Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 685  —  476. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heildarendurskoðun rekstrarumhverfis fjölmiðla.


Flm.: Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að skipa starfshóp um heildræna endurskoðun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu þeirra fjölmiðla sem starfa á íslenskum markaði, hvort sem þeir eru íslenskir, erlendir, í einkaeigu eða í eigu ríkisins. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum fjölmiðlanefndar, Blaðamannafélags Íslands, hagfræðideildar Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis.
    Starfshópurinn líti sérstaklega til eftirfarandi þátta:
     1.      Rekstrarumhverfis einkarekinna miðla á Íslandi í samanburði við önnur norræn ríki. Starfshópurinn taki afstöðu til þess hvort sérstakt styrkjakerfi sé best til þess fallið að bæta stöðu fjölmiðlamarkaðarins eða hvort breytingar á sköttum og gjöldum séu hagkvæmari lausn, sem og til reynslu annarra norrænna ríkja af slíku kerfi. Eins leggi starfshópurinn mat á það hvort þörf sé á stuðningi við alla miðla eða hvort hagkvæmara sé að stuðningur afmarkist við smáa, nýja eða svæðisbundna miðla.
     2.      Hagrænna áhrifa þess að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, annars vegar fyrir rekstur einkarekinna miðla og hins vegar fyrir samfélagið í heild. Starfshópurinn meti einnig áhrif slíkra breytinga á tekjur Ríkisútvarpsins.
     3.      Þess hvernig best sé að haga skattlagningu erlendra efnisveitna og samfélagsmiðla til samræmis við þau skattalög sem gilda um innlenda miðla, með það að leiðarljósi að jafna samkeppnisstöðu þeirra.
    Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir árslok 2022. Ráðherra innleiði tillögurnar strax og leggi skýrslu fyrir Alþingi um stöðu innleiðingarinnar á 153. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Fjölmiðlar starfa á einum samhangandi markaði. Sérstakur stuðningur við einkarekna fjölmiðla, skattlagning erlendra miðla og staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur áhrif á samkeppnisumhverfi fjölmiðla, þótt með ólíkum hætti sé. Breyting á einum þessara þátta hefur áhrif á umhverfið í heild og telja flutningsmenn tillögu þessarar því þörf á heildstæðri endurskoðun þar sem tekið yrði mið af öllum þáttum rekstrarumhverfis fjölmiðla.
    Þingmál sem varða fjölmiðlamarkaðinn eru yfirleitt lögð fram sjálfstætt og án tillits til annarra þátta. Útkoman verður óhjákvæmilega bútasaumskennt rekstrarumhverfi. Ýmsum spurningum er einnig ósvarað, t.d. hvaða áhrif það hefði á auglýsingamarkaðinn að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á honum eða hvaða áhrif það hefði á stuðning ríkissjóðs við fjölmiðla og menningarstarf.
    Stuðningsúrræði fyrir einkarekna fjölmiðla, sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili með lögum nr. 58/2021, um breytingu á lögum um fjölmiðla, hafa einnig verið gagnrýnd, m.a. vegna þess að þau fela í sér mun meiri stuðning við stærri fjölmiðla án tillits til þess hvar stuðningsþörfin sé mest og vegna þess að þau vekja spurningar um sjálfstæði fjölmiðla gagnvart ríkisvaldinu.
    Ekki fer á milli mála að einkareknir fjölmiðlar standa höllum fæti. Rekstrarlíkan áskriftarmiðla, eins og var ríkjandi fyrir tíma internetsins, virðist ekki ganga upp lengur og fjölmiðlar hafa þurft að aðlaga sig mjög á skömmum tíma. Þá hefur Ísland fallið jafnt og þétt niður lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi. Þar skipa önnur norræn ríki sér í efstu fjögur sætin en Ísland hefur á undanförnum árum fallið úr áttunda sæti niður í það fimmtánda.
    Stuðningur við fjölmiðla annars staðar á Norðurlöndum er með mismunandi sniði. Þar má nefna að í Noregi nýtur stærsti fjölmiðillinn á hverju svæði ekki stuðnings nema hann falli í flokk smærri fjölmiðla. Í Finnlandi er stuðningur annars vegar veittur prent- og netmiðlum sem eru gefnir út á tungumálum minnihlutahópa og hins vegar á grundvelli nýsköpunar sem er ekki bundin útgáfu heldur miðast að því að koma á fót nýjum miðlum eða þróa nýja þjónustu, lausnir og framleiðsluaðferðir í fjölmiðlun. Þessi tvö lönd, Noregur og Finnland, skipa tvö efstu sætin á framangreindum lista. Því leggja flutningsmenn til að starfshópnum verði falið að gera sérstakan samanburð á rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og í öðrum norrænum ríkjum.
    Skýrir almannahagsmunir liggja í því að fjölmiðlamarkaðurinn sé heilbrigður og að jafnvægi ríki á honum milli innlendra og erlendra miðla og milli einkarekinna miðla og Ríkisútvarpsins. Því leggja flutningsmenn til að ráðherra skipi starfshóp sem verði falið að framkvæma heildrænt mat á rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og skili tillögum sem ráðherra verði falið að innleiða.