Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 642  —  214. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um ólögmætar búsetuskerðingar.


     1.      Er ráðherra sammála áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016 og niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2516/2016 um ólögmætar búsetuskerðingar?
    Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli þessu var framkvæmd útreiknings búsetuhlutfalls vegna framtíðartímabila breytt til samræmis við álitið. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2516/2016 fjallaði aftur á móti um annað álitaefni, þ.e. hvort heimilt sé að reikna sérstaka framfærsluuppbót, sem greidd er samkvæmt heimildarákvæði í 9. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, í samræmi við búsetu með sama hætti og elli- og örorkulífeyrir er reiknaður út. Dómur héraðsdóms var staðfestur í Landsrétti og ákveðið var að áfrýja málinu til Hæstaréttar til þess að fá umfjöllun réttarins um tilteknar forsendur dómsins. Sú ákvörðun var tekin og málið kynnt í ríkisstjórn í tíð fyrri ráðherra.

     2.      Hefur Tryggingastofnun ríkisins greint réttaráhrif niðurstöðu álitsins og dómsins á réttindi lífeyrisþega sem hafa orðið fyrir ólögmætum búsetuskerðingum á undanförnum árum og gert þeim viðvart sem geta átt rétt á endurgreiðslu?
    Í kjölfar álitsins var verklagsregla Tryggingastofnunar ríkisins um framreikning á örorkulífeyri tekin til endurskoðunar og henni breytt til samræmis við niðurstöðu umboðsmanns. Niðurstaða umboðsmanns var að ekki væri skýr lagastoð fyrir því að reikna framtíðartímabil örorkulífeyris í sama hlutfalli og örorkulífeyri þegar lífeyrisþegi nyti ekki sambærilegra greiðslna frá öðru EES-ríki. Bent er á að ef um sambærilegar greiðslur frá öðru EES-ríki er að ræða er heimilt að hlutfallsreikna framtíðartímabil að tilteknum skilyrðum uppfylltum eins og fram kemur í álitinu. Búið er að gera öllum þeim lífeyrisþegum sem áttu rétt á endurskoðun á útreikningi viðvart um það. Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2516/2016 var áfrýjað til Landsréttar og dómi Landsréttar í máli nr. 536/2020 hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða dómstóla í því máli er þetta er ritað.

     3.      Hefur Tryggingastofnun endurgreitt lífeyrisþegum sem hafa orðið fyrir ólögmætum búsetuskerðingum á undanförnum árum að fullu ásamt dráttarvöxtum? Ef svo er, þá hvenær? Ef svo er ekki, hvers vegna ekki og hvenær stendur til að gera það?
    Tryggingastofnun hefur endurskoðað mál þeirra sem féllu undir breytta verklagsreglu varðandi framreikning á örorkulífeyri og greitt þeim sem áttu rétt á endurskoðuðu búsetuhlutfalli ásamt vöxtum samkvæmt lögum um almannatryggingar. Endurskoðun á búsetuútreikningi örorkulífeyris hefur staðið yfir síðastliðin þrjú ár eða frá 1. júní 2019 hjá tæplega 1.400 örorkulífeyrisþegum. Til að endurskoðun geti farið fram þarf að kalla eftir gögnum frá fyrra búsetulandi og eru gögn enn að berast.

     4.      Hversu margir sættu ólögmætum búsetuskerðingum á undanförnum tíu árum og hversu margir hafa fengið endurgreitt frá Tryggingastofnun vegna þeirra skerðinga?
    Eins og kom fram í svari við 3. tölul. áttu tæplega 1.400 einstaklingar rétt á endurskoðun á búsetuhlutfalli örorkulífeyris. Endurskoðunin náði aftur til 1. júní 2014 eða í fjögur ár frá því að álit umboðsmanns Alþingis var birt í samræmi við almennar fyrningarreglur. Um 830 einstaklingar hafa fengið endurgreitt en 372 einstaklingar áttu ekki rétt á breyttum framreikningi, sbr. svar við 2. tölul. Ekki hefur tekist að ljúka endurreikningi hjá 150 einstaklingum þar sem gögn vantar frá fyrra búsetulandi þeirra.

     5.      Hversu margar kröfur um endurgreiðslur hafa borist vegna ólögmætra búsetuskerðinga? Í hversu mörgum tilvikum voru kröfur um endurgreiðslu fyrndar? Var endurgreitt í þeim tilvikum þegar kröfur um endurgreiðslu voru fyrndar?
    Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis sendu tólf einstaklingar inn beiðni um endurskoðun á búsetuhlutfalli. Öllum hefur verið svarað og fengu viðkomandi einstaklingar niðurstöðu í sínum málum í samræmi við breytta verklagsreglu Tryggingastofnunar.