Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 696  —  324. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um laun og styrki til afreksíþróttafólks.


     1.      Í hvaða farvegi er sú vinna í ráðuneytinu sem segir um í stjórnarsáttmála að „áfram verði unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks, þar sem verði m.a. litið til eflingar afreksíþróttasjóðs og ferðajöfnunarsjóðs“? Er unnið að því að móta heildstæða stefnu hvað varðar afreksíþróttamenn?
    Ferðasjóður íþróttafélaga var stofnaður í kjölfar samþykktar ályktunar alþingis 25/132, 2005–2006. Framlög hafa verið veitt í sjóðinn frá árinu 2007. Öll íþrótta- og ungmennafélög innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) geta sótt um styrk vegna keppnisferða allra aldursflokka innan lands. ÍSÍ hefur frá upphafi haft umsjón með úthlutunum úr sjóðnum. Einungis eru veittir styrkir til að mæta beinum ferðakostnaði vegna ferða umfram 150 km hvora leið.
    Stefna ráðuneytisins í íþróttamálum tekur á ýmsum þáttum íþróttastarfsins, þar á meðal keppnis- og afreksíþróttum. Samráðshópur sem skipaður er fulltrúum hagsmunaaðila hefur haft stefnuna til skoðunar. Hópurinn mun á vormánuðum skila tillögum út frá yfirferð sinni. Í íþróttastefnunni sem gildir til ársins 2030 er tilgreint að endurskoðun hennar skuli fara fram árið 2024. Á 151. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Samráðshópurinn mun á vormánuðum leggja fram tillögur um frekari eflingu umgjarðar um afreksfólk í íþróttum. Líta má á það sem hluta af því að efla umgjörð um afreksstarf í víðara samhengi. Það að íslenskir íþróttamenn hafi aðgengi að þjónustu sem styður þá á sinni braut æfinga og keppni skiptir máli. Aðgengi að færum þjálfurum og fagfólki í íþrótta- og heilbrigðisvísindum getur skipt máli á efsta getustigi íþróttanna og greint á milli keppinauta. Því þarf jafnframt að huga að uppbyggingu þeirra þátta í samstarfi við skóla og fræðasamfélag. Uppbygging þjóðarleikvanga í íþróttum, sem fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, getur skipt máli fyrir eflingu afreksíþrótta hér á landi. Nú hefur verið skipaður starfshópur með fulltrúum þriggja ráðuneyta sem á að fara yfir stöðuna og leiða samtal um samstarf um uppbygginguna við fulltrúa Reykjavíkurborgar. Fyrirmyndir í íþróttastarfi skipta máli. Það að geta tekið þátt í alþjóðlegu keppnisstarfi hér á landi samkvæmt nútímalegum kröfum mun hafa jákvæð áhrif á íþróttastarfið og efla það og okkar öfluga íþróttafólk. Það að eiga hallir sem taka vel á móti áhorfendum og gera upplifunina af því að sækja íþróttaviðburði skemmtilega og eftirsóknarverða getur til lengri tíma haft áhrif á viðhorf almennings til íþrótta og íþróttaviðburða. Stefnt er á að markverð skref verði tekin fljótt í uppbyggingu slíkra mannvirkja.
    Þrátt fyrir að vera smáþjóð í alþjóðlegum fólksfjöldasamanburði hefur árangur íslensks íþróttafólks og íþróttaliða verið glæsilegur í gegnum tíðina. Metnaðarfullt starf er unnið árið um kring af fjöldamörgum aðilum í ýmsum einingum íþróttahreyfingarinnar. Fremsta íþróttafólk landsins þarf að leggja mikið á sig við æfingar og keppnir. Íþróttamennirnir þurfa margir hverjir að dveljast langdvölum fjarri heimalandinu og verja miklum tíma í ferðalög tengd íþróttaþátttökunni með tilheyrandi kostnaði. Það að halda úti starfsemi landsliða er kostnaðarsamt óháð íbúafjölda landsins. Í tilfelli íslenskra landsliða spilar einnig inn í kostnaður vegna ferðalaga innan lands sem getur verið umtalsverður auk þess sem flugleggirnir eru oftar en ekki fleiri fyrir landsliðsfólk okkar en mótherjana þegar það tekur þátt í alþjóðlegum verkefnum.

     2.      Hvers konar fyrirkomulag sér ráðherra fyrir sér á þessu? Mun ráðherra t.d. horfa frekar til þess að afreksíþróttamenn fái laun en styrki?
    Stuðningur við afreksstarf á Íslandi hefur aukist frá árinu 2016 með auknum framlögum til afrekssjóðs ÍSÍ. Þrátt fyrir það nýtur keppnisstarf sérsambanda ekki sambærilegs stuðnings og hjá nágrannaþjóðum þegar kemur að framlögum til keppnisstarfs sérsambanda. Fyrirkomulag styrkveitinga til afreksíþróttafólks í einstaklingsgreinum er og hefur verið með þeim hætti að mennta- og barnamálaráðuneytið veitir fjármagni til Afrekssjóðs ÍSÍ samkvæmt samningi við ÍSÍ. Í Afrekssjóð ÍSÍ geta sérsambönd sótt um styrki vegna verkefna sinna. Einnig geta þau sótt um styrki fyrir sitt fremsta afreksfólk. Á undanförnum árum hafa sérsambönd ÍSÍ fengið í heildina um 30 styrki vegna tilgreindra einstaklinga árlega. Sérsamband og viðkomandi íþróttamaður gera samning um ráðstöfun styrks þar sem tilgreint er hvort einstaklingar noti sinn skilgreinda styrk upp í kostnað vegna íþróttaiðkunarinnar sem laun eða blöndu af þessu tvennu. Þar sem þær upphæðir sem um ræðir til einstaklinga eru það lágar og útlagður kostnaður hár hafa styrkirnir til þessa nær undantekningarlaust verið greiddir upp í útlagðan kostnað. Afreksíþróttafólk hefur á undanförnum árum sett fram óskir um aukinn stuðning. Óskir afreksíþróttafólksins hafa annars vegar snúið að stuðningi vegna framfærslu og hins vegar vegna lýðréttinda. Margt okkar fremsta íþróttafólk hefur það takmarkaðar tekjur að það nær ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Auk þess dvelja mörg þeirra langdvölum erlendis við æfingar og keppni sem getur haft áhrif á réttindi þeirra hér á landi. Það að okkar fremsta íþróttafólk geti fengið laun getur hjálpað til við að byggja upp réttindi, eins og lífeyrisréttindi og rétt til töku fæðingarorlofs, fyrir íþróttafólkið sem oft reynir fyrst á að loknum íþróttaferli. Einhver sveigjanleiki þarf að vera til staðar til að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna. Það að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á það álag sem fylgir þátttöku í alþjóðlegri samkeppni íþróttafólks hefur skiljanlega ekki góð áhrif á íþróttafólk í fremstu röð og er ekki hvetjandi fyrir efnilegt íþróttafólk til að nýta hæfileika sína og feta braut alþjóðlegra afreksíþrótta. Því verður horft til þessara þátta þegar gerðar verða tillögur að fyrirkomulagi.

     3.      Hyggst ráðherra taka upp fyrirkomulag þar sem afreksíþróttafólk í öllum greinum geti sótt um slík laun eða styrki?
    Með auknum fjármunum til Afreksíþróttasjóðs á undanförnum árum hefur verið hægt að styðja betur við starf sérsambanda. Stöðu afreksíþróttafólks sem þátt tekur í alþjóðlegum keppnum á háu getustigi og stuðning við þau þarf að skoða enn betur. Ljóst er að enn betur þarf að gera svo að fremsta íþróttafólk landsins standi jafnfætis íþróttamönnum nágrannaþjóða hvað þennan þátt varðar. Að mörgum þáttum er að hyggja og ekki liggja fyrir tillögur að útfærslu á þessum tímapunkti. Of snemmt er að segja til um hvort gera þurfi umfangsmiklar breytingar á því fyrirkomulagi sem er til staðar. Eins og fyrirkomulagið er núna er það á hendi sérsambands viðkomandi íþróttagreinar að forgangsraða umsóknum um einstaklingsstyrki. Mismunandi er eftir íþróttagreinum hverjir tekjuöflunarmöguleikarnir eru fyrir íþróttafólk á alþjóðlegu getustigi. Algengara er að íþróttafólk í liðagreinum hafi lífsviðurværi sitt af iðkun íþrótta. Út frá því má gera ráð fyrir að þörfin fyrir styrki vegna framfærslu sé mest fyrir íþróttafólk í einstaklingsgreinum. Skoða þarf aðstæður afreksíþróttafólks á alþjóðlegu getustigi í heild sinni og horfa til þess hvaða stuðning íþróttafólk okkar á sama getustigi er að fá. Eðlilegt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem nú þegar er til staðar hjá ÍSÍ vegna utanumhalds á Afrekssjóði ÍSÍ og stuðnings við afreksíþróttastarfið og afreksíþróttafólkið.

     4.      Hvenær sér ráðherra fyrir sér að afreksíþróttafólk geti sótt um slíka framfærslu hjá ríkinu?
    Eins og þegar hefur komið fram getur afreksíþróttafólk sem nýtur einstaklingsstyrkja úr Afrekssjóði ÍSÍ óskað eftir að fá styrkinn greiddan vegna framfærslu kjósi það svo. Beinu styrkirnir sem okkar fremsta afreksfólk fær eru takmarkaðir og hafa því fæst þeirra valið þá leið fram til þessa. Flest hafa valið að fá styrkina greidda á móti íþróttatengdum kostnaði. Skoða þarf aðbúnað fremsta íþróttafólks landsins og aðgengi að ýmiss konar stoðþjónustu. Of snemmt er að segja til um hvaða breytingar verða gerðar á núverandi fyrirkomulagi og þá með hvaða hætti.