sørensen, sérfræðingur hjá Norræna Atlantssamstarfinu (NORA), Aaja Chemnitz Larsen, þingkona Grænlands á danska þinginu, og Brendan O’Hara, þingmaður á breska þinginu fyrir Skoska þjóðarflokkinn. Þá tóku meðlimir forsætisnefndar þátt í pallborðsumræðum ásamt fyrirlesurum.
    Bryndís Haraldsdóttir flutti einnig erindi á málstofu bresku hugveitunnar Polar Research and Policy Initiative um samskipti Bretlands við vestnorræn lönd. Bryndís sagði stuttlega frá alþjóðlegu starfi Vestnorræna ráðsins, þar á meðal áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og samstarfi við þingmannanefnd um norðurskautsmál og Norðurlandaráð. Hún sagði loftslagsvána hafa aukið mikilvægi þess að vestnorræn lönd töluðu einum rómi. Áhrifa loftslagsbreytinga gætti nú þegar í löndunum og nauðsynlegt væri að bregðast við með raunverulegum aðgerðum og grænum lausnum. Bryndís ítrekaði að samstarf vestnorrænna landa miðaði einnig að því að styrkja samvinnu þeirra við nágrannaríki sín. Landfræðilega og sögulega hefðu vestnorræn lönd sterkar taugar til Skotlands, Írlands og Englands og samvinna milli landanna hefði reynst árangursrík. Standa þyrfti vörð um þetta góða samband í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Samhliða Hringborði norðurslóða fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins í húsakynnum Alþingis. Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri ráðsins, kynnti uppfærða starfsáætlun ráðsins og ræddi m.a. um þátttöku ráðsins á Norðurlandaráðsþingi í nóvember og mögulegan fjarfund með þingmannanefnd Evrópuþingsins fyrir áramót. Bryndís Haraldsdóttir sagði ekki víst að hún héldi áfram störfum í Vestnorræna ráðinu í kjölfar setningar nýs þings eftir kosningar. Hún ítrekaði mikilvægi áheyrnaraðildar ráðsins að Norðurskautsráðinu og sagðist vilja hvetja nýja Íslandsdeild til að kynna sér norðurslóðamál vel. Bryndís sagði undanfarin fimm ár hafa kveikt ævarandi áhuga hennar á vestnorrænni samvinnu og hvatti sérstaklega til aukinna viðskipta og fríverslunar milli landanna.
Fylgiskjal VI.


FRÁSÖGN
af fundum Vestnorræna ráðsins á 73. Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Bryndís Haraldsdóttir, meðlimur Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Auk þess að taka þátt í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundi með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi. Af hálfu landsdeildar Grænlands sótti fundinn Pipaluk Lynge-Rasmussen, formaður, og Edva Jacobsen, formaður færeysku landsdeildarinnar, var fulltrúi Færeyinga.
    Til fundar við forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins komu Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, Kalistat Lund, samstarfsráðherra Grænlendinga, og Petur Petersen, staðgengill Kajs Leos Holms Johannesens, samstarfsráðherra Færeyinga. Edva Jacobsen sagði stuttlega frá starfi ráðsins á árinu. Hún sagði frá því að Vestnorræna ráðið legði áherslu á loftslagsmál og græn umskipti á yfirstandandi starfsári og að umhverfisráðherrum landanna yrði boðið á þemaráðstefnu um málefnið í janúar 2022. Þá yrði félagsmálaráðherrum landanna boðið til ráðstefnu um málefni ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum sem haldin yrði sumarið 2022 á Grænlandi, en henni hefði þurft að fresta um ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Lund fagnaði áherslu Vestnorræna ráðsins á umhverfismál og greindi frá því að ný ríkisstjórn á Grænlandi hefði metnaðarfull áform í loftslagsmálum. Bryndís Haraldsdóttir þakkaði ráðherrunum og skrifstofum þeirra fyrir greinargerðir ríkisstjórnanna til Vestnorræna ráðsins um framfylgd ályktana ráðsins. Hún kynnti stuttlega nýjar ályktanir sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins á Grænlandi í október. Í annarri ályktuninni væru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að auka samvinnu sína á vettvangi umhverfismála en hin ályktunin fjallaði um samstarf vestnorrænna landa um fjarmenntun á háskólastigi. Sigurður Ingi Jóhannsson greindi forsætisnefnd frá því að samstarfsráðherrarnir hefðu leitað til Norræna Atlantssamstarfsins (NORA) um greiningu á framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins. Allir væru sammála um að vilja auka skilvirkni vestnorræns samstarfs en eitthvað hefði skort á framkvæmdina. Til greina kæmi að formgera samstarf ríkisstjórnanna með svipuðum hætti og í Norrænu ráðherranefndinni en beðið væri eftir greiningu NORA áður en þeim hugmyndum yrði hrint í framkvæmd. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Grænlands greindi forsætisnefnd frá því að vegna áhrifa heimsfaraldursins á efnahagslífið hygðist ríkisstjórnin bíða með að hrinda ályktunum ráðsins frá 2020 og 2021 í framkvæmd.
    Á fundi Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var rætt um samstarf ráðanna tveggja, umhverfis- og loftslagsmál, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og samstarf við Evrópusambandið. Annette Lind, varaforseti Norðurlandaráðs, stýrði fundi og lýsti ánægju forsætisnefndar með samvinnu við Vestnorræna ráðið síðasta ár. Í lok fundar var undirritaður nýr samstarfssamningur ráðanna tveggja sem tekur við af samningi frá 2006. Nýmæli í samningnum snúa helst að aukinni samvinnu ráðanna á alþjóðlegum vettvangi.
    Pipaluk Lynge-Rasmussen, formaður Vestnorræna ráðsins, flutti ræðu á þinginu fyrir hönd ráðsins undir umræðulið um alþjóðlega samvinnu. Hún ítrekaði mikilvægi þess fyrir íbúa Vestur-Norðurlanda að leiðtogar heims næðu skýru og metnaðarfullu samkomulagi um viðbrögð við loftslagsvánni. Þá fagnaði hún góðu samstarfi við Norðurlandaráð og nýjum samstarfssamningi ráðanna.
    Á fundi forsætisnefndar tilkynnti Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri ráðsins, að hann hefði sagt stöðu sinni lausri og myndi ljúka störfum í lok janúar 2022. Forsætisnefnd ræddi fyrirkomulag ráðningar nýs framkvæmdastjóra og var samþykkt að hraða ferlinu eftir því sem kostur væri.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tók einnig þátt í hádegisverðarfundi fyrir erlenda gesti á Norðurlandaráðsþingi og í móttöku í tilefni af 25 ára afmæli Norræna Atlantssamstarfsins (NORA).


Fylgiskjal VII.


FRÁSÖGN
af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 20. desember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Pipaluk Lynge-Rasmussen, formaður landsdeildar Grænlands, Edva Jacobsen, formaður landsdeildar Færeyja, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Annika Mouritsen, starfsmaður færeysku landsdeildarinnar, og Arnaruluk Lundblad, starfsmaður grænlensku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá fundarins voru ráðning nýs framkvæmdastjóra ráðsins og þemaráðstefna ráðsins sem haldin verður í janúar 2022.
    Forsætisnefnd ræddi fyrirkomulag þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem áætlað er að halda á Akureyri 25.–27. janúar 2022. Bent var á að staða sóttvarnamála gæti haft áhrif á fundinn og einnig yfirstandandi stjórnarkreppa í Færeyjum. Ákveðið var að forsætisnefnd tæki endanlega afstöðu til þess hvort halda ætti þemaráðstefnuna í byrjun janúar.
    Því næst fjallaði forsætisnefnd um ráðningarmálin á lokuðum fundi þar sem ákvörðun var tekin um að ráða Lárus Valgarðsson sem nýjan framkvæmdastjóra ráðsins.