Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 716  —  499. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu Suðurfjarðavegar.


Flm.: Njáll Trausti Friðbertsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar, þ.e. þjóðvegar 1 (Reyðarfjörður–Breiðdalsvík) á austursvæði í samgönguáætlun. Hönnun og útboð á uppbyggingu vegarkaflans verði flýtt og fari fram á yfirstandandi kjörtímabili en ekki á 3. tímabili samgönguáætlunar.

Greinargerð.

    Með kraftmikilli uppbyggingu atvinnulífsins á undanförnum árum hefur umferð aukist um Suðurfjarðaveg, m.a. vegna skóla-, þjónustu- og atvinnusóknar innan sameinaðs sveitarfélags Fjarðabyggðar, ferðaþjónustu og síðast en ekki síst stórfelldra vöruflutninga til og frá höfnum svæðisins vegna álframleiðslu, öflugs sjávarútvegs og laxeldis.
    Ljóst er að Suðurfjarðavegur er mikill farartálmi með hættulegum vegarköflum og þremur einbreiðum brúm, þar á meðal brúnni yfir Sléttuá í Reyðarfirði sem er umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi. Vegarkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar þykir sérlega hættulegur með mörgum blindhæðum og kröppum beygjum og er auk þess að mestu leyti utan þjónustusvæðis farsímasambands. Suðurfjarðavegur er 33,7 km langur.
    Kaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur hefur verið metinn áhættumesti vegarkafli landsins í áraraðir í skýrslum EuroRAP um öryggi vega. Í skýrslum EuroRAP er horft til þess hvar flest alvarleg slys verða miðað við umferðarþunga (þ.e. látnir og alvarlega slasaðir á hverja milljón ekinna kílómetra). Þar kemur kaflinn út sem einnar stjörnu vegur af fimm mögulegum í öryggisskoðun EuroRAP, sem metur bæði öryggi vegarins og öryggissvæðisins sem fylgir.
    Á undanförnum árum hafa orðið alvarleg slys á þessum kafla. Í ljósi þess hve hættulegur vegarkaflinn er og með tilliti til ört vaxandi umferðarþunga, m.a. þungaflutninga, þarf að setja Suðurfjarðaveg í forgang í samgönguáætlun.