Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 730  —  448. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um málefni Sjúkrahússins á Akureyri.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að efla þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri, t.d. með því að gera samning við sjúkrahúsið um hjartaþræðingar?
     2.      Hyggst ráðherra skilgreina hvað felst í því að vera varasjúkrahús Landspítala eins og stendur í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007? Ef svo er, með hvaða hætti?


    Ráðherra leggur þunga áherslu á mikilvægi Sjúkrahússins á Akureyri innan heilbrigðisþjónustunnar. Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki í veitingu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi en að auki fyrir aðra hluta landsins með samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir og uppbyggingu menntunar heilbrigðisstarfsmanna sem kennslusjúkrahús. Á síðustu árum hefur umtalsverð aukning verið í fjárveitingum til Sjúkrahússins á Akureyri og telur ráðherrann þá áherslu sem hann leggur á eflingu þjónustunnar þar m.a. endurspeglast í umræddum fjárveitingum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í 7. gr. b. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, er fjallað um Sjúkrahúsið á Akureyri. Í 2. mgr. ákvæðisins er ráðherra gert að kveða nánar í reglugerð á um hlutverk og starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri og þá heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt. Þetta er gert í reglugerð nr. 1111/2020, um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa. Þar kemur fram í 26. gr. að hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sé að vera kennslusjúkrahús og varasjúkrahús Landspítala; veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu kennslusjúkrahúss, m.a. sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heilbrigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknardeildum; annast starfsnám háskólanema og framhaldsskólanema í heilbrigðisgreinum í grunn- og framhaldsnámi í samvinnu við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir; veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum; gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við háskóla og veita þeim aðstöðu til þess að sinna rannsóknum og öðrum störfum við sjúkrahúsið. Þá er fjallað um þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri í 27. gr. reglugerðarinnar, en þar kemur fram að Sjúkrahúsið á Akureyri skuli veita annars stigs heilbrigðisþjónustu og að einhverju leyti þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali skuli hafa með sér samráð um veitingu á þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Enn fremur kemur fram að sjúkrahúsið skuli veita nauðsynlega sérfræðiþjónustu, m.a. samkvæmt samningi við heilbrigðisstofnanir heilbrigðisumdæma og í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir, það skuli þróa öfluga dag- og göngudeildarþjónustu þar sem notendur heilbrigðisþjónustu sem þurfa álit sérfræðings geta komið samkvæmt beiðni heilsugæslulæknis eða annarra sérfræðinga, óháð því hvort þeir hafi legið inni á sjúkrahúsinu eða ekki og að það skuli þróa samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir til að tryggja að notendur fái heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Þá kemur fram að sjúkrahúsið beri ábyrgð á því að skilvirk verkferli séu þróuð í samvinnu við aðra þjónustuaðila.
    Hjartaþræðingar falla undir sérhæfða þriðja stigs heilbrigðisþjónustu og hefur verið sinnt af Landspítala um áratuga skeið. Þjónustan hefur orðið skilvirkari með árunum og í lok árs 2021 er nánast engin bið eftir þjónustu í hjartaþræðingum á Landspítala samkvæmt nýjustu úttekt embættis landlæknis um biðtíma.
    Íslensk heilbrigðisþjónusta er nú þegar töluvert miðlæg og þá sérstaklega sérhæfð heilbrigðisþjónusta, enda þarf ákveðinn fjölda sjúklinga til að tryggja lágmarks klínískan þröskuld, hvað varðar skilvirkni, gæði og öryggi meðferðarinnar.
    Í niðurstöðu skýrslu McKinsey frá því í lok árs 2021 um framtíðarhlutverk Landspítala, kemur fram að hæfilegt upptökusvæði fyrir sérhæfðar hjartalækningar séu um 320 þús. manns. Til þess að tryggja nægjanlega þjálfun starfsfólks þyrfti því að manna þjónustuna á Akureyri að megninu til með reglulegum starfsmannaskiptum við Landspítala. Samhliða þyrfti að leggja mat á möguleika mönnunar annarra starfsstétta sem koma að þjónustunni, kostnað við tækjabúnað og sérhæfingu legudeildar. Einnig þyrfti að rýna almennt aðgengi að þjónustunni og annarri bráðaþjónustu, ferðakostnað og biðtíma og leggja mat á upplifun sjúklinga af þjónustunni eins og hún er í dag. Að lokum þarf að meta hvort það sé fjárhagslega réttlætanlegt að dreifa þjónustunni frekar en nú er án þess að hafa áhrif á núverandi skilvirkni og hagkvæmni.
    Í ljósi framan ritaðs telur ráðherra hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri skýrt í þeim lögum og reglugerðum sem um það gildir og staða þess sem varasjúkrahús Landspítala endurspeglast í fyrrgreindu hlutverki þess.