Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 679  —  471. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (leiðrétting o.fl.).

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.



1. gr.

    1. mgr. 6. gr. b laganna orðast svo:
    Losun gróðurhúsalofttegunda og upptaka sem fellur undir flokk landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar hjá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skal ekki leiða af sér nettólosun á tímabilinu 2021–2025 annars vegar og 2026–2030 hins vegar til að tryggja framlag Íslands til sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og Evrópusambandsins.

2. gr.

    Við 27. gr. a laganna bætist: auk jöfnunarskyldu flugrekenda.

3. gr.

    Við 47. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 frá 17. júní 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar að útiloka flug sem kemur frá Bretlandi frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

4. gr.

    Við 2. mgr. II. viðauka við lögin bætist nýr stafliður, svohljóðandi: flugferðir frá flugvöllum í Bretlandi til flugvalla á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Með breytingalögum nr. 98/2020, sem breyttu lögum um loftslagsmál, var samþykktur nýr III. kafli A sem sneri að skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum til 2030.
    Í ljós hefur komið að orðaröðun í upphafi 1. mgr. 6. gr. b í III. kafla A er röng og þarf að lagfæra. Einnig er lagt til að bæta við 27. gr. a heimild ráðherra til að setja reglugerð um jöfnunarskyldu flugrekenda samkvæmt kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Auk þess er með frumvarpinu lagt til að innleidd verði ákvörðun Evrópusambandsins sem varðar breytingu á áður innleiddri gerð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með breytingalögum nr. 98/2020 var bætt við nýjum III. kafla A, Skuldbindingar í loftslagsmálum til 2030. Í ljós hefur komið að orðaröðun 1. mgr. 6. gr. b er ekki rétt og merking ákvæðisins því röng. Eins þarf að bæta við 27. gr. a heimild ráðherra til að mæla fyrir um tilteknar skyldur flugrekenda í reglugerð.
    Að auki er lagt til að innleidd verði framseld ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 en hún snýr að breytingu á II. viðauka við lögin sem fjallar um flug sem er undanþegið frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Slíkt er nauðsynlegt til að samræma lögin við efnisákvæði í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB sem þegar hefur verið innleidd.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að orðaröðun í 1. mgr. 6. gr. b verði lagfærð, bætt verði við reglugerðarheimild sem kveðið er á um í 27. gr. a auk þess er lagt til að innleiða eina gerð Evrópusambandsins.
    Með breytingalögum nr. 98/2020 var bætt við nýjum kafla, III. kafla A, Skuldbindingar í loftslagsmálum til 2030. Kaflinn fjallar annars vegar um skuldbindingar vegna sameiginlegrar ábyrgðar á samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda í flokki orku, iðnaðarferla og efna-/vörunotkunar, landbúnaðar og úrgangs í samræmi við hlut Íslands í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, Íslands og Noregs til að uppfylla skuldbindingar Parísarsamningsins, sbr. 6. gr. a, og hins vegar um skuldbindingar vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar, sbr. 6. gr. b. Ákvæði 6. gr. b fjallar um losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku sem fellur undir flokk landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar sem skuli ekki leiða af sér nettólosun á tímabilinu 2021–2025 annars vegar og 2026–2030 hins vegar í því skyni að tryggja framlag Íslands til sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og Evrópusambandsins. Lögð er til breyting á orðaröðun 1. mgr. 6. gr. b svo inntak ákvæðisins verði rétt með því að færa orðið „gróðurhúsalofttegunda“ þannig að það komi beint á eftir orðinu „Losun“ í upphafi 1. mgr. Ekki er ætlunin í ákvæðinu að fjalla um upptöku gróðurhúsalofttegunda heldur losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku sem fellur undir flokk landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar. Með upptöku er átt við bindingu kolefnis úr andrúmslofti með tilteknum aðgerðum, sbr. 1. tölul. 3. gr.
    Í VII. kafla A, sem bætt var við lögin með breytingarlögum nr. 98/2020, er fjallað um vöktun og skýrslugjöf samkvæmt CORSIA-kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (kerfi sem heldur utan um losun gróðurhúsalofttegunda í alþjóðaflugi). Í CORSIA-kerfinu er flugrekendum sem hafa skuldbundið sig til þátttöku í kerfinu á valfrjálsu tímabili (2021–2023) skylt að jafna losun sína sem er umfram losun samkvæmt losunargögnum ársins 2019. CORSIA-kerfið verður innleitt í gegnum viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og er gert ráð fyrir því að stjórnvöld aðildarríkja tilkynni flugrekendum ár hvert hver jöfnunarskylda þeirra verður vegna losunar undangengins árs. Lögð er til breyting á 27. gr. a svo ráðherra verði unnt að mæla fyrir um jöfnunarskyldu flugrekenda í reglugerð en stjórnvöld skulu fyrir 30. nóvember 2022 tilkynna flugrekendum hver jöfnunarskylda þeirra verður fyrir árið 2021.
    Jafnframt er lagt til að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 verði innleidd og henni bætt við 47. gr. laganna. Tengist sú ákvörðun viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Með ákvörðuninni er flug frá flugvöllum í Bretlandi til flugvalla innan EES-svæðisins undanskilið frá viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Evrópusambandið gerði samning við Bretland í desember 2020 sem kveður á um að hver samningsaðili hafi til staðar skilvirkt kerfi sem heldur utan um kolefnisverðlagningu á flugi og að ESB hafi umsjón með flugi frá flugvöllum innan EES-svæðisins til Bretlands en Bretland beri ábyrgð á flugi frá Bretlandi til flugvalla innan EES-svæðisins.
    Svipuð leið var farin þegar Evrópusambandið og Sviss gerðu samkomulag um tengingu viðskiptakerfa þeirra vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í desember 2015. Samkvæmt þeim samningi hefur ESB umsjón með flugi frá flugvöllum EES-svæðisins til Sviss en Sviss ber ábyrgð á flugi frá Sviss til EES-svæðisins. Framseld ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1071 frá 18. maí 2020 að því er varðar að útiloka flug sem kemur frá Sviss frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir var tekin upp í lögin í fyrra, sbr. lög nr. 35/2021.
    Breytingin sem lögð eru til á II. viðauka við lögin, sem fjallar um losun frá flugstarfsemi, er tilkomin vegna áðurnefndrar framseldrar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 frá 17. júní 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar að undanskilja flug sem kemur frá Bretlandi frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Efni ákvörðunarinnar breytir I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir en hann var á sínum tíma innleiddur sem II. viðauki við lög um loftslagsmál. Í viðaukanum eru talin upp þau flug sem eru undanþegin gildissviði viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um frumvarp til laga var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda dagana 17. desember 2021 til 7. janúar 2022 (mál nr. S-234/2021) í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa frá 10. mars 2017. Engar umsagnir bárust.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda dagana 20. janúar sl. til 7. febrúar sl. (mál nr. S-15/2022). Ein umsögn barst en hún varðaði ekki efnis frumvarpsins beint.
    Í samráði við Umhverfisstofnun er lögð til breyting á 27. gr. a laganna þar sem ráðherra verði veitt heimild til að mæla fyrir um jöfnunarskyldu flugrekenda í reglugerð samkvæmt CORSIA-kerfinu.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarp þetta hafi áhrif á rekstur ríkissjóðs eða aðra starfsemi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að orðalag 1. mgr. 6. gr. b laganna verði breytt svo inntak ákvæðisins verði rétt með því að færa til orðið „gróðurhúsalofttegunda“ þannig að það komi strax á eftir orðinu „Losun“.

Um 2. gr.

    Lagt er til að bæta orðunum „auk jöfnunarskyldu flugrekenda“ við 27. gr. a svo unnt verði að mæla fyrir um jöfnunarskyldu flugrekenda samkvæmt CORSIA-kerfinu í reglugerð.

Um 3. gr.

    Lagt er til að innleidd verði EES-gerð sem varðar undanþágu flugs frá Bretlandi. Um er að ræða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 sem breytir tilskipun 2003/87/EB og varðar flug frá Bretlandi sem eru undanþegin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Greinin þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 4. gr.

    Lögð er til breyting á II. viðauka við lögin í samræmi við framselda ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 frá 17. júní 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar undanþágu flugs sem kemur frá Bretlandi frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.