Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 711  —  412. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur um endurheimt vistkerfa.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir markmiðum verkefnis Sameinuðu þjóðanna Áratugur endurheimtar vistkerfa í tengslum við loftslagsaðgerðir, landnotkun og við verndun og endurheimt votlendis og líffræðilegs fjölbreytileika?
    Áratugur endurheimtar vistkerfa 2021–2030 er ákall um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Markmiðið er að stöðva hnignun vistkerfa og endurheimta þau sem þegar eru röskuð. Þá er átt við vistkerfi bæði á landi og í hafi, eins og náttúruskóga, ræktarland, votlendi, borgarvistkerfi og sjávarvistkerfi. Heilbrigð vistkerfi eru grundvöllur þess að bæta lífskjör fólks, vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva hrun líffræðilegrar fjölbreytni.
    Ísland á sér langa sögu endurheimtar vistkerfa, en lengi vel var áskorunin að stöðva eyðingu lands.
    Umsjón með stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðsla illa farins lands er einkum á hendi Landgræðslunnar í samræmi við lög um landgræðslu, nr. 155/2018, enda er hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og annast daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
    Endurheimt vistkerfa á landi má í grófum dráttum flokka í þrennt:
     1.      Endurheimt mó- og graslendis, oftast með áburðardreifingu og sáningu grasfræs.
     2.      Endurheimt kjarr- og skóglendis, oft birkiskóga.
     3.      Endurheimt votlendis.
    Lítil áhersla hefur hingað til verið á endurheimt sjávarvistkerfa. Samkvæmt tillögu að landgræðsluáætlun sem nú er til meðferðar í matvælaráðuneytinu er áhersla á tvö markmið fyrir stöðvun jarðvegseyðingar og endurheimt vistkerfa:
     1.      Að auka endurheimt birkiskóga þannig að árið 2030 verði þekja þeirra 5% af flatarmáli landsins í stað 1,5% nú.
     2.      Að þrefalda umfang endurheimtarverkefna fyrir árið 2030 miðað við meðaltal áranna 2015–2017 en þá var meðalstærð nýrra endurheimtarsvæða 6.900 ha og umfang alls 16.780.
    Endurheimt votlendis, sem er ein af lykilaðgerðum í loftslagsmálum og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, hefur aukist undanfarin ár og er áætlað að hún muni aukast enn meira á komandi árum. Fram kemur í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum frá september 2021 að unnið var að endurheimt votlendis á 24 hekturum árið 2018 en á 264 hekturum árið 2020. Auk þess hafa verið skilgreindar 12 aðgerðir sem stuðla eiga að frekari verndun votlendis.
    Vernd og endurheimt vistkerfa vinnur með markmiðum í loftslagsmálum sem mótvægisaðgerð og stuðlar einnig að eflingu og verndun lífríkis og líffræðilegrar fjölbreytni.
    Ísland mun því auka aðgerðir enn frekar á þessu sviði á þessum áratug endurheimtar vistkerfa.
     2.      Hver er stefna ráðherra að því er snertir uppgræðslu lands og bindingu gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi og gróðri? Hvernig tekur sú stefna mið af líffræðilegum fjölbreytileika þeirra svæða sem græða þarf?
    Undanfarin ár hefur staðið yfir vinna við gerð fyrstu lögformlegu landgræðsluáætlunarinnar og landsáætlunar í skógrækt í samræmi við annars vegar lög um landgræðslu og hins vegar lög um skóga og skógrækt. Í tillögum að þessum áætlunum er fjallað mikið um verndun og endurheimt vistkerfa og tengsl við líffræðilega fjölbreytni.
    Áherslur í landgræðslu hafa breyst síðustu ár frá því að vera að stórum hluta notkun grasfræs og tilbúins áburðar yfir í meiri notkun á lífrænum áburði (ýmis lífrænn úrgangur, kjötmjöl, seyra o.fl.) og gróðursetningu birkis. Þetta er í samræmi við áætlun stjórnvalda frá árinu 2019 um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála. Þar er lögð áhersla á að stöðva losun frá landi og að tekið sé mið af lagalega bindandi alþjóðasamningum, svo sem samningi Sameinuðu þjóðanna um vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
    Tæplega . af yfirborði Íslands er með minna en 20% gróðurþekju. Því til viðbótar er talsvert eða mikið rof á ríflega . landsins. Á þessu landi er tækifæri til að bæta ástand vistkerfa, auka kolefnisbindingu og stöðva eyðingu jarðvegs. Mikil tækifæri felast í kolefnisbindingu og stöðvun losunar frá landi með aukinni útbreiðslu birkis og víðikjarrs. Með breytingu á landnýtingu og/eða landgræðsluaðgerðum sem tryggja að birki og víðir geti sáð sér og breiðst út með sjálfsáningu má ná mestum árangri við endurheimt birkiskóga og víðikjarrs og þar með bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi á stórum svæðum. Dæmi um slíkt má glögglega sjá í Þórsmörk þar sem birkiskógur hefur breiðst út í kjölfar friðunar fyrir sauðfjárbeit.
    Mikil tækifæri liggja í auknu samstarfi við bændur og sveitarfélög um stefnumörkun varðandi endurheimt landgæða. Starf Landgræðslunnar hefur þróast í þessa átt og nú fer stór hluti landgræðslustarfsins fram í samstarfsverkefnum Landgræðslunnar, Bændur græða landið og Landbótasjóði, þar sem einstaklingar, félagasamtök og sveitarfélög eru styrkt til að vinna að landgræðslu. Alls eru um 600 þátttakendur í Bændur græða landið. Á árinu 2021 var úthlutað úr Landbótasjóði rúmlega 90 millj. kr. til 96 verkefna.

     3.      Hyggst ráðherra leggja aukna áherslu á stefnu stjórnvalda frá 2018 um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála?
    Þær áherslur sem koma fram í stefnu stjórnvalda um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála frá því í júlí 2019 eru enn í fullu gildi og er unnið að þeim eins og fram kemur hér að framan.
    Unnið er að því að stöðva losun frá landi, sem er þá einkum land í slæmu ástandi, illa gróið og rofið, og framræst votlendi. Í þessu samhengi er unnið að því að fá skýrari mynd af kolefnisbúskap mismunandi landgerða. Jafnframt er unnið að skipulagi endurheimtarverkefna á stórum skala á landi þannig að unnið sé að aðgerðum með vistkerfisnálgun. Leitað verður leiða til að haga landnýtingu þannig að saman geti farið endurheimt á stórum landslagsheildum og sjálfbær landnýting. Tengja þarf betur saman stuðning í búvörusamningum og landnýtingu í þágu loftslagsmála.
    Landgræðslan og Skógræktin vinna eftir umbótaáætlun að því að bæta losunarbókhald Íslands hvað varðar landnotkun og verður unnið að því áfram að bæta upplýsingar um samhengi landnýtingar og loftslagsmála.
    Umfang aðgerða sem miða að því að vernda og efla líffræðilega fjölbreytni og lífríki almennt hefur verið aukið umtalsvert. Þetta á ekki síst við endurheimt votlendis, mólendis eða graslendis og birkiskóga. Slík verkefni eru í mjög góðu samræmi við alþjóðlega samninga. Nokkur umræða er um tegundanotkun í skógrækt og hvort þar sé verið að nota framandi tegundir sem geti talist ágengar eða ógni líffræðilegri fjölbreytni. Ljóst er að skógrækt með framandi tegundum breytir þeim vistkerfum sem fyrir eru og jafnframt er ljóst að sumar trjátegundir sem nýttar eru í trjárækt hér á landi sá sér út. Það er full ástæða til að unnið verði áhættumat fyrir notkun þessara tegunda og að útbúa leiðbeiningar um notkun þeirra, hvernig haga eigi vali á landi og að hverju þurfi að gæta. Stjórnsýslan hvað varðar skilgreiningu, notkun og dreifingu ágengra framandi lífvera er skilgreind í náttúruverndarlögum.
    Eins og kemur fram að framan hefur áhersla og umfang aðgerða í endurheimt vistkerfa aukist síðustu ár. Notkun á lífrænum úrgangi hefur einnig aukist, einkum í landgræðslu, en þar eru veruleg ónýtt tækifæri sem ætlunin er að nýta.
    Aðgerðir sem miða að bættri landnýtingu í þágu loftslagsmála hafa að stórum hluta verið á ábyrgð Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Verkefni stofnananna eru að stórum hluta samstarfsverkefni, unnin með einstaklingum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Sum verkefnin byggjast á styrkjum sem veitt er til tiltekinna verkefna og gefa því áhugasömum tækifæri á að taka þátt í þeim.