Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 688  —  126. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um tekjutryggingu almannatrygginga.

     1.      Hverjar hafa meðaltekjur ellilífeyrisþega verið á hverju ári síðan lög nr. 116/2016 tóku gildi?
    Tafla 1 sýnir meðaltekjur einstaklinga sem áttu rétt á ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) á árunum 2017–2021.
    Til tekna teljast skattskyldar tekjur, þar með taldar greiðslur frá TR. Miðað er við maímánuð hvert ár.

Ár Mánaðartekjur
í krónum
2017 395.482
2018 415.869
2019 430.458
2020 438.818
2021 454.792
Tafla 1: Meðaltekjur einstaklinga sem áttu rétt á ellilífeyri frá TR í maí á árunum 2017–2021.

     2.      Hverjar hefðu meðaltekjur ellilífeyrisþega verið á hverju ári síðan lögin tóku gildi ef sérstakt frítekjumark hefði átt við um greiðslur úr lífeyrissjóði?
    Tafla 2 sýnir meðaltekjur einstaklinga sem áttu rétt á ellilífeyri frá TR á árunum 2018– 2021 ef sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega, að fjárhæð 1.200.000 kr. á ári, hefði einnig átt við um greiðslur úr lífeyrissjóði.

Ár Mánaðartekjur
í krónum
2018 448.003
2019 463.928
2020 472.910
2021 489.360
Tafla 2: Meðaltekjur einstaklinga sem áttu rétt á ellilífeyri frá TR í maí á árunum 2018–2021 ef sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna hefði átt við um greiðslur úr lífeyrissjóði og atvinnutekjur.

     3.      Hversu miklu munar á greiðslum til ellilífeyrisþega í heild á hverju ári síðan lögin tóku gildi?

    Tafla 3 sýnir hversu miklu munar á greiðslum til ellilífeyrisþega í heild á hverju ári síðan sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var lögfest 1. janúar 2018.

Ár Árlegur kostnaðarauki í milljörðum króna
2018 13,9
2019 15,0
2020 15,8
2021 16,5

Tafla 3: Munur á greiðslum til ellilífeyrisþega í heild á hverju ári frá 1. janúar 2017.


     4.      Hvaða heimild hefur Tryggingastofnun til þess að telja ekki greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem atvinnutekjur og láta þær því falla utan sérstaka frítekjumarksins vegna atvinnutekna? Er það vegna fyrirmæla frá ráðuneytinu?
    Heimild Tryggingastofnunar til að láta greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum falla utan sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega byggist á 16. og 23. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna er meginreglan sú að allar tekjur lífeyrisþega skuli teljast til tekna við útreikning bóta en frá því eru gerðar nokkrar undantekningar í lögunum. Þannig er í 4. mgr. 16. gr. laganna kveðið á um hvaða tekjur ellilífeyrisþega skuli ekki teljast til tekna samkvæmt lögunum en þar eru greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum ekki taldar upp og eru því ekki undanþegnar við útreikning ellilífeyris. Annað á við um útreikning örorkulífeyris, sbr. 3. mgr. 16. gr. laganna, þar sem sérstaklega er kveðið á um að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum teljist ekki til tekna og eru því undanþegnar við útreikning örorkulífeyris.
    Í 1. mgr. 23. gr. laganna er síðan kveðið á um almennt frítekjumark ellilífeyrisþega að fjárhæð 300.000 kr. á ári, en það gildir um allar tekjur ellilífeyrisþega, og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem var 1.200.000 kr. á ári en hækkaði í 2.400.000 kr. á ári þann 1. janúar sl. Fyrrnefnda frítekjumarkið á m.a. við um greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum en hið síðarnefnda á eingöngu við um atvinnutekjur ellilífeyrisþega og nær þar af leiðandi ekki yfir greiðslur úr lífeyrissjóðum.

    Svör við 1.–3. tölul. eru byggð á upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins.